Hvernig má virkja fjármálalífið til að fjármagna loftslagsbótasjóð

08.12.23 | Fréttir
The Way Forward: Sources of Financing for Loss and Damage
Photographer
Andreas Omvik/Norden.org
Á opnunardegi COP28 var samþykkt tímamótaákvörðun um að setja á laggirnar loftslagsbótasjóð og nýtt fyrirkomulag fjármögnunar til að bæta tap og tjón vegna loftslagsbreytinga. Í kjölfarið hétu ríki því að leggja rúman hálfan milljarð Bandaríkjadala í nýja sjóðinn og allt eru þetta jákvæð skref til að styðja við þróunarríki sem verða fyrir tjóni vegna loftslagsbreytinga.

Á COP28 í Dúbaí kynntu Wenger Law og Norræna ráðherranefndin rannsókn sína á því hvernig virkja megi fjármálalífið til að fjármagna loftslagsbótasjóðinn. Með hliðarviðburði okkar um nýstárlegar fjármögnunarleiðir og -lausnir til að bregðast við tapi og tjóni vegna loftslagsbreytinga vildum við efna til umræðu um hvernig tryggja megi áframhaldandi og aukinn fjárhagslegan stuðning við bótasjóðinn. 

Í inngangsræðu sinni sagði Ole Thonke, aðstoðarþróunarmálaráðherra Danmerkur: 

„Ég fagna þessari jákvæðu byrjun á COP28 þar sem vilyrði voru gefin fyrir rúmlega hálfs milljarðs Bandaríkjadala framlögum í loftslagsbótasjóðinn. Hefðbundin opinber fjármögnun mun þó ekki nægja til að brúa fjármögnunarbilið sem við stöndum frammi fyrir. Því þurfum við að skoða annars konar fjármögnunarleiðir. Í þessu samhengi er norræna rannsóknin á „fjármögnunarleiðum og -lausnum fyrir loftslagsbótasjóð“ afar tímabær. Ég vona að rannsóknin hvetji til pólitískra skoðanaskipta um nýstárlegar fjármögnunarlausnir með því að benda á nálganir sem standa stjórnmála- og embættismönnum til boða til að auka framlög í loftslagsbótasjóðinn.

Hefðbundin opinber fjármögnun mun ekki nægja til að brúa fjármögnunarbilið sem við stöndum frammi fyrir. Því þurfum við að skoða annars konar fjármögnunarleiðir.

Ole Thonke, aðstoðarþróunarmálaráðherra Danmerkur

Mr. Mattias Frumerie, loftslagsfulltrúi og formaður sænsku sendinefndarinnar, sagði:

„Nú þegar leggur fjöldi sjóða á landsvísu, svæðisvísu og á alþjóðlegum vettvangi sitt af mörkum til að bæta tjón og tap ríkja en það er þó ljóst að fjármagnið sem þarf til að bregðast við loftslagsbreytingum á bara eftir að aukast eftir því sem heimurinn hlýnar. Ég vona að skýrslan sem kynnt var í dag stuðli að auknum skilningi á nýjum og nýstárlegum fjármögnunarleiðum og -lausnum.“

Ég vona að skýrslan sem kynnt var í dag stuðli að auknum skilningi á nýjum og nýstárlegum fjármögnunarleiðum og -lausnum.

Mattias Frumerie, loftslagsfulltrúi og formaður sænsku sendinefndarinnar

Að inngangsræðunum loknum fóru fram pallborðsumræður með alþjóðlegum sérfræðingum þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að nýta fjármögnun úr einkageiranum til að bregðast við tapi og tjóni vegna loftslagsbreytinga.

Rannsókn okkar miðar að því að efla pólitísk skoðanaskipti á málefnalegum grundvelli. Í henni er bent á ólíkar fjármögnunarleiðir og möguleika þeirra á að stuðla að aukinni fjármögnun loftslagsbótasjóðs. Samkvæmt rannsókninni eru kolefnismarkaðir og -kerfi, skattar og álögur, einkageirinn og tryggingar meðal mögulegra fjármögnunarleiða fyrir  loftslagsbótasjóð. 

Á viðburðinum var hvatt til breiðs samtals með aðkomu hins opinbera og einkageirans, bent á tækifæri til alþjóðlegrar samvinnu og landsbundinna aðgerða og gefin ráð um valkostina sem stjórnmála- og embættismenn standa frammi fyrir.