Norræn nefnd: Verður að vera auðvelt fyrir neytendur að velja sjálfbært

14.09.18 | Fréttir
Nordiska rådets hållbarhetsutskott möttes i Nuuk 12-13 september 2018
Photographer
norden.org/Matts Lindqvist
Norrænir borgarar nota næstum þrjár jarðarkringlur til þess að mæta árlegri neyslu sinni. Nú vill sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs sjá heilbrigðari neyslu, meðal annars með því að auðvelda neytendum að velja sjálfbært.

Norræna sjálfbærninefndin kom saman í Nuuk á Grænlandi 12. og 13. september og setti fundarstaðurinn sérstakan svip á fundinn. Afleiðingar hnattrænnar hlýnunar eru áþreifanlegri á Grænlandi og annars staðar á norðurskautinu en víða annars staðar og komust nefndarmenn í návígi við þá staðreynd í Nuuk.

Á fundinum var meðal annars rætt um sjálfbærni í ljósi neyslu. Ofneysla er staðreynd, einnig á Norðurlöndum. Svíar þurfa til dæmis 3,4 jarðarkringlur til þess að mæta árlegri neyslu sinni, Noregur og Finnland 2,7 og Danmörk 2,4.

„Í þessu ljósi er neyslan ótrúlega mikilvægur liður í vinnunni að sjálfbærni. Þetta snýst oft um daglegt val okkar neytenda þegar við erum að kaupa inn ýmsar vörur. Neysla er svið þar sem hver einstaklingur getur raunverulega haft áhrif á vistspor sitt frá degi til dags,“ segir Lars Tysklind, formaður sjálfbærninefndarinnar.

Vörur verða að vera endingarbetri

Nefndin ákvað að halda áfram að vinna að allnokkrum aðgerðum sem stuðla að sjálfbærari neyslu. Áhersla er lögð á að auðvelt eigi að vera að velja rétt, það er að segja að það á að vera auðvelt fyrir neytendur að fá upplýsingar um vörur til þess að þeir geti valið sjálfbært. 

„Framleiðendur þurfa líka að bera meiri ábyrgð. Þeim ber að sjá til þess að vörurnar sem þeir framleiða séu sjálfbærar og sömuleiðis að veita skilmerkilegar upplýsingar um sjálfbærnina. Við ættum að geta krafist þess að vörur endist lengur og að það borgi sig betur að gera við en að kaupa nýtt,“ segir Lars Tysklind.

Svarti svanurinn

Í umræðunum var meðal annars rætt um hvort endurskoða ætti Svansmerkið og koma hugsanlega upp nýju svörtu Svansmerki fyrir ósjálfbærar vörur ásamt því að leggja skatt á skaðleg og hættuleg efni.

Nefndin vinnur nú áfram að þessum málum og er markmiðið að leggja fram fastmótaðar tillögur að því hvernig ná megi fram aukinni sjálfbærni.

Nefndin tók einnig þátt í námsstefnu um sjálfbæra ferðamennsku á norðurslóðum í tengslum við fundinn. Auk þess fengu nefndarmenn að skoða umhverfið á Grænlandi með eigin augum í bátsferð frá Nuuk.