Eystrasaltsþingið og Norðurlandaráð styðja almenning í Belarus

15.12.20 | Fréttir
Nordiska rådet och baltiska församlingen i möte om Belarus 2020.

Nordiska rådet och baltiska församlingen 2020.

Ljósmyndari
Stringer/AFP/Ritzau Scanpix

Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið styðja almenning í Belarus afdráttarlaust í baráttu þeirra fyrir lýðræði og frelsi.

Árlegur leiðtogafundur forsætisnefnda Eystrasaltsþingsins og Norðurlandaráðs var haldinn 14. desember 2020. Hann var stafrænn og tileinkaður málefni sem er ofarlega á baugi – ástandinu í Belarus. Á leiðtogafundinum kom skýrt fram að í þingsamstarfi Eystrasalts- og Norðurlanda nýtur almenningur í Belarus stuðnings í viðleitni sinni til þess að ná fram frelsi, lýðræði, réttaröryggi, borgaralegu samfélagi og fjölmiðlafrelsi.

Eystrasaltslöndin og Norðurlönd eru frjáls og lýðræðisleg ríki og þar er skilningur og fullur stuðningur við baráttu almennings í Belarus og samstaða um að fordæma ofbeldið sem á sér stað þar í landi.

Fulltrúar þriggja mannréttindasamtaka; International Media Support, Civil Rights Defenders og Human Rights House Foundation og sérfræðingar utanríkisráðuneyta um Belarus miðluðu af þekkingu sinni á ástandinu í Belarus.

Mikilvægt að Belarus sé áfram ofarlega á dagskrá

Mannréttindasamtökin lýstu þakklæti sínu fyrir stuðning Norrænu landanna og Eystrasaltslandanna en lögðu einnig áherslu á mikilvægi þess að staða Belarus yrði áfram forgangsmálefni á alþjóðavettvangi. Þau bentu á þörf væri á enn frekari samstöðu með stjórnarandstöðunni og frekari refsiaðgerðum gagnvart stjórnvöldum, sérstaklega efnahagsþvingunum, vegna þess að stjórnvöld í Belarus eru afar háð fjármagni til að halda völdum.

Sérfræðingar lögðu áherslu á að aldrei mætti líta á stöðuna sem nú er uppi í Belarus sem eðlilega, þess vegna skipti máli að veita almenningi í Belarus stuðning, bæði beinan og óbeinan. Þeir bentu líka á mikilvægi frekari efnahagslegra þvingana, stuðnings við sjálfstæða fjölmiðla, námsstyrkja fyrir námsmenn frá Belarus og sveigjanlegrar útgáfu vegabréfsáritana fyrir fólk frá Belarus.

Málefni Belarus verða að vera í forgangi áfram

Prófessor Aadu Must, forseti Eystrasaltsþingsins, lagði áherslu á að: „Íbúar Eystrasaltsríkja eiga líklega nýrri minningar en aðrir um það hvað felst í baráttu fyrir frelsi og lýðræði. Við styðjum nágranna okkar í Belarus heilshugar í viðleitni þeirra til þess að skilgreina sjálf framtíð lands síns á eigin forsendum og án þess að þurfa að óttast kúgun.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs: „Eystrasaltsþingið og Norðurlandaráð eiga langa og farsæla sögu um samstarf um ýmis málefni. Samanlagt erum við fulltrúar þinga átta ríkja og þriggja sjálfstjórnarsvæða. Fundurinn í dag sendir skýr skilaboð um að við ætlum að halda áfram að sýna ótvíræðan stuðning okkar við almenning í Belarus og baráttu hans fyrir lýðræði.

Eystrasaltsþingið og Norðurlandaráð lögðu áherslu á að ástandið í Belarus yrði áfram forgangsmálefni og ofarlega á pólitískri dagskrá allra lýðræðisríkja. Bæði samtök telja gildi lýðræðis, frelsis og mannréttinda afar mikilvæg.