Monika Fagerholm hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020

27.10.20 | Fréttir
Monika Fagerholm
Ljósmyndari
Nordisk kulturkontakt/Seppo Samuli

Monika Fagerholm, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020, fékk verðlaunagripinn Norðurljós afhentan við litla athöfn hjá Norrænu menningargáttinni í Helsingfors.

Finnski rithöfundurinn Monika Fagerholm hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2020 fyrir skáldsöguna „Vem dödade bambi?“.

Monika Fagerholm hlaut verðlaunin fyrir verk sem ólgar af orku og fáguðum siðferðisboðskap.

Bókmenntaverðlaunin voru afhent af rithöfundinum og listakonunni Zinat Pirzadeh á stafrænni verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2020 á þriðjudagskvöld. COVID-19 kom í veg fyrir afhendingu verðlaunanna á Íslandi og þess í stað voru handhafar verðlaunanna fimm kynntir á öðruvísi verðlaunahátíð á netinu.

Rökstuðningur dómnefndar

Skáldsagan Vem dödade bambi? („Hver drap Bamba?“) eftir Moniku Fagerholm ólgar af orku og fáguðum siðferðisboðskap. Hópnauðgun er framin af unglingum úr efri stétt hins vel stæða Villastaden í útjaðri Helsingfors. Fagerholm beinir sjónum ekki að þolanda nauðgunarinnar heldur að gerendunum og atburðarásinni fyrir og eftir nauðgunina. Einkum verða tilraunir fullorðna fólksins til að breiða yfir orðinn hlut að framúrskarandi beittri samfélagsádeilu í meðförum höfundar. Tungumálið veltur fram, fullt af krafti og átakanlegum töfrum. Í hinum þétta vef samtala, stefja og vísana í dægurmenningu býr vægðarlaus sannleikur sem persónurnar fá ekki varist. Gusten Grippe, sá eini af gerendunum sem gengst við sekt sinni, myndar mótvægi við hinn myrka sogkraft herbergisins þar sem árásin átti sér stað. Löngun eftir hinu ósnerta er stillt upp gegn yfirborðsmennskunni og metorðaþorstanum sem einkennir samtíma okkar – lífsnauðsynlegri löngun sem er miðlað í formi svipmynda af ást og vináttu, stunda sem má snúa aftur til og sækja styrk í.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Hver verðlaun nema 350 þúsundum danskra króna og eru veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.