Norðurlönd beita sér fyrir auknu jafnrétti á heimsvísu

11.03.19 | Fréttir
The Nordic Ministers for Gender Equality are signing declaration in Scandinavia House, New York on the occasion of  the CSW63.

The Nordic Ministers for Gender Equality are signing declaration in Scandinavia House, New York on the occasion of  the CSW63.

Photographer
Pontus Hook
„Við skuldbindum okkur til að leitast af fremsta megni við að ná árangri í jafnréttismálum í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030.“ Þetta segir í sameiginlegri viljayfirlýsingu sem jafnréttismálaráðherrarnir átta á Norðurlöndum undirrituðu og afhentu Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóra UN Women, á sunnudagskvöld.

Norðurlönd hafa tekið forystu í jafnréttismálum í alþjóðlegum samanburði og henni fylgir ábyrgð.

Ekki eru nema ellefu ár þar til sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna eiga að vera uppfyllt og heita ríki Norðurlanda því að leggja allt kapp á að fleiri lönd nái markmiðinu um að tryggja jafnrétti.

Jafnréttið byrjar heima

Með undirritun viljayfirlýsingarinnar er öðrum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna boðið til samstarfs við Norðurlönd og UN Women um ráðstafanir í jafnréttismálum til að innleiða Heimsmarkmiðin fyrir árið 2030.

Meðal verkefna sem nýtt verða sem leiðarvísir er Nordic Gender Effect at Work þar sem löndin lýsa pólitískum umbótum og árangri sínum af jafnréttisstarfi í 50 ár.

Forsætisráðherra Íslands á fundi kvennanefndar SÞ

- Jöfn staða kvenna og karla heima fyrir er forsenda jafnréttis á vinnumarkaði og skiptir öllu máli að átta sig á samhenginu þar á milli. Þess vegna bjóðum við til frjós samstarfs um að koma á launuðu fæðingarorlofi á jafnréttisforsendum, hágæða dagvistun fyrir alla og jafnrétti í stjórnunarstöðum, segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands og ráðherra jafnréttismála.

Katrín er ásamt öðrum jafnréttismálaráðherrum Norðurlanda á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York.

Raunveruleg áhrif

Norrænu ríkin hafa verið í efstu sætum á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir lönd þar sem kynjajafnrétti mælist mest og af því má sjá að norræn jafnréttisáhrif, „Nordic Gender Effect“, eru raunveruleg og ekki orðin tóm.

Í úttektinni er meðal annars lagt mat á jafnrétti kynjanna í menntun, heilbrigði, atvinnu og stjórnmálum.

MeToo afhjúpaði áskoranir í jafnréttismálum

Úttektin nær þó ekki til allra jafnréttisviðmiða eins og til dæmis verndar gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Hvað það varðar leggja ráðherrar Norðurlanda mikla áherslu á að #MeToo-hreyfingin hafi sýnt fram á að enn sé mikið svigrúm til að gera betur í jafnréttismálum, bæði á Norðurlöndum og um allan heim.

Jafnrétti er mögulegt

Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women, sagði að Norðurlönd sendu heimsbyggðinni mikilvæg skilaboð með einlægum stuðningi sínum við jafnréttismarkmið Heimsmarkmiðanna fyrir árið 2030.

- Framsækni Norðurlanda í jafnréttismálum hefur mikið að segja. Reynsla ykkar af að nýta almannatryggingakerfi og löggjöf í þágu jafnréttis auk nýsköpunar og þátttöku drengja og karla - þessi reynsla getur hjálpað okkur við að finna lausnir fyrir allan heiminn, sagði Phumzile Mlambo-Ngcuka á fundi sínum með ráðherrunum.