Norðurlönd standa fyrir sjálfbærni

01.07.15 | Fréttir
Fyrir okkur í eyríkjunum Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum hefur norrænt samstarf grundvallarþýðingu. Á Norðurlöndum eigum við rætur okkar og þangað getum við sótt stuðning fyrir starf okkar að framtíðarvelferð íbúanna.

 Þannig mætti taka saman í stuttu máli inntak umræðunnar á stjórnmálafundi sumarsins í Almedalen á Gotlandi á degi Norðurlanda. Veronica Thörnroos, samstarfsráðherra Norðurlanda í landsstjórn Álandseyja, hafði boðið starfssystkinum sínum í norrænu samstarfi, þeim Annika Olsen, samstarfsráðherra frá Færeyjum, og Jørgen S. Søndergaard, fulltrúa Grænlands í Norrænu samstarfsnefndinni, til fundar til að ræða tengsl Norðurlanda við Evrópusambandið.

Á Norðurlöndum eigum við þann sögulega og menningarlega arf sem bindur okkur sterkum böndum og gerir okkur hægt um vik að starfa saman, en við höfum mjög mikilvægu hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi 

Jafnvægislist

Fundurinn var mjög fróðlegur fyrir áheyrendur, sem flestir voru sænskir. Meðal annars fræddust þeir um það að aðeins sum norrænu landanna eru fullgildir meðlimir í Evrópusambandinu (Danmörk, Finnland og Svíþjóð). Þrátt fyrir að bæði Færeyjar og Grænland séu hluti af danska ríkinu eru tengsl þeirra við Evrópusambandið mismunandi. Í meginatriðum má lýsa því þannig að Færeyjar eru utan Evrópusambandsins en hafa ákveðin tengsl hvað varðar evrópska markaðinn. Grænlendingar hafa gert ákveðna samninga við ESB, en Álandseyjar eiga aðild að ESB eins og móðurlandið Finnland.

Löndin þurfa því öll að horfa í senn til eigin sjálfstjórnarsvæðis, til móðurlands síns og til ESB.

Þátttakendurnir í umræðunni sögðu að þetta væri erfið og tímafrek en jafnframt gefandi jafnvægislist. Oft væri hægt að ná meiri árangri þegar rætt væri við fleiri en einn aðila.

Hluti af ESB

Ein af niðurstöðunum úr umræðunni var að norrænt samstarf væri ávöxtur af þróun mála í Evrópu, og að svo hefði verið löngu áður en ESB kom til sögunnar, og að það myndi alltaf mótast af því sem gerðist í ESB og í umheiminum. Þegar nokkuð var liðið á umræðurnar tók Maja Fjaestad, ráðuneytisstjóri frá Svíþjóð, til máls og lagði áherslu á þýðingu alþjóðastarfs í norrænu samstarfi.

„Á Norðurlöndum eigum við þann sögulega og menningarlega arf sem bindur okkur sterkum böndum og gerir okkur hægt um vik að starfa saman, en við höfum mjög mikilvægu hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi,“ sagði hún.

Sjálfbærni

Í mörgum af þeim umræðum sem fram fóru á degi Norðurlanda í Almedalen í Svíþjóð var rætt um margvíslega þætti sjálfbærni á borð við tísku, borgarskipulag og losun plasts í Eystrasalt. Meðal þátttakenda í umræðunni um tísku voru Anna Gedda, sjálfbærnistjóri H&M;, og Annika Engblom, þingmaður Flokks hófsamra (Moderaterna) í Svíþjóð og formaður borgara- og neytendanefndar Norðurlandaráðs. Fyrir umræðuna um ástand Eystrasaltsins var myndin Plastagnir eyðileggja Eystsaltið okkar,(Mikroplaster förstör vårt Östersjön) eftir sjónvarpsfréttamanninn Folke Rydén frumsýnd.

Veronica Thörnroos, samstarfsráðherra Álandseyja, tók upp þennan vanda í umræðunni.

„Eystrasaltið skiptir öllu máli fyrir okkar. Ef við hefðum ekki sjálfbærni á dagskrá stjórnmálanna væru Álandseyjar búnar að vera.“