Hvernig norrænir vinnumarkaðir geta staðist áföll framtíðarinnar

16.03.23 | Fréttir
kvinnor som jobbar på ett cafe
Ljósmyndari
Unsplash
Hversu traustum fótum standa norrænir vinnumarkaðir á krepputímum? Ný skýrsla OECD skoðar pólitísk viðbrögð við heimsfaraldrinum og gefur ráðleggingar um hvernig löndin geta eflt mótstöðukraft sinn í framtíðinni.

Á meðan unnið var að skýrslunni hófust tvær nýjar krísur: fyrst innrás Rússlands í Úkraínu sem hafði í för með sér að milljónir manna fóru á flótta, og því næst orkukrísan, sem leiddi til mikillar verðbólgu. Ein af niðurstöðum skýrslunnar er að það skiptir lykilmáli að geta tekið hraðar ákvarðanir. Þríhliða samstarf Norðurlandanna auðveldar það.


„Náið samstarf við vinnumarkaði á Norðurlöndum var afar athyglisvert og jákvæður þáttur í því hvernig Norðurlöndin brugðust við faraldrinum,“ segir í skýrslunni, sem nefnist „Nordic lessons for an Inclusive Recovery?“.

Stefano Scarpetta frá OECD heimsækir Ísland

Skýrslan var gerð að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar og var kynnt af íslensku formennskunni á ráðstefnu í Reykjavík á fimmtudaginn, en þar tóku þátt Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumálaráðherra, Stefano Scarpetta, framkvæmdastjóri vinnumálasviðs OECD, og framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Karen Ellemann. 


Samkvæmt skýrslunni jókst atvinnuleysi hraðar á Norðurlöndum í heimsfaraldrinum en í flestum Evrópulöndum, sérstaklega á Íslandi, en um leið var endurreisn efnahagsins á Norðurlöndum hraðari en að meðaltali í OECD-löndum.

Hröð endurreisn

Endurreisn vinnumarkaðarins var hraðari en eftir efnahagskreppuna 2008, þegar mörg ár liðu áður en atvinnuþátttaka á Norðurlöndum fór aftur í sama horf og fyrir kreppuna.


„Miðað við OECD í heild minnkaði verg þjóðarframleiðsla minna á Norðurlöndum þegar COVID-19 var í hámarki og hækkaði hraðar á endurheimtartímanum.

Þjóðarframleiðslan jókst mest í Danmörku (+5,5%) og Svíþjóð (+5,1%)“, segir í skýrslunni.

Störf og laun í mestum forgangi

„Norðurlöndin beittu fjölbreytum pólitískum aðgerðum og lögðu áherslu á að vernda störf og launatekjur. Þessi reynsla gefur okkur dýrmæta þekkingu, ekki bara fyrir framtíðarkrísur, heldur einnig til að skapa vinnumarkaði með meiri mótstöðukraft og inngildingu á Norðurlöndum framtíðarinnar,“ segir Stefano Scarpetta, framkvæmdastjóri vinnumálasviðs OECD.

 

Mest áhrif á þau sem þegar áttu í erfiðleikum

Í titli skýrslunnar er spurningamerki, sem kann að vísa til þess hvort endurheimtin hafi í raun verið inngildandi. Eins og víða var mismunandi hversu hart faraldurinn bitnaði á mismunandi hópum á Norðurlöndum. Faraldurinn hafði einna mest áhrif á ungmenni, fólk með litla menntun og innflytjendur.


Þökk sé hraðri endurreisn hafði mikill hluti þessara afleiðinga þó gengið til baka í byrjun árs 2022.

„Öryggisnetið virkaði“

„Það er jákvætt að skýrslan sýnir að líkan okkar, með félagslegu öryggisneti, hefur stuðningsmátt og stuðlar að því að jaðarsettir hópar taki þátt á vinnumarkaði, sérstaklega á krepputímum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, vinnumálaráðherra.


Samkvæmt skýrslunni hafði faraldurinn ekki mjög ólík áhrif á karla og konur, eins og mörg óttuðust í upphafi. Konur unnu þó fremur heima en karlar.

Meira um tvöfalda vinnu fyrir konur

Faraldurinn kann þó að hafa haft áhrif á jafnrétti á vinnumarkaði, sem er nokkuð sem ekki var skoðað í skýrslunni, bendir vinnumálaráðherra á.


„Þegar lokanirnar voru sem mestar virðist vera sem gömul fjölskyldumynstur hafi aftur tekið sig upp, sem gerði konum erfiðara fyrir að sinna atvinnustörfum sínum. Ég tel að einn af þeim lærdómum sem stjórnmálamenn geta dregið sé að gæta sérstaklega að því að krísur framtíðarinnar leiði ekki til ófyrirséðs kynjamunar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Ráðleggingar OECD til Norðurlanda fyrir komandi krísur:

•    Tryggja að til staðar séu ferli til að aðlaga megi reglur og úrræði á vinnumarkaði að nýjum aðstæðum með litlum fyrirvara.


•    Beinar aðgerðir til að vernda störf hjá þeim fyrirtækjum sem eiga í mestum lausafjárvanda. Fyrirtæki geta endurgreitt stuðninginn þegar kreppan minnkar.


•    Flýta fyrir upplýsingaskiptum og gefa vinnumálastofnunum betri aðgang að gögnum til að í boði sé sú framhaldsmenntun sem mest þörf er fyrir.