Norðurlandaráð: Stafrænt sjónvarp á að ná til allra Norðurlanda

02.11.17 | Fréttir
Johanna Karimäki
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Allir íbúar Norðurlanda eiga að hafa aðgang að stafrænu sjónvarpi á rásum hver annarrar. Þess vegna hefur Norðurlandaráð samþykkt tillögu um að kannað verði hvernig hægt verði að afnema lokun höfundarréttarvarins efnis eftir svæðum (geo-blocking) milli norrænu ríkjanna.

- Sjónvarpsþættir eins og SKAM hafa sýnt fram á að ungt fólk á Norðulöndum getur alveg lært að skilja mál hvers annars. Lokun höfundarvarins efnis eftir svæðum er ekki bara stafræn tálmun heldur einnig hindrun á vegi gagnkvæms norræns málskilnings og menningarmiðlunar. Þess vegna verður að afnema lokun höfundarvarins efnis eftir svæðum, segir Johanna Karimäki, fulltrúi í Norrænu þekkingar- og menningarnefndinni.

Notkun á streymiþjónustu hefur aukist verulega á Norðurlöndum og þess vegna er nauðsynlegt að afnema lokun höfundarvarins efnis milli norrænu ríkjanna. Málefnið er einnig rætt á Evrópuþinginu en fulltrúar í Norðurlandaráði vilja ganga á undan og tryggja borgurum aðgang að stafrænu efni nágrannaþjóða sinna.

Þáttaröðin SKAM þar sem stafrænir miðlar voru mikið nýttir sýndi að ekki var nóg að sjónvarpsstöðvarnar sýndu sjónvarpsþættina vegna þess að notendur þurftu að hafa aðgang að öllum hinum stafræna heimi sjónvarpsþáttaraðarinnar.

Norðurlandaráð mun að sjálfsögðu taka tillit til rétthafa þannig að þeir fái greitt fyrir efni sitt en hafa ber í huga að framleiðendur munu eiga þess kost að ná til enn stærri markhóps á öllum Norðurlöndunum.

Tillagan var samþykkt á þingi Norðurlandaráðs og verður send þaðan til Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál.