Ný skýrsla: 15 leiðir til að gera borgina grænni

03.06.21 | Fréttir
Grønne træer i byen
Ljósmyndari
Kristoffer Holm Pedersen

Lækkuð regnbeð með grænum plöntum við Tåsinge Plads geta tekið við miklu vatni frá hverfinu í stórrigningum.

Staða náttúrunnar fer hratt verslandi og einnig á Norðurlöndum dregur úr líffræðilegri fjölbreytni. Þetta er bara ein ástæða þess að mikilvægt er að hugsa náttúru inn í borgirnar. Í nýrri skýrslu sem fjármögnuð er af Norrænu ráðherranefndinni er safnað dæmum frá 15 borgum um hvernig skapa megi gott umhverfi í grænni borg.

Græn svæði í borgum skipta máli fyrir heilsu fólks, fyrir dýra- og jurtalíf og fyrir líffræðilega fjölbreytni. Græn svæði stuðla að því að hreinsa loftið af loftmengun og draga úr hávaða. Samt er hlutverk grænna svæða sjaldan áberandi í þróun borga. Nú hefur reynslu og þekkingu frá 15 borgum verið safnað saman í skýrslu sem fjármögnuð er af Norrænu ráðherranefndinni. Skýrslunni er ætlað að verða enn fleiri borgum innblástur fyrir sjálfbæra borgarþróun með áherslu á að gera borgirnar grænni.

Náttúruleikvöllur og ráðstöfun vegna skýfalla

Í Jyväskylä í Finnlandi á grænn trefill, hringur af náttúrulegu umhverfi sem umlykur borgina, að virkja almenning og vernda náttúrulegt umhverfi. Í loftslagshverfi í Kaupmannahöfn í Danmörku er hlutverk græns svæðis að taka við miklu magni af rigningarvatni þegar verður skýfall. Og í Varbergaskogen í Örebro í Svíþjóð hefur verið komið upp náttúrulegu leiksvæði sem hvetur bæði börn og fullorðna til að hreyfa sig.

Þessi nýskapandi verkefni spanna allt frá borgarskipulagi til grasrótarverkefna. Í skýrslunni er að finna bæði stórar og litlar norrænar borgir þannig að í henni er tekið tillit til þess að ekki hafa allar borgir úr jafnmiklu að spila til þess að vinna verkefni á sviði sjálfbærrar borgarþróunar. Þess vegna má í henni bæði sækja hugmyndir til fjárfrekra verkefna og aðgerða sem ekki krefjast mikils fjármagns.

Miðlun reynslu yfir landamæri

Margt er líkt með norrænu löndunum þegar kemur að loftslagi og áskorunum sem tengjast þéttbýli. Það skapar góð skilyrði til þess að löndin geti lært hvert af öðru og unnið saman að nýjum og skapandi lausnum varðandi græna og sjálfbæra borgarþróun. Þess vegna eru dæmin 15 frá öllum Norðurlöndunum.

Um skýrsluna

Skýrslan er unnin að Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar (SLU) á vegum Boverket og vinnuhóps Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra borgarþróun og er fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni.

Vinnuhópur Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra borgarþróun

Norræna ráðherranefndin hefur komið á fót vinnuhópi um sjálfbærar borgir frá 2019-2021. Í vinnuhópnum er lögð áhersla á að styðja miðlun reynslu og samstarf um norrænar lausnir fyrir sjálfbæra borgarþróun. Græn svæði í borgum skipta miklu í því ferli.

Skýrslan styður við framtíðarsýn forsætisráðherra Norðurlandanna 2030 um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og best samþætta svæði heims á árunum fram til 2030.