10 aðgerðasvið
1. Rannsóknir
Ný þekking skiptir miklu máli fyrir hæfni framtíðar. Norræna rannsóknarsamstarfið snýst um að auka gagnsemi rannsókna fyrir samfélagið og ná fram sem mestum alþjóðlegum gæðum á þeirri nýju þekkingu sem verður til. Markmiðið er að stuðla að því að Norðurlöndin verði leiðandi í rannsóknum á heimsvísu. Samstarfið er á vegum norrænu stofnunarinnar NordForsk sem fjármagnar stór þverfagleg verkefni á ýmsum sviðum. Þessi svið eru umhverfismál, landbúnaður, heilbrigðismál, vinnumál, menntun og rannsóknarinnviðir. Málefnin eiga það sameiginlegt að um er að ræða svið þar sem löndunum er ljóst að þau skortir þekkingu, hvorki til lengri né skemmri tíma litið, og að norrænt samstarf getur styrkt stefnumótun, bæði á landsvísu og á norrænum vettvangi.
Gegnum nýja þekkingu leiðir samstarfið til bóta á norrænu velferðarsamfélögunum og til þess að atvinnulíf á Norðurlöndum sé allþjóðlega samkeppnishæft.
2. Styðja fyrri verkefni í menntakerfinu sem eru þvert á geira og stuðla að aðlögun.
Rannsóknir sýna að meðal þess sem verndar hvað best börn og ungmenni í áhættuhópum eru snemmtæk úrræði þvert á geira. Á Norðurlöndum stöndum við saman um að leysa flóknar áskoranir í samfélögum okkar. Þetta á einnig við um líðan barna og ungmenna í áhættuhópum og menntun sem grunn að góðum fullorðinsárum. Þetta er sameiginleg áskorun þvert á Norðurlöndin og við verðum að finna góðar lausnir í sameiningu. Hluti lausnarinnar er snemmtækara og sterkara samstarf þvert á geira. Það sem mestu máli skiptir í góðu samstarfi, hvort heldur það er norrænt, þvert á geira eða þverfaglegt, er traust hvert til annars og áhersla á sameiginleg málefni. Hér er markmiðið að ná öllum börnum og ungmennum með – óháð bakgrunni þeirra – með því að styrkja snemmtæk úrræði í skólakerfinu þvert á geira, úrræði sem stuðla að aðlögun.
3. Símenntun
Menntun fyrir alla, á öllum skeiðum ævinnar, er yfirlýst markmið norræns samstarfs á sviði menntamála. Þetta á við um hvers konar menntun, nám og símenntun í menntakerfinu, í fullorðinsfræðslu, endurmenntun og á vinnumarkaði. Tveir aðilar sem starfa á sviði norræns samstarfs um símenntun eru veigamestir. Nordplus Voksen er undiráætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um fullorðinsfræðslu og símenntun sem veitir stuðning til samstarfs og starfsmannaskipta milli menntastofnana og annarra hagaðila á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum og Norræna samstarfsnetið um fullorðinsfræðslu (NVL) er norrænt samstarfsnet sem veitir stuðning við stefnumótun og færniþróun á sviði fullorðinsfræðslu. Í starfsemi NVL er meðal annars lögð áhersla á viðurkenningu á hæfni, gæði mats, stafræna þátttöku, sjálfbæra þróun, leiðbeiningar, nám í og fyrir atvinnulífið, færniþróun kennara í fullorðinsfræðslu og aðlögun gegnum nám fullorðinna.
4. Frumkvöðlastarf og nýsköpun
Menntakerfið þarf að undirbúa nemendur á öllum skólastigum undir líf með virkri þátttöku í sköpun framtíðar. Nýsköpun snýst um að finna auðlindir, aðferðir og tækifæri til þess að þróa nýjar hugmyndir. Og breyta þeim í gagnlegar lausnir sem skapa virðisauka fyrir notendur. Norræna ráðherranefndin hefur þess vegna á mörgum sviðum unnið að því að styrkja frumkvöðlamenningu og tengingu milli menntunar, rannsókna og nýsköpunar í norrænu ríkjunum. Meðal annars hafa verið þróuð norræn hæfnimarkmið og kennslufræðileg viðmið fyrir frumkvöðlakennslu og fimm leiðandi tækniháskólar á Norðurlöndum (Nordic Five Tech) hafa til dæmis unnið náið saman að námstilboði fyrir frumkvöðla. Hér eiga nemarnir þess kost að nýta námstilboð allra háskólanna fimm.
5. Lýðræðisleg hæfni
Lýðræðið er hornsteinn samfélagsins okkar. Við lítum á það sem sjálfsagðan hlut og eigum auðvelt með að gleyma að ekki búa allir við lýðræði eða deila með okkur skilningi á því. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við séum stöðugt að vinna með lýðræðislega hæfni okkar. Það er gert með því að efla getu menntakerfisins til þess að takast á við samfélagsáskoranir og -ágreining með lýðræðislegum aðferðum og til þess að koma í veg fyrir jaðarsetningu og ofbeldisfullt ofstæki. Sömuleiðis er mikilvægt að vinna að gagnkvæmu trausti, samkennd skilningi og samheldni í daglegu starfi skólanna. DIS-samstarfsnetið er skipað sérfræðingum á þessu sviði frá Norðurlöndunum. Samstarfsnetið er vettvangur miðlunar upplýsinga um um starfsemi löndunum á sviði lýðræðis- og fræðslumála, forvarna gegn jaðarsetningu og ofbeldisfullum öfgum og hvernig efla megi samheldni í daglegu starfi skóla. Samstarfsnetið stendur einnig fyrir málþingum.
6. Stafræn hæfni
Stafræn og tæknileg þróun er hröð. Hún skapar mikla möguleika í samfélagi okkar. Um leið verða til ýmis álitamál sem nauðsynlegt er að takast á við. Það er því mikilvægt verkefni að tryggja að börn og ungmenni búi yfir þeirri hæfni sem nauðsynleg er til þess að komast af í síbreytilegu, stafrænu og sjálfvirknivæddu samfélagi. Hér gegnir menntun mikilvægu hlutverki. Nordic C.R.A.F.T. (Creating Really Advanced Creative Thinkers) er verkefni sem hefur að markmiði að þróa mikilvægustu hæfni 21. aldarinnar, svo sem samstarf, lausn vandamála, nýsköpun, gagnrýna hugsun, samskipti og Computational thinking. Reynsla Nordic C.R.A.F.T. sýnir að nýskapandi kennsla með tækni stuðlar að því að auka áhuga nemenda á námi sínu. Um leið er hæfni kennaranna þróuð í átt að því að vera skipuleggjendur þar sem nemendurnir eru framleiðendur og miðlarar. Norræna samstarfsnetið um fullorðinsfræðslu (NVL) vinnur að stafvæðingu og stafrænni umbreytingu gegnum tvö samstarfsnet. Það eru Stafræn inngilding þar sem unnið er að því að brúa stafrænt bil og auka skilning fullorðinna á stafrænni þátttöku og Stafrænt atvinnulíf sem ætlað er að vinna að stafrænni hæfniþróun á vinnumarkaði.
7. Sjálfbær þróun
Áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2030-kynslóðin styður innleiðingu norrænu ríkjanna á heimsmarkmiðunum 17 á Norðurlöndum og leggur áherslu á að virkja börn og ungmenni til breytinga - nú og fyrir framtíðina. Á sviði menntamála er sérstök áhersla lögð á að Norðurlönd eigi að vera í forystu varðandi innleiðingu fjórða heimsmarkmiðs SÞ um gæði menntunar, með sérstaka áherslu á lið 4.7 um borgaraþátttöku á heimsvísu. Norrænu ríkin vinna að því að greina bestu aðferðirnar til að vinna með heimsmarkmið 4.7 í menntakerfinu.
8. Málskilningur
Með tungumálasamstarfinu verður til þekking um tungumál sem nýtt eru í samfélögunum í heild, táknmál og minnihlutatungumál landanna. Gagnkvæmur skilningur milli grannmálanna dönsku, norsku og sænsku styrkist gegnum samstarfið. Áhersla er lögð á tengsl tungumáls og menningar. Einnig er lögð áhersla á málnotkun barna og ungmenna og viðhorf þeirra til tungumálsins. Þróun tungumála Norðurlanda til framtíðar í ljósi áhrifa frá ensku, nýrrar tækni og nýrra gagnvirkra samfélagsmiðla er meðal mikilvægustu málefnanna.
Góður tungumála- og menningarskilningur stuðlar því að samkennd á Norðurlöndum. Um leið eykst áhugi og hvatning til þess að stunda nám eða störf í nágrannalöndunum. Frá sjónarhóli samskipta verður þannig gagnkvæmt samspil milli aðgerða til að auka hreyfanleika og aðgerða á sviði tungumála.
9. Hreyfanleiki
Styrkjaáætlanir Norrænu ráðherranefndarinnar, Nordplus og Nordic Master stuðla að auknum hreyfanleika á sviði menntunar. Um getur verið að ræða allt frá stuttum skiptidvölum fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur upp í hraðnámskeið eða fullburða námsframboð fyrir háskólanema eða verkefni sem snúa að fullorðinsfræðslu. Norrænu áætlanirnar styðja einnig hreyfanleika kennara þannig að þeir geti myndað samstarfsnet og stærri og smærri þróunarverkefni. Hreyfanleiki er framarlega á norrænni dagskrá. Það er ekki bara vegna þess að það er gagnlegt að læra hvert af öðru og miðla þekkingu þvert á landamæri. Hreyfanleiki stuðlar einnig að betri tungumála- og menningarskilningi og tilfinningu fyrir samkennd á Norðurlöndum. Þá er alþjóðleg hæfni styrkt gegnum skiptiáætlanir.
10. Viðurkenning á hæfni
Hreyfanleiki á Norðurlöndum er forgangsstefnumál. Upphefja þarf eins og kostur er þær hindranir sem eru í vegi fyrir því að geta stundað nám eða fundið starf í öðru norrænu ríki. Þess vegna stendur vilji til að norrænu ríkin styrki samstarfið um gagnkvæma viðurkenningu á menntunar- og starfshæfni hvers annars á öllum stigum. Vilji er til að norrænir borgarar verði ekki fyrir því að vera vísað frá þegar þeir sækja um nám eða starf í norrænu ríki, einungis vegna þess að fyrra nám þeirra hafi verið stundað í öðru norrænu landi. Árið 2022 undirrituðu norrænu menntamála- og rannsóknarráðherrarnir endurskoðaða yfirlýsingu um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun (Reykjavíkuryfirlýsinguna).