Saman um sjálfbæra þróun, jafnrétti og sjónarmið barna og ungmenna
Sjálfbær þróun, jafnrétti og málefni barna og ungs fólks eru þrjú þverlæg og mikilvæg norræn gildi sem jafnframt eru undirstaðan í norrænu samstarfi. Með því að taka tillit til þessara þverlægu sjónarmiða og samþætta þau tryggjum við að starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar verði sjálfbær, stuðli að jafnrétti, sé inngildandi og aðgengileg með þátttöku fulltrúa ólíkra hópa. Það er á ábyrgð allra sem vinna fyrir eða á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, óháð fagsviði, að taka tillit þessara sjónarmiða.
Hvað er samþætting?
Samþætting er aðferð til að ná þverlægum markmiðum. Í samþættingu felst að öll sem vinna fyrir eða á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar greini verkefni sín, fjárhagsramma og áætlanir með hliðsjón af sjálfbærri þróun, jafnrétti og sjónarmiðum barna og ungs fólks og taki mið af þeirri greiningu við ákvarðanatöku.
Hvers vegna skiptir samþætting máli?
Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar hefur áhrif á líf fólks á Norðurlöndum. Við innleiðum aðgerðir sem auðvelda daglegt líf íbúa Norðurlanda, við leiðum saman norræna hagaðila svo þeir læri hver af öðrum og sköpum þekkingu og lausnir sem styðja við þróun á Norðurlöndum. Þess vegna skiptir máli að tryggja að starfsemi okkar sé sjálfbær, á jafnréttisforsendum, inngildandi og aðgengileg fulltrúum ólíkra hópa.
Norræna ráðherranefndin stefnir hátt í samþættingu og styðst þar við skuldbindingar Norðurlanda varðandi heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun, kvennasáttmála SÞ og barnasáttmála SÞ. Metnaðurinn birtist einnig í því að Norræna ráðherranefndin er meðal fyrstu stofnana sem draga þessi þrjú þverlægu sjónarmið saman í eina stefnumótun.
Í Stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu sjálfbærrar þróunar, jafnréttis og sjónarmiða barna og ungmenna er bent á grundvallarreglur samþættingar og ábyrgð á henni. Vel heppnuð samþætting þessara sjónarmiða er nauðsynleg ef framtíðarsýnin um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á að nást. Samþættingarstarfið er sameiginleg ábyrgð okkar. Þess vegna samþykktu samstarfsráðherrar Norðurlanda (MR-SAM) þessa heildarstefnu 23. júní 2020.
Leiðbeiningar um samþættingu þverlægra sjónarmiða styðja starf allra sem taka þátt í samþættingarstarfinu fyrir Norrænu ráðherranefndinni eða á vegum hennar. Þær setja samþættingu í víðara samhengi og veita leiðsögn um samþættingu skref fyrir skref. Leiðbeiningarnar eru verkfæri sem þú getur beitt til að kanna sjónarmið tengd sjálfbærri þróun, jafnrétti og málefnum barna og ungs fólks á þínu verksviði.
Þegar börn og ungmenni taka beinan þátt í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar eru fyrir hendi viðmiðunarreglur og háttalag sem á að fylgja. Nánari leiðbeiningar um samþættingu sjónarmiða barna og ungs fólks er að finna í Ertu með réttu gleraugun? og Do Rights!
Norræna ráðherranefndin greinir árlega frá störfum sínum að jafnréttismálum en annað hvert ár frá starfi að málefnum barna og ungmenna og að málefnum fólks með fötlun. Þessar skýrslur gera okkur kleift að fara yfir það sem áunnist hefur á þverlægum sviðum en sýnir okkur einnig hvar má gera betur í framtíðinni og hvernig bæta megi samþættingu sjónarmiðanna.
Í fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar eru sýndir þeir fjárliðir og svið sem lögð er sérstök áhersla á til að stuðla að hinum þremur þverlægu sjónarmiðum. Þessar aðgerðir eru sýndar með táknmyndum.