Eystrasaltsþingið og Norðurlandaráð styðja almenning í Belarus

Nordiska rådet och baltiska församlingen 2020.
Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið styðja almenning í Belarus afdráttarlaust í baráttu þeirra fyrir lýðræði og frelsi.
Eystrasaltslöndin og Norðurlönd eru frjáls og lýðræðisleg ríki og þar er skilningur og fullur stuðningur við baráttu almennings í Belarus og samstaða um að fordæma ofbeldið sem á sér stað þar í landi.
Fulltrúar þriggja mannréttindasamtaka; International Media Support, Civil Rights Defenders og Human Rights House Foundation og sérfræðingar utanríkisráðuneyta um Belarus miðluðu af þekkingu sinni á ástandinu í Belarus.
Mikilvægt að Belarus sé áfram ofarlega á dagskrá
Mannréttindasamtökin lýstu þakklæti sínu fyrir stuðning Norrænu landanna og Eystrasaltslandanna en lögðu einnig áherslu á mikilvægi þess að staða Belarus yrði áfram forgangsmálefni á alþjóðavettvangi. Þau bentu á þörf væri á enn frekari samstöðu með stjórnarandstöðunni og frekari refsiaðgerðum gagnvart stjórnvöldum, sérstaklega efnahagsþvingunum, vegna þess að stjórnvöld í Belarus eru afar háð fjármagni til að halda völdum.
Sérfræðingar lögðu áherslu á að aldrei mætti líta á stöðuna sem nú er uppi í Belarus sem eðlilega, þess vegna skipti máli að veita almenningi í Belarus stuðning, bæði beinan og óbeinan. Þeir bentu líka á mikilvægi frekari efnahagslegra þvingana, stuðnings við sjálfstæða fjölmiðla, námsstyrkja fyrir námsmenn frá Belarus og sveigjanlegrar útgáfu vegabréfsáritana fyrir fólk frá Belarus.
Málefni Belarus verða að vera í forgangi áfram
Prófessor Aadu Must, forseti Eystrasaltsþingsins, lagði áherslu á að: „Íbúar Eystrasaltsríkja eiga líklega nýrri minningar en aðrir um það hvað felst í baráttu fyrir frelsi og lýðræði. Við styðjum nágranna okkar í Belarus heilshugar í viðleitni þeirra til þess að skilgreina sjálf framtíð lands síns á eigin forsendum og án þess að þurfa að óttast kúgun.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs: „Eystrasaltsþingið og Norðurlandaráð eiga langa og farsæla sögu um samstarf um ýmis málefni. Samanlagt erum við fulltrúar þinga átta ríkja og þriggja sjálfstjórnarsvæða. Fundurinn í dag sendir skýr skilaboð um að við ætlum að halda áfram að sýna ótvíræðan stuðning okkar við almenning í Belarus og baráttu hans fyrir lýðræði.
Eystrasaltsþingið og Norðurlandaráð lögðu áherslu á að ástandið í Belarus yrði áfram forgangsmálefni og ofarlega á pólitískri dagskrá allra lýðræðisríkja. Bæði samtök telja gildi lýðræðis, frelsis og mannréttinda afar mikilvæg.