Stoltenberg II-skýrslan rædd í Norðurlandaráði

02.09.19 | Fréttir
Nordiska rådets septembermöte 2019.

Nordiska rådets septembermöte 2019, försvarsdebatt

Photographer
Matts Lindqvist

Þátttakendur í pallborðinu voru Silja Dögg Gunnarsdótir (Íslandi), Kirsti Narinen (Finnlandi), Ulf Sverdrup (Noregi), Hans Wallmark (Svíþjóð), Antti Kaikkonen (Finnlandi), Erkki Tuomioja (Finnlandi) og Bertel Haarder (ekki á mynd).

Fram kom á septemberfundi Norðurlandaráðs í Helsingfors á mánudaginn að rík ástæða þyki til þess að vinna nýja Stoltenberg-skýrslu, þ.e. nýja úttekt á norrænu samstarfi um utanríkis- og öryggismál í framtíðinni.

Það var Ulf Sverdrup, forstjóri Utanríkismálastofnunar Noregs, NUPI, sem brýndi þetta fyrir stjórnmálamönnum á fundi Norðurlandaráðs um norrænt samstarf á sviði öryggismála.

Sverdrup var boðið til fundarins til þess að fara yfir það hvernig innleiðingu Stoltenberg-skýrslunnar svonefndu hefur verið háttað frá því hún kom út árið 2009.

Í máli hans kom fram að margt af því sem Thorvald Stoltenberg lagði til í skýrslu sinni hafi verið framkvæmt og að skýrslan fæli fyrst og fremst í sér nýja framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf. Með henni væri kleift að ræða varnar- og öryggismál í norrænu samhengi.

Víðtækt umboð

Sverdrup svaraði spurningu frá Bertel Haarder, dönskum þingmanni í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, á þá leið að hann væri jákvæður fyrir nýrri Stoltenberg-skýrslu.

- Ég tel góðar ástæður fyrir því að fylgja skýrslunni eftir með nýrri skýrslu. Að mínu viti ætti hún að koma frá hinum norrænu forsætis- eða utanríkisráðherrum og ég tel að það væri gott fyrir norrænt samstarf ef starf hópsins sem að skýrslunni stendur einkenndist af hugmyndaauðgi og nýsköpun. Ég myndi vilja sjá víðtækt umboð, sagði Sverdrup.

Öryggismál efst á baugi

Að sögn Hans Wallmark, forseta Norðurlandaráðs, eru varnar- og öryggismál nú efst á baugi hjá ráðinu, en á tímum kalda stríðsins forðuðust menn að ræða slík mál á vettvangi norræns samstarfs. Hann greip til þriggja líkinga til að lýsa ástandinu í dag.

- Fyrsta líkingin felst í því að landfræðistjórnmál séu komin aftur og að kortabækur skipti aftur máli. Sú næsta er að glugginn sé opinn, en í því felst að nú sé leyfilegt að ræða um varnar-og öryggismál í norrænu samhengi. Þriðja líkingin er sú að bakarofninn sé orðinn heitur, þ.e.a.s. að nú sé kominn tími til að þróa mismunandi leiðir í samstarfi á sviði öryggismála.

Erkki Tuomioja, formaður landsdeildar Finnlands í Norðurlandaráði, lagði áherslu á hlutverk Norðurlanda sem sáttasemjara.

- Norðurlönd gegna einstöku hlutverki í heiminum í dag. Við erum alls ekki fullkomin en þó líta margar aðrar þjóðir upp til okkar, og því þurfum við að spyrja okkur að því hvernig við getum miðlað áfram þeim árangri sem við höfum náð og hvernig við á Norðurlöndum getum komið í veg fyrir átök, sagði Tuomioja.

Einnig tóku þátt í umræðunum Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands, sem ræddi norrænt samstarf á sviði varnarmála innan Nordefco, og Kirsti Narinen sem er yfir alþjóðasamstarfi hjá Evrópsku sérfræðimiðstöinni um baráttu gegn fjölþættum ógnum.

    Contact information