Kristín Eiríksdóttir

Kristín Eiríksdóttir
Ljósmyndari
Dino Ignani
Kristín Eiríksdóttir: Elín, ýmislegt. Skáldsaga, Forlagið, 2017. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rökstuðningur:

„Ég hef verið svo margar konur,“ segir hin aldraða aðalpersóna í Elín, ýmislegt við unga stúlku og finnst stúlkan hlæja óþarflega hátt. Skáldsaga Kristínar fjallar um sjálfsmynd kvenna frá mörgum hliðum, það má gefa af sér góða mynd, búa til betri myndir eða falsa sjálfsmyndina sem öðrum er sýnd. Í sýndarveruleika okkar tíma er allt mögulegt. Aðalpersónan Elín er leikmyndasmiður og býr til líkama og líkamshluta sem þurfa að vera sannfærandi. Þeir eru einskis virði nema þeir líti rétt út. En veruleikinn lítur ekki alltaf þannig út. Meiddur kvenlíkami er þema sem birtist nokkrum sinnum í bókinni, ýmist sem leikmunur eða veruleiki. 

Elín virðist í sögunni reyna að þurrka tilfinningalíf sitt út en jafnframt eigna sér tilfinningalíf annarra og persónur renna meira og minna saman. Nöfn þeirra líkjast og blandast og að vissu leyti er Elín margar konur eins og hún segir sjálf.  Sterkustu tilfinningar hennar tengjast bernsku og dauða og tengsl hennar við barnið Ellen má sjá í því ljósi. Að lokum hverfur merkingin úr lífi Elínar og tengslin við tungumálið og eftir standa spurningarnar hvernig getur kona vitað hver hún er og hvað hún heitir? og hversu margar konur getur ein kona verið? 

Ríkjandi þemu í skáldskap Kristínar Eiríksdóttur eru þrá eftir ást og skilningi, baráttan við sambandsleysi, einmanaleiki, misnotkun, ofbeldi og óhugnaður. Skáldsagan Elín, ýmislegt er skýrt dæmi um þetta. Þar birtist öflug rödd ungrar konu í listrænum og markvissum texta. 

Kristín Eiríksdóttir, höfundur skáldsögunnar Elín, ýmislegt, er fædd árið 1981. Hún gerði fyrst vart við sig á ritvellinum sem ljóðskáld en hefur einnig skrifað skáldsögur, smásögur og leikrit. Kristín er jafnframt menntaður myndlistarmaður og hefur tekið þátt í samsýningum og gjörningum.