Norðurlönd og Eystrasaltsríkin vænlegt svæði til að prófa 5G-tækni

31.10.18 | Fréttir
Stefan Löfven taler til statsministrenes pressekonference, Nordisk Råds Session 2018

Stefan Löfven taler til statsministrenes pressekonference, Nordisk Råds Session 2018

Ljósmyndari
Johannes Jansson
Sameiginleg framkvæmdaáætlun lýsir vilja Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna til að eiga náið samstarf um uppbyggingu 5G-nets á svæðinu, auk þess að styðja við þróun og notkun á nýjum tæknilausnum sem byggja á 5G-tækni. Framkvæmdaáætlun fyrir samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á sviði 5G-tækni var kynnt fyrir norrænu forsætisráðherrunum á þingi Norðurlandaráðs. Áætlunin inniheldur tillögur að beinum aðgerðum og markmiðum sem stefnt er að á vettvangi samstarfsins fram til ársins 2020.

Með framkvæmdaáætluninni er fylgt eftir yfirlýsingu forsætisráðherranna frá seinasta fundi þeirra í sænska bænum Örnsköldsvik þann 23. maí. Skilaboðin voru skýr og metnaðarfull: Norrænu löndin eiga að vera í fararbroddi í þróun og notkun á 5G-tækni og svæðið á að verða leiðandi á heimsvísu á sviði 5G-farsímanets. 

„Norrænu löndin eiga möguleika á að vera í fararbroddi þegar næsta kynslóð farsímatækni verður kynnt,“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven.

Norrænu löndin eiga möguleika á að vera í fararbroddi þegar næsta kynslóð farsímatækni verður kynnt

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar

Framkvæmdaáætlunin inniheldur fyrst og fremst tillögur að aðgerðum sem ætlað er að tryggja svæðisbundna samræmingu á tíðni og tíðnisviði fyrir prófanir og notkun á 5G-tækni, þvert á landamæri. Starfið mun fara fram í nánu samráði yfirvalda, fjarskiptafyrirtækja og atvinnulífsins. Á árunum 2019 og 2020 verða haldnir fundir með sérfræðingum og fulltrúum fjarskiptafyrirtækja auk annarra aðila atvinnulífsins. Einnig verður þess gætt að samræma starfið við evrópskt samstarf á sviði 5G-tækni.   

Við eigum að nýta styrkleika okkar

Í hinni framsæknu áætlun er að finna skýr markmið sem ætlar er að styðja við svæðisbundið samstarf um þróun og prófun stafrænna og sjálfbærra tæknilausna sem byggja á 5G-tækni. Markhópurinn er tilteknar atvinnugreinar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum sem eru leiðandi á heimsvísu og búa yfir háþróuðu prófunarumhverfi Þetta á til dæmis við um þróun á tækni til að sinna eftirliti og auka skilvirkni í flutningageira, tækniþróun orkunets, á umhverfissviði og til þess að styðja við velferð og heilbrigðisþjónustu í öllum landshlutum. Helstu verkefni snúa að því að kortleggja nýsköpunar- og prófunarumhverfi í norrænu löndunum og Eystrasaltsríkjunum, skilgreina svæðisbundnar tæknilausnir sem byggja á 5G-tækni og efla samstarf um og kynningu á prófunarumhverfi í löndunum. Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfinn Høybråten, kynnti framkvæmdaáætlunina fyrir forsætisráðherrunum.

„Norðurlöndin eru lítið svæði, en í sameiningu getum við skipað okkur sess á hnattrænum markaði og laðað að fjárfesta frá öðrum löndum. Ef við eigum að verða leiðandi í 5G-tækni á heimsvísu verður að tryggja að við búum yfir háþróaðri tilraunaaðstöðu og nýsköpunarumhverfi. Samstarf gerir okkur kleift að nýta styrkleika hvert annars,“ segir Høybråten.

Ef við eigum að verða leiðandi í 5G-tækni á heimsvísu verður að tryggja að við búum yfir háþróaðri tilraunaaðstöðu og nýsköpunarumhverfi. Samstarf gerir okkur kleift að nýta styrkleika hvert annars.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar