Áframhaldandi norrænn stuðningur við fjölmiðla fyrir rússneska íbúa Eystrasaltsríkjanna
Norræna ráðherranefndin framkvæmdi á tímabilinu 2014-2016 áætlun sem náði utan um framleiðslu efnis, fjölmiðlafræði og fjölmiðlarýni þar sem markhópurinn var rússneskumælandi íbúar Eystrasaltsríkjanna. Áætlunin tókst vel og vakti mikla athygli í fjölmiðlaheiminum og meðal stjórnmálafólks. Markmiðið með nýrri áætlun er að halda áfram stuðningi við og festa í sessi starfsemi óháðra fjölmiðla á rússnesku í Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
„Fyrra samstarfsverkefnið um fjölmiðla leiddi í ljós að hér er svið þar sem reynsla Norðurlandaþjóða nýtist afar vel,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og bætir við: „Við gerum ráð fyrir að nýja áætluni muni staðfesta þetta enn frekar.“
Áætlunin felst meðal annars í framleiðslustyrkjum til fréttamanna sem vinna með fjölmiðlaefni með því skýra markmiði að ná til rússnesku- og pólskumælandi minnihlutahópa í pólitískri samfélagsumræðu.
Áhersla er lögð á endurmenntun blaðamanna, meðal annars um siðfræði og hagkerfi blaðamennskunnar, og jafnframt lagaleg atriði. Samin verður lögfræðileg handbók fyrir blaðamenn. Handbókin á að vera gagnlegt verkfæri fyrir blaðamenn um mál fjölmiðlunar sem varða löggjöfina.
Einnig verða veittir beinir þróunar- og framleiðslustyrki til rússneskumælandi sjónvarpsstöðvarinnar ETV+ í Eistlandi og útvarpsefnis í Lettlandi. Þá mun Eastern Europe Studies Centre samhæfa framleiðslu þátta um rússnesku og pólsku þjóðarbrotin í Litháen.
Mikilvægur þáttur í áætluninni verður að miðla aukinni þekkingu um fjölmiðla- og heimildarýni, til blaðamanna, kennara og fjölmiðlaneytenda.
Áætlunin verður framkvæmd árin 2017 og 2018 í samstarfi við skrifstofur ráðherranefndarinnar í löndunum og aðila á staðnum. Heildarupphæð áætlunarinnar er um 4,8 milljónir danskra krónar, þar af greiðir Norræna ráðherranefndin rúmlega 80%.