Norræna ráðherranefndin hættir starfsemi í Norðvestur-Rússlandi um óákveðinn tíma

11.03.15 | Fréttir
Starfsemi á upplýsingaskrifstofum Norrænu ráðherranefndarinnar í Norðvestur-Rússlandi verður hætt um óákveðinn tíma. Þetta ákváðu norrænu samstarfsráðherrarnir á fundi sínum á Grænlandi í dag. Ákvörðunin varðar skrifstofurnar í Pétursborg og Kalíníngrad og starfsstöðvar í Múrmansk, Petrozavodsk og Arkhangelsk.

Ráðherranefndin mun þó áfram nýta það fjármagn sem hún telur nauðsynlegt með hliðsjón af samstarfssamningi sínum við Rússland. Skipaður hefur verið vinnuhópur með fulltrúum frá norrænu löndunum, sem ætlað er að rýna í gerð áætlunar um samstarf við Norðvestur-Rússland. Norræna ráðherranefndin hefur rekið starfsemi í Rússlandi í 20 ár. Skrifstofan hefur gegnt mikilvægu hlutverki við að byggja upp tengsl milli stjórnsýslu og atvinnulífs í norrænu löndunum og Norðvestur-Rússlandi. Jafnframt hefur hún verið tengiliður og stuðningsaðili Norðurlanda við rússneskt samfélag, ekki síst á sviði menningar- og menntamála.

Því harmar Carsten Hansen, hinn danski formaður norrænu samstarfsráðherranna, að sú ákvörðun Rússlands að skilgreina skrifstofuna í Pétursborg sem „erlendan aðila“ hafi nú valdið því að norrænu löndin verði að hætta starfsemi þar.

„Ríkisstjórnir norrænu landanna telja það óásættanlegt að halda starfseminni áfram sem erlendur aðili,“ segir danski samstarfsráðherrann.

„Í augnablikinu eru ekki forsendur til þess að skrifstofan starfi áfram. Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar í Norðvestur-Rússlandi hefur það markmið að bæta tengsl og samskipti milli Norðurlanda og Norðvestur-Rússlands, og það getum við ekki gert sem erlendur aðili.“

Norræna ráðherranefndin leggur enn sem fyrr mikið upp úr samstarfi við Rússland, en það á eftir að koma í ljós hvernig því verður háttað í framtíðinni.

„Ráðherranefndin hefur haft umfangsmikla starfsemi í Rússlandi. Hún verður ekki lögð niður á einni nóttu heldur mun það útheimta mikla vinnu og endurskipulagningu yfirvalda, samstarfsaðila og starfsfólks,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ákvörðunin mun hafa áhrif á hina samtals tuttugu starfsmenn sem starfa á skrifstofunum í Norðvestur-Rússlandi.