Jafnrétti ábótavant á netinu

25.01.22 | Fréttir
Digitalisering
Photographer
Victoria Mørck Madsen / Ritzau Scanpix
Ef þú ert kona í stjórnmálum eru meiri líkur á að þú hafir orðið fyrir hótunum eða áreitni á netinu en að þú hafir sloppið við það. Það bitnar á tjáningarfrelsinu og jafnrétti í umræðum á netinu. Því mælist norræna velferðarnefndin til þess að Norræna ráðherranefndin taki saman samnorræn stefnu um að sporna við stafrænu ofbeldi og hótunum.

Norræna velferðarnefndin ákvað í dag að beina tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda um að taka saman höndum um sameiginlega stefnu gegn stafrænu ofbeldi og hótunum á netinu. Að baki þessu liggur dapurleg tölfræði. Nú síðast kom fram á þingi Norðurlandaráðs að 10 af 14 fulltrúum í nefndinni höfðu orðið fyrir stafrænu ofbeldi. Í Alþjóðaþingmannasambandinu og Þingmannasamtökum Evrópuráðsins hefur 46,9 prósentum aðspurðra kvenna frá hlutaðeigandi þjóðþingum borist hótanir um líflát eða nauðgun. 58,2% kvennanna höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á samfélagsmiðlum.

„Það er algjörlega óviðunandi að svo margar konur og annað fólk upplifi hótanir á netinu. Norrænu ríkisstjórnirnar verða að vera samstíga í stefnu sinni gegn stafrænu ofbeldi og hótunum,“ segir Tone Wilhelmsen Trøen, talskona jafnréttismála í velferðarnefndinni.

 


 

Karlar eldri en 50 ára allsráðandi í umræðum á Facebook

Rannsókn dönsku mannréttindastofnunarinnar, Institut for Menneskerettigheder, frá árinu 2019 sýndi að hinn harði tónn hefur fælandi áhrif á þátttöku almennings og áhuga hans á lýðræðisumræðu á Facebook. 59 prósent veigra sér við því að tjá skoðanir sínar. Þar af eru konur í meirihluta sem þýðir að karlar eldri en 50 ára eru allsráðandi í umræðum á Facebook.

„Ef einn þjóðfélagshópur ræður lögum og lofum í opinberri umræðu og aðrar mikilvægar raddir fá ekki að heyrast ríkir ekki jafnrétti og það dregur úr mætti lýðræðisins og samfélagslegrar umræðu,“ segir Eva Lindh, formaður velverðarnefndarinnar.

 

Ef einn þjóðfélagshópur ræður lögum og lofum í opinberri umræðu og aðrar mikilvægar raddir fá ekki að heyrast er ekki jafnrétti og það dregur úr mætti lýðræðisins og samfélagslegrar umræðu.

Eva Lindh, formaður norrænu velferðarnefndarinnar

Stafrænt ofbeldi þekkir ekki landamæri

Nefndarfulltrúar benda á að þetta sé úrlausnarefni sem gengur þvert á landamæri og því þurfi að leysa það í sameiningu.

„Stafrænt ofbeldi þekkir engin landamæri, svo það verður að leysa vandamálið með samvinnu yfirvalda yfir landamæri og í samstarfi við þau tæknifyrirtæki sem sem skapa slíku stafrænu ofbeldi vettvang,“ segir Per-Arne Håkansson, talsmaður velferðarnefndarinnar um málefnið. Nefndin leggur til að mörkuð verði samnorræn stefna sem felur í sér ráðgjafarnefnd eða þekkingar- og hugmyndaveitu. Einnig vill nefndin sjá Norðurlönd skylda tæknirisa til að taka enn meiri ábyrgð á því að sporna við stafrænu ofbeldi í þjónustum sínum, t.d. Facebook.