Merkur áfangi í matvæla- og heilbrigðismálum: Norræn samvinna tók af skarið á COP28

15.12.23 | Fréttir
Food takeover
Photographer
Andreas Omvik
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP28, markaði áfanga í matvæla- og heilbrigðismálum. Í fyrsta sinn var hlutverk breyttra matvælakerfa í loftslagsaðgerðum viðurkennt. Norðurlöndin tóku forystu með því að bjóða upp á röð umræðna með háttsettum fulltrúum og, það sem mest var um vert, með því að koma með nýjustu næringar- og loftslagsrannsóknir inn í umræðuna.

Á loftslagsráðstefnunni í Dúbaí, bæði í dagskránni um matvælakerfin í norræna skálanum og opinbera hliðarviðburðinum um heilbrigðis-, matvæla- og loftslagsaðgerðir, kom saman ötult baráttufólk fyrir heilbrigðum og sjálfbærum matvælakerfum.
„Matarkerfin sjálf eru ekki gölluð heldur bregðast þau bara við hvötunum sem þau fá. Og það eru kolrangir hvatar. Matur er ekki rétt verðlagður, hvort sem litið er til umhverfisins, heilbrigðis eða jafnréttis,“ sagði Lawrence Haddad, framkvæmdastjóri GAIN, í umræðunum í norræna skálanum.

Brýn þörf á að umbreyta matvælakerfunum okkar.

Nauðsyn þess að umbreyta matvælakerfum okkar er öllum ljós. Þau þurfa að verða sjálfbærari, samkeppnishæfari og sanngjarnari. Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, lagði áherslu á mikilvægi þess að tengja saman loftslags-, heilbrigði- og matvælamál til að ná settum markmiðum.

„Við getum aldrei hætt að borða eins og við hyggjumst hætta að nota jarðefnaeldsneyti. Matur er forsenda fyrir sjálfu lífinu,“ sagði Karen þegar hún lýsti nauðsyn sjálfbærari matvælakerfa.

Í dagskrá norræna skálans um matvælakerfi þann 10. desember ræddi Stefanos Fotiou, frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, um mikilvægi dagsins, aukna áherslu á matvælakerfi á yfirstandandi ráðstefnu, og forystuhlutverk Norðurlanda í þessari stefnubreytingu.

„Þetta er annar merkasti dagur sem ég hef upplifað á COP. Sá merkasti var í París á COP21, daginn sem Parísarsamkomulagið var staðfest. Mér finnst við þurfa að viðhalda þessum slagkrafti næstu 2 til 3 árin.“

Norðurlönd eru brautryðjendur

Í norrænni samvinnu hafa matvælakerfi verið sett á dagskrá loftslagsmála á ýmsan hátt allt frá árinu 2017 og með útgáfu norrænna næringarráðlegginga 2023 (NNR2023) sköpuðust öflug tengsl milli heilbrigðis fólks og heilbrigðis jarðar. 

„Ef matvælakerfi tryggðu öllum heilbrigt mataræði gætum við bjargað 8 milljónum mannslífa á ári,“ sagði dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), á opinbera hliðarviðburðinum á COP28 um matvælakerfi, heilbrigði og loftslagsmál. Hann sagði jafnframt: 

„Norðurlönd hafa verið brautryðjendur í ýmissi stefnumörkun, þar á meðal í því að tengja saman loftslags- og næringarmál.“

Norrænu næringarráðleggingarnar 2023 eru með opnum aðgangi og hægt er að laga ramma þeirra að ýmsu samhengi. Norrænu samstarfslöndin vonast til að þær geti nýst svæðum, löndum og samtökum um allan heim.

Frá umræðum til aðgerða

Matvælakerfi og heilbrigði hafa aldrei verið jafnáberandi á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Á ráðstefnunni í Dúbaí var í fyrsta sinn bæði formlegur heilbrigðisdagur og matvæladagur. 143 lönd samþykktu yfirlýsingu COP28 í Sameinuðu arabísku furstadæmunum um loftslags- og heilbrigðismál og 134 lönd samþykktu yfirlýsinguna um matvæli og landbúnað. Auk þess var matvælakerfa getið í fyrsta sinn í lokasamþykkt ráðstefnunnar. Enn er þó margt ógert og markmiðið er að fylgja pólitísku skuldbindingunum eftir á COP29. 


„Við getum ekki talað um heilbrigt og sjálfbært mataræði öllum til handa nema stjórnvöld fari að niðurgreiða það sem við raunverulega viljum að fólk leggi sér til munns, fylgi eigin ráðleggingum í verki í opinberum innkaupum og efnahagsstefnu og beiti öllum pólitískum verkfærum sem standa til boða”, sagði Gunhild Stordalen, stofnandi og forstöðukona EAT, í umræðunum um matvælakerfi og heilbrigt mataræði í norræna skálanum.