Jens Stoltenberg: „Við verðum að fjárfesta meira í varnarmálum“

31.10.23 | Fréttir
Jens Stoltenberg på Sessionen
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, ávarpaði þing Norðurlandaráðs í Ósló á þriðjudaginn í skugga tvennra stríðsátaka, í Mið-Austurlöndum og Evrópu. Hann minnti á að ekki mætti láta skálmöldina á Gaza skyggja á stríðið í Úkraínu og fagnaði því að brátt yrðu öll norrænu löndin aðilar að NATO.

Jens Stoltenberg byrjaði á því að fordæma hryðjuverkaárás Hamas gegn Ísrael og benda á að gagnviðbrögð Ísraela yrðu að vera í samræmi við alþjóðalög þegar hann ávarpaði norræna þingmenn og ráðherra í þingsal norska Stórþingsins.

„Úkraína verður að standa styrk“ 

Um leið minnti hann á að við megum ekki bara beina athyglinni að einu vandamáli í einu.

„Stríðið í Gaza má ekki verða til þess að draga úr vilja okkar og getu til þess að aðstoða Úkraínu,“ sagði hann og lagði áherslu á mikilvægi þess að Úkraína fengi áfram tækifæri til þess að veita öfluga mótspyrnu.

Þegar stríðinu lýkur verður Úkraína einnig að vera í góðri samningsstöðu.“

Hann bætti því við að einhugur væri um það á meðal allra aðildarríkja NATO að Úkraína gerðist aðili að bandalaginu.

NATO verður meira áberandi á Norðurlöndum

Umsókn Svíþjóðar um aðild að NATO fer fyrir utanríkismálanefnd tyrkneska þingsins í þessari viku og Jens Stoltenberg gerir ráð fyrir því að hún verði samþykkt.

Að sögn hans mun aðild Finna og Svía að bandalaginu styrkja og treysta samstarf norrænu landanna í varnarmálum en Stoltenberg vill ekki norræna blokk innan NATO.

„Það er gott að öll norrænu löndin séu í NATO. „Það gerir NATO betur kleift að vera til staðar á Norðurlöndum, að verja Norðurlönd og einnig koma nágrönnum okkar í Eystrasaltslöndunum til aðstoðar. En aukið norrænt samstarf má ekki fela í sér hindranir gagnvart öðrum NATO-löndum,“ sagði hann.

Aukin fjárfesting í öryggi!

Sprengju- og vopnabirgðir þeirra landa sem aðstoða Úkraínu eru að tæmast og NATO-ríkin þurfa að auka við framleiðsluna.

Að sögn Jens Stoltenbergs verðum við að fjárfesta meira í varnarmálum.

„Leiðtogar NATO hafa samþykkt nýjar varnarmálaáætlanir og ef við ætlum að framfylgja þeim verðum við að fjárfesta fyrir sem nemur að minnsta kosti tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu. Það er ánægjulegt að öll norrænu löndin skuli vera með áætlanir um að ná því markmiði.“

Erum of háð Kína

Jens Stoltenberg benti á líkindi með því hve háð við vorum rússnesku eldsneyti áður og því hve háð við erum verslun við Kínverja nú.

Kína framleiðir 70 prósent af öllum rafgeymum í rafbíla okkar og 80 prósent af öllum sólarrafhlöðum. Nánast öll mikilvæg og sjaldgæf jarðefni sem Evrópusambandið þarf á að halda eru flutt inn frá Kína.

„Við eigum að halda áfram viðskiptum við Kína, en ekki með þeim hætti að það grafi undan öryggi okkar,“ sagði Jens Stoltenberg.

Saga Norðurlanda vekur vonir um frið

Að sögn hans vekur saga Norðurlanda vonir þegar hann ferðast um átakasvæði erlendis.

„Þá segi ég frá Norðurlöndum. Að við höfum eitt sinn verið óvinir en séum nú vinir,“ sagði Jens Stoltenberg.