Norrænt verkefni um kolefnisjöfnun menningarstarfs

02.11.22 | Fréttir
Samtalsserien Skogen Kallar
Photographer
Therese Kellner

Mynd frá umræðuröðinni „Skógurinn kallar“. Norræna menningargáttin stóð fyrir umræðuröðinni 2021 en þar var samband nútímafólks við náttúruna var skoðað frá sjónarhóli lista og menningar.

Sköpun og miðlun lista og menningar hafa yfirleitt áhrif á umhverfið og jafnvel þótt til séu ýmsar leiðir til að draga úr kolefnissporinu reynist oft nauðsynlegt að kolefnisjafna verkefni til þess að standast markmið um kolefnishlutleysi. Norrænu menningarmálaráðherrarnir tóku í dag ákvörðun um að efna til norræns tilraunaverkefnis með það fyrir augum að stuðla að þróun hæfni, verkfæra og verklagsreglna á þessu sviði.

Þegar eru fyrir hendi eru mörg mikilvæg verkefni sem stuðla að grænum umskiptum í menningargeiranum. Margar norrænar stofnanir og haghafar búa yfir verðmætri hæfni sem ætti að geta nýst betur. Þar eru því fyrir hendi tækifæri til aukinnar samhæfingar, stefnumótunar og miðlunar á þekkingu, aðferðum og verklagsreglum á norrænum vettvangi.  Ráðherrarnir taka á þessu í nýju tillögunni um tilraunaverkefni um kolefnisjöfnun sem rædd var á fundi þeirra í Helsinki á miðvikudaginn.

„Loftslagskreppan er stærsta áskorun okkar tíma og við verðum öll að vinna að því hörðum höndum að finna lausn á henni til að hraða á grænum umskiptum. Norræni menningargeirinn styður þetta og nú stendur yfir verkefnið Sjálfbærir menningarviðburðir sem við styrkjum þegar með hálfri milljón danskra króna. Við viljum vinna saman að grænna menningarlífi og undirbúa jarðveginn fyrir haghafa sem eru í fararbroddi varðandi sjálfbærni og stuðla að miðlun þekkingar og verkfæra,“ segir Anette Trettebergstuen, menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál 2022.  

Verkfæri og verklagsreglur

Fulltrúar frá norrænum stuðningsáætlunum og sérfræðingar í stjórnun kolefnisjöfnunar munu taka þátt í tilraunaverkefninu með það að markmiði að styrkja miðlun þekkingar og aukna meðvitund um málefnið.

Verkefninu er ætlað að stuðla að þróun verkfæra og verklagsreglna um hvernig gera megi ráð fyrir kolefnisjöfnun í fjárhagsáætlunum menningarverkefna. Þannig getur verkefnið stuðlað að aukinni meðvitund um kolefnisjöfnunaraðgerðir, einnig hjá stjórnvöldum á sviði menningarmála. 
 

Nýjar aðgerðir fyrir sjálfbæra menningarviðburði

Norrænu menningarmálaráðherrrarnir hafa í stefnumótunarsamstarfi sínu á sviði menningar komið sér saman um að vinna markvisst að því að styðja ný sjálfbær verkefni í norræna lista- og menningargeiranum. Tilraunaverkefnið um kolefnisjöfnun er hluti verkefnisins Sjálfbærir menningarviðburðir sem er ein af mörgum stefnumótandi aðgerðum í vinnunni við framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030.


Grænt vegakort fyrir menningarlífið á Norðurlöndum sem í stórum dráttum á að einfalda Norðurlandabúum að velja sjálfbæra menningarviðburði og BærekraftsLAB þar sem farið verður nánar í saumana á tengslum milli skóla- og menningargeirans á sviði sjálfbærni eru liðir í verkefninu. Þá verður gerð rannsókn innan ramma verkefnisins þar sem kyngreindar upplýsingar um menningarneyslu verða bornar saman við kolefnisspor mismunandi menningarviðburða.

MR-K
Photographer
Johannes Jansson/norden.org