40 tillögur frá norrænum ungmennum: Svona verður landsbyggðin aðlaðandi fyrir okkur

18.10.23 | Fréttir
flicka i talarstolen
Ljósmyndari
Sigurjon Ragnar
Er hægt að gera dreifbýlið nógu aðlaðandi í augum ungs fólks að það kjósi að búa þar áfram? Auðvitað! En til þess þarf betri stafrænar tengingar til þess að stunda fjarvinnu og -nám, betri almenningssamgöngur og fleiri ódýrar lausnir í húsnæðismálum. Norræn ungmennanefnd tók saman 40 tillögur um aðlaðandi dreifbýli sem ræddar voru á fundi norrænna ráðherra byggðamála á Íslandi í dag.

Ungt fólk flytur af landsbyggðinni vegna vinnu og náms og til þess að koma upp fjölskyldu í borgum. Þessi þróun kemur í veg fyrir sjálfbæra samfélagsþróun á landsbyggðinni.

Er hægt að snúa þróuninni við?

Fyrir einu ári ákváðu ráðherrar byggðamála á Norðurlöndum að ráðfæra sig við unga fólkið sjálft til þess að fá svör við þeirri spurningu.

25 ungmenni frá öllum Norðurlöndum í ráðgjafahóp

Norræna rannsóknastofnunin í skipulags- og byggðamálum, Nordregio, var falið að finna ungmenni á aldrinum 18–25 ára frá strjálbýlum svæðum á Norðurlöndum og setja saman ungmennanefnd.


Verkefni nefndarinnar var að taka saman tillögur til Norrænu ráðherranefndarinnar og stjórnvalda í löndunum og á svæðunum. Tillögurnar eiga að veita innsýn og ýta undir lausnir og tækifæri til þess að ungt fólk geti sest að á strjálbýlum svæðum á Norðurlöndum.

„Maður er oftast yngstur“

Á fundi ráðherranna á Íslandi þann 18. október gafst fulltrúum ungmennanefndarinnar færi á að ræða bráðbirgðatillögur sínar við norræna ráðherra byggðaþróunar og skipulagsmála. 


Sofia Lindgårde frá „pínulitlu plássi í Västergötaland“ í Svíþjóð er ein af meðlimum ungmennanefndarinnar. 


„Við sem búum á landsbyggðinni erum oftast yngst í öllu samhengi. Það er búið að vera ótrúlega lærdómsríkt að ræða kjör ungs fólks í dreifbýli við jafnaldra sína frá öðrum löndum. Þótt forsendurnar séu mismunandi hugsum við mjög svipað,“ segir hún. 
 

Leyfið ungu fólki að hafa áhrif á samfélagsskipulagið

Aðspurð hvort hægt sé að gera landsbyggðina aðlaðandi fyrir ungt fólk svarar Sofia Lindgårde því hiklaust játandi.


Hún undirstrikar að sveitarfélög og yfirvöld eigi að nýta tækifærin sem í stafvæðingu felast og hlusta á ungt fólk þegar kemur að málum sem varða húsnæði og samfélagsskipulag almennt.


„Ég held að byggðamálaráðherrarnir, sveitarfélögin og svæðisbundin yfirvöld eigi að velta því fyrir sér hvernig þau geta leyft ungu fólki að hafa meiri áhrif á samfélagsskipulagið í dreifbýli. Kannski með ráðgjafahópum,“ segir Sofia Lindgårde sem situr í ungmennanefndinni en var ekki viðstödd ráðherrafundinn á Íslandi. 

Nýjar lausnir í atvinnu-, húsnæðis- og samgöngumálum

Tillögur nefndarinnar tengjast meðal annars samgöngum, húsnæðismálum, menningarmálum og samkomustöðum, menntun, íþróttum og heilbrigðismálum.


Atvinna er forsenda þess að ungt fólk geti búið á strjálbýlum svæðum og að sögn Sofiu Lindgårde skiptir miklu máli að komast snemma í tengsl við atvinnulífið á svæðinu, t.d. með starfsnámi á skólatíma, til þess að ungt fólk sjái tækifæri í því að vinna á svæðinu. 

Tillögurnar afhentar ríkisstjórnunum

Tillögurnar 40 verða gefnar út og kynntar formlega fyrir ríkisstjórnum norrænu landanna í nóvember en fulltrúi ungmennanefndarinnar var viðstaddur fund ráðherranna á Íslandi og gaf munnlega skýrslu.

„Það er búið að vera lærdómsríkt að fá betri innsýn í hvað það er sem stjórnar því hvar ungt fólk vill búa, stunda nám og vinna í framtíðinni. Á síðustu árum höfum við reynt að hlusta eftir því hvað unga fólkið hefur að segja í tengslum við stefnumótun okkar. Það er mikilvægt að eiga samráð við unga fólkið og hlusta á sjónarmið þess í öllu starfi okkar og ákvarðanatöku um byggðamál í framtíðinni,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. 

Hlutverk byggðastefnu í viðbúnaðarmálum

Á fundi ráðherranna var einnig til umræðu hvernig öryggis- og viðbúnaðarmál tengjast byggðaþróun á Norðurlöndum.


Tilefni umræðnanna var bæði stríðið í Úkraínu og loftslagsáhrif sem hafa áhrif á öryggi fólks sem býr á strjálbýlum svæðum á Norðurlöndum, t.d. vegna aur- og vatnsflóða.


Í væntanlegri samstarfsáætlun um byggðaþróun og skipulagsmál verður bæði fjallað um vinnu ungmennanefndarinnar og öryggishliðina á byggðastefnunni.