Takið þátt í lýðræðishátíðunum í ár

07.06.23 | Fréttir
Demokratifestival
Ljósmyndari
Make Sense
Viltu vita meira um það sem gert er þvert á norræn landamæri til að leysa stærstu vandamál samtímans? Norrænt samstarf tekur þátt í lýðræðishátíðum ársins. Þú getur líka verið með og tekið þátt í umræðunum.

Þátttaka Norðurlanda á lýðræðishátíðum á árinu 2023 mun hverfast um umræður um græn umskipti, öryggismál og hvernig við verndum og styrkjum lýðræðið.

Norræna ráðherranefndin tekur þátt í átta lýðræðishátíðum í ár; í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og á Íslandi auk Eistlands, Lettlands og Litháens.

Helstu áskoranir samtímans

Þátttaka ungs fólks í samfélaginu, græn umskipti og orkuöryggi verða á meðal helstu þema ársins. Á viðburðum okkar verður hægt að hitta sérfræðinga, aðgerðasinna og stjórnmálamenn af ýmsum stigum stjórnsýslunnar, á sviðum sem norrænu löndin vinna saman á til að gera okkur betur í stakk búin til að takast á við úrlausnarefni samtímans.

 

Norrænar stofnanir

Norrænar stofnanir á borð við Norrænu nýsköpunarmiðstöðina (Nordic Innovation), Norrænar orkurannsóknir, Norrænu rannsóknastofnunina í skipulags- og byggðamálum (Nordregio), Norræna rannsóknarráðið (Nordforsk) og Norrænu erfðaauðlindastofnunina (Nordgen) verða í aðalhlutverki á mörgum viðburðanna auk þess sem við vinnum með fjölmörgum öðrum aðilum úr borgarasamfélaginu og atvinnulífinu.