Norrænir ráðherrar skrifa ESB um nýja matvælamerkingu

28.06.22 | Fréttir
nyckelhålssymbol på matpaket
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Nýja evrópska matvælamerkingin verður að vera byggð á vísindalegum grunni og viðskiptalegir hagsmunir mega ekki ráða för. Það skrifa norrænir ráðherrar sem fara með málefni matvæla í sameiginlegu bréfi til ESB.

Í ESB stendur yfir vinna við að koma á skyldubundinni merkingu allra matvæla, merkingu sem ætlað er að leiðbeina neytendum við að velja hollari matvæli.

Það gæti orðið merking á framhlið matvælaumbúða þar sem fram koma upplýsingar um hollustu innihaldsins.

Gæti keppt við Skráargatið

Skyldubindin merking á vegum ESB gæti keppt við núverandi innlendar og svæðisbundnar merkingar eins og til dæmis norrænu skráargatsmerkinguna sem hefur verið notuð á Norðurlöndum í 30 ár.

Skráargatið og hjartamerkið í Finnlandi eru byggð á norrænum næringarráðleggingum sem studdar eru af rannsóknum.

Nú vonast norrænir ráðherrar sem fara með matvæla- og heilbrigðismál að norræna merkingarkerfið geti verið fyrirmynd hins evrópska.

 

Reynsla af merkingum sem virka

„Nú þegar framkvæmdastjórn ESB ætlar sér að vinna að þróun merkingar fyrir framhlið matvælaumbúða með upplýsingum um hollustu þeirra viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar. Norðurlönd hafa mikla reynslu af þróun og notkun næringarmerkinga til að auðvelda fólki að hafa hollustu að leiðarljósi við val sitt,“ segir Ingvild Kjerkol, heilbrigðis- og umönnunarráðherra í Noregi.

Hvetur til vöruþróunar

Ábyrgð á þróun norrænna matvælamerkinga liggur hjá ríkisstjórnunum en hún fer fram í nánu samstarfi við neytendur, fræðasamfélagið og iðnaðinn.

Það hefur skilað sér í vel þekktri merkingu sem nýtur trúverðugleika og hvetur matvælaiðnaðinn til stöðugrar vöruþróunar.

Í bréfi sínu til framkvæmdastjórnar ESB skrifa norrænu ráðherrarnir að þeir vonist eftir svipuðu opnu og þekkingarmiðuðu ferli þar sem fræðimenn og hagsmunaaðilar fái að koma að því að skapa regluverkið um hina nýju ESB-merkingu.

Óttast samdrátt í útflutningi á matvælum

Mikilvægt er að merking sé byggð á gögnum og rannsóknum eigi hún að njóta trausts. Hafa verður næringargildi og hollustu matvælanna að leiðarljósi en ekki viðskiptalega hagsmuni, að mati norrænu ráðherranna.

Vinna ESB við að koma á sameiginlegri matvælamerkingu hefur vakið umræður og áhyggjur ýmissa hagsmunaaðila sem óttast að merkingin muni verði slæm auglýsing fyrir mikilvægar útflutningsvörur.

Norðurlönd leggja hönd á plóg með uppfærðum næringarráðleggingum

Á Norðurlöndum er nú verið að leggja lokahönd á uppfærslu norrænna næringarráðlegginga sem koma út í nýrri útgáfu í júní 2023. Þar verða sjálfbærniforsendur í fyrsta sinn fléttaðar inn í ráðleggingarnar.

Ráðherrarnir vonast til þess að hinar nýju norrænu næringarráðleggingar geti nýst í tengslum við nýja ESB-merkingu á matvælum.

Tengiliður