Norrænu vinnumálaráðherrarnir: „Réttlát græn umskipti lykilatriði í því að Norðurlönd nái markmiðum framtíðarsýnarinnar“

30.11.23 | Fréttir
Arbetslivsministrar på möte i Reykjavik
Photographer
Björn Lindahl/norden.org

Carsten Sander, skrifstofustjóri vinnumálaráðuneytis Danmerkur, Ellen Bakken ráðuneytisstjóri vinnu- og inngildingarmálaráðuneytis Noregs, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra Íslands, Johan Pehrson, vinnumarkaðs- og aðlögunarmálaráðherra Svíþjóðar, Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Arto Satonen, vinnumálaráðherra Finnlands.

Enginn má verða út undan í grænu umskiptunum á Norðurlöndum. Þetta var meginboðskapurinn á fundi norrænu vinnumálaráðherranna í Reykjavík þann 30. nóvember. Einnig fer fram norrænt þríhliðasamtal þar sem réttlát græn umskipti eru umfjöllunarefnið.

„Við ræddum áhersluatriði í tengslum við það hvernig atvinnulífið á Norðurlöndum getur stuðlað að því að við náum framtíðarsýninni um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Réttlát græn umskipti eru mjög mikilvægur liður í þessari vinnu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra Íslands sem var gestgjafi fundarins.

Sögulegt þríhliðasamtal

Þann 1. desember koma fulltrúar ríkisstjórnanna, samtaka launþega og samtaka atvinnurekenda frá öllum norrænu löndunum saman í Reykjavík til þess að ræða hvernig best megi tryggja að grænu umskiptin fari fram með réttlátum hætti. Umræðurnar munu byggjast á nýrri skýrslu frá Norrænu rannsóknarstofnuninni í skipulags- og byggðamálum, Nordregio.

„Þetta er mjög góð tímasetning fyrir þríhliðasamtal því grænu umskiptin eru þegar komin í gang. Loftslagsbreytingarnar eiga sér stað núna og þær bíða ekki eftir neinum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Hreyfanleika yfir landamæri

Loftslagsbreytingarnar krefjast þess að allt samfélagið leggi sitt af mörkum í þágu sjálfbærrar framtíðar, og það á líka við um atvinnulífið. Hreyfanleiki yfir landamæri er mikilvægur þáttur í því hvernig Norðurlönd geta tekist á við umskiptin.

„Á fundi okkar í dag var minnst á nýja skýrslu frá Stjórnsýsluhindranaráðinu þar sem fram kemur að einfaldari skattareglur myndu auðvelda jafnt einstaklingum sem fyrirtækjum að ferðast á milli og vinna þvert á landamæri. Slíkt myndi skila sér í samþættari vinnumarkaði sem jafnframt gefur af sér meiri hagnað. Það er spennandi,“ segir Guðmundur Ingi.

Þörf á endurskipulagningu

Stafvæðing, gervigreind og ný tækni mun hafa í för með sér miklar breytingar sem kalla á endurskipulagningu og nýja hæfni, bæði hjá starfsfólki og fyrirtækjum. Hin almenna umgjörð sem gerir ráð fyrir samningsmiðuðum vinnumarkaði og er ein af meginstoðum norræna velferðarlíkansins verður einnig að fylgja með í þróuninni.

Hækkandi meðalaldur á Norðurlöndum kallar einnig á aukið aðgengi að vinnuafli um leið og stöðunni í alþjóðastjórnmálum fylgja nýjar ógnir. Við þær aðstæður sem eru uppi í samfélaginu verða norrænu löndin að tryggja að eins margt vinnandi fólk og hægt er búi við góðar vinnuaðstæður og að jafnrétti sé í heiðri haft, að sögn ráðherranna.