Náttúrumiðaðar lausnir á Norðurlöndum: Ný skýrsla sýnir stöðuna og vísar veginn fram á við

25.01.23 | Fréttir
Piknik i norsk natur
Photographer
Karin Beate Nøsterud/norden.org

Náttúrumiðaðar lausnir eru ekki aðeins góðar fyrir loftslagið og líffræðilega fjölbreytni heldur hafa þær jafnframt bein áhrif á andlega vellíðan.

Alþjóðlegar stofnanir á borð við UNEA, IPBES og IPCC benda á náttúrumiðaðar lausnir sem eina leið til að takast á við þann vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir í loftslagsmálum og varðandi líffræðilega fjölbreytni. Í nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni er farið yfir 54 norræn verkefni í tengslum við náttúrumiðaðar lausnir og horft fram veginn með það fyrir augum að auka innleiðingu þeirra í norrænu löndunum.

Notkun náttúrumiðaðra lausna færist í vöxt á Norðurlöndum. Tækifærin eru mikil og eiga ekki aðeins við um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni. Þættir á borð við efnahags- og heilbrigðismál og andlega heilsu spila líka inn í þegar kemur að heildarávinningnum af náttúrumiðuðum lausnum, samkvæmt einni af mörgum niðurstöðum skýrslunnar „Working with Nature-Based Solutions“ sem kom út nýlega. Í skýrslunni er notkun náttúrumiðaðra lausna á Norðurlöndum kortlögð. Og á þessu sviði erum við að dragast aftur úr.

Þess vegna komast skýrsluhöfundar meðal annars að því að þörf sé á auknu eftirliti og umfangsmeiri greiningum á kostnaði og ávinningi af verkefnum sem snúast um náttúrumiðaðar lausnir.

„Eins og staðan er í dag getur verið erfitt að sjá loftslagsmál, náttúruna og velferð manna í samhengi og þannig átta sig á heildargildi náttúrumiðaðrar lausnar umfram tæknilega lausn. Til þess að auka innleiðingu þurfum við að fjarlægja hindranir sem geta komið í veg fyrir að fólk velji náttúrumiðaðar lausnir,“ segir Irene Lindblad, formaður stýrihóps vegna verkefnis Norrænu ráðherranefndarinnar, Náttúrumiðaðar lausnir á Norðurlöndum, sem stendur að skýrslunni.

 

Ávinningurinn af náttúrumiðuðum lausnum er margvíslegur. Þær hjálpa okkur við að takast á við loftslagsvandann, ýmist með því að binda koldíoxíð og þannig draga úr loftslagsbreytingum, eða með því að efla viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart öfgakenndu veðurfari. Þær auka líffræðilega fjölbreytni og stuðla að velferð manna.

Irene Lindblad

Þær virka

Síðustu ár hefur aukin áhersla verið lögð á náttúrumiðaðar lausnir og bæði UNEA (United Nations Environment Assembly), IPBES (the Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services) og IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change) benda á slíkar lausnir sem svarið við þriðjungi þess vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir í tengslum við líffræðilega fjölbreytni og loftslagsmál.

Náttúrumiðaðar lausnir taka á neikvæðum afleiðingum athafna mannsins á loftslagið og líffræðilega fjölbreytni. Þær vernda, endurheimta og tryggja sjálfbæra stýringu vistkerfa okkar, og þær virka.

Irene Lindblad:

„Ávinningurinn af náttúrumiðuðum lausnum er margvíslegur. Þær hjálpa okkur við að takast á við loftslagsvandann, ýmist með því að binda koldíoxíð og þannig draga úr loftslagsbreytingum, eða með því að efla viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart öfgakenndu veðurfari. Þær auka líffræðilega fjölbreytni og stuðla að velferð manna. Rannsóknir hafa sýnt að við höfum það best þegar við erum í snertingu við náttúruna og með náttúrumiðuðum lausnum fáum við meiri náttúru og aukna líffræðilega fjölbreytni. Þær hjálpa okkur jafnframt að takast á við annað samfélagslegt vandamál sem er mengun.“

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í fyrra var náttúrumiðaðar lausnir. Sveitarfélagið Mariehamn á Álandseyjum hlaut verðlaunin fyrir endurheimt votlendissvæða höfuðborgarinnar sem í dag verja borgina gegn flóðum, sía fráveituvatn og eru jafnframt útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Fleiri dæmi um vel heppnaða innleiðingu náttúrumiðaðra lausna má finna í skýrslunni og á heimasíðu verðlaunanna.

Sameiginlegra viðmiða er þörf

Til að styðja við innleiðingu náttúrumiðaðra lausna er nauðsynlegt að koma upp sameiginlegum viðmiðum. Straumlínulaga þarf náttúrumiðaðar lausnir, bæði þegar kemur að stefnumótun og framkvæmd, segir í skýrslunni. Það getur orðið til þess að tryggja að náttúrumiðaðar lausnir verði reglan frekar en undantekning eins og raunin er í dag.

Það var Norwegian Institute for Water Research NIVA sem skrifaði skýrsluna „Working with Nature-Based Solutions“ í samstarfi við Árósaháskóla, Natural Resources Institute Finland (Luke), Landbúnaðarháskóla Íslands og háskólann í Lundi. Skýrslan kemur út í tengslum við fjögurra ára verkefnið Náttúrumiðaðar lausnir á Norðurlöndum.

Átta tilraunaverkefni

Vorið 2022 hlutu átta tilraunaverkefni styrk í gegnum verkefnið  Náttúrumiðaðar lausnir. Verkin ná til nokkurra landa og flokka náttúrumiðaðra lausna og er ætlað að komast að því hvað virkar og hvað þarf að gera öðruvísi þegar kemur að matvælaframleiðslu í héraði, aðgerðum til að styrkja ár- og vatnsbakka, við að fjarlægja umfram fosfór úr sjó, rækta skóg þar sem hann hefur ekki verið áður og koma upp votlendissvæðum, reisa hrísgirðingar og endurheimta landslag.

Norrænt samstarf vinnur að því að Norðurlönd verði sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Liður í því er að Norræna ráðherranefndin hefur veitt 26 milljónum danskra króna til fjögurra ára áætlunar um náttúrumiðaðar lausnir á Norðurlöndum. Áætlunin samanstendur af fimm verkefnum og stendur frá 2021 til 2024.