Réttur til heilbrigðisþjónustu á Íslandi

Réttur til heilbrigðisþjónustu á Íslandi
Hér er að finna upplýsingar um á hvaða heilbrigðisþjónustu þú átt rétt á á Íslandi.

Almannatryggingar þegar einstaklingur býr og starfar á Íslandi

Aðeins er hægt að eiga aðild að almannatryggingum í einu landi í einu. Almannatryggingar veita fjölskyldum og börnum, fötluðum og öryrkjum, þeim sem hafa orðið fyrir vinnuslysi og öldruðum fjárhagslega vernd. Almannatryggingakerfið á Íslandi skiptist í lífeyris-, slysa- og sjúkratryggingar. Almannatryggingar ná til þeirra sem eiga lögheimili á Íslandi.

 

Einstaklingur sem hefur tilkynnt flutning (lögheimilisskráning á Íslandi) og hefur skilað inn umsókn um skráningu í tryggingaskrá þegar flutt er frá Norðurlöndunum verður sjúkratryggður á Íslandi þegar staðfesting er komin frá Sjúkratryggingum fyrra búsetulands um að viðkomandi hafi verið tryggður þar. Sjúkratryggingin er þá gild frá þeim degi sem lögheimili er skráð á Íslandi. Einstaklingar eiga þá rétt á heilbrigðis- og tannlæknaþjónustu eins og aðrir íbúar Íslands. Þeir sem eru sjúkratryggðir á Íslandi greiða lægra gjald fyrir almenna heilbrigðisþjónustu og njóta margvíslegra annarra réttinda umfram þá sem ekki eru sjúkratryggðir.

 

Á meðan umsókn er í vinnslu eru einstaklingar ósjúkratryggðir. Þurfi þeir á læknisþjónustu að halda á vinnslutíma umsóknar geta þeir framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu frá fyrra búsetulandi, hafi þeir slík kort, og þá greitt sem sjúkratryggðir, eða greitt sem ósjúkratryggðir og sótt um endurgreiðslu hjá Sjúkratryggingum Íslands þegar búið er að samþykkja afturvirka sjúkratryggingu og þá þarf að senda inn umsókn um endurgreiðslu á innlendum sjúkrakostnaði, ásamt reikningum og greiðslustaðfestingu á laeknareikningar@sjukra.is.

Flutt aftur til Íslands innan 12 mánaða

Einstaklingar sem eru að flytja aftur til Íslands frá Norðurlöndunum innan 12 mánaða verða sjálfkrafa sjúkratryggðir eftir lögheimilisskráningu í Þjóðskrá.

Námsmenn

Námsmenn sem flytja til baka frá Norðurlöndunum innan við sex mánuðum frá námslokum geta komið með staðfestingu á námi fyrir tímabilið ásamt umsókn um skráningu í tryggingaskrá til að vera tryggðir frá og með þeim degi þegar lögheimli er skráð.

Einstaklingur sem býr í öðru norrænu ríki en starfar á Íslandi

Norrænir ríkisborgarar sem starfa tímabundið á Íslandi eða eru sjálfstætt starfandi geta verið áfram tryggðir í almannatryggingum landsins sem flutt er frá.

Einstaklingur sem býr á Íslandi en starfar í öðru norrænu ríki

Einstaklingur sem á heima á Íslandi en stundar vinnu í öðru norrænu ríki er yfirleitt almannatryggður í starfslandinu. Ef einstaklingur veikist á hann rétt á umönnun í starfslandi en einnig á Íslandi.

Evrópska sjúkratryggingakortið

Einstaklingar sem njóta almannatrygginga á Íslandi eiga rétt á að fá evrópska sjúkratryggingakortið á Íslandi.

Evrópska sjúkratryggingakortið (ES kortið) er notað ef korthafi veikist eða slasast í öðru EES landi eða Sviss. Það staðfestir rétt til heilbrigðisþjónustu sem verður nauðsynleg meðan á tímabundinni dvöl stendur í EES landi og Sviss.

Heilbrigðisþjónusta þegar á tímabundinni dvöl á Íslandi stendur

Íbúar annarra norrænna ríkja geta leitað til heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa ef þörf krefur og greiða sama gjald og sjúkratryggðir einstaklingar á Íslandi. Framvísa þarf evrópska sjúkratryggingakortinu auk vegabréfs sem staðfestir ríkisfang viðkomandi.

 

Fyrirfram ákveðin læknismeðferð í öðru norrænu ríki

Einstaklingar sem eru sjúkratryggðir á Íslandi eiga rétt á heilbrigðisþjónustu þar sem hann kýs sjálfur innan EES svæðisins, með ákveðnum skilyrðum samkvæmt lögum.

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi þegar dvalið er utan Íslands tímabundið

Einstaklingur er sjúkratryggður í því landi sem hann starfar og á því ekki rétt á heilbrigðisþjónustu hér á landi þrátt fyrir lögheimili nema framvísa t.d. evrópska sjúkratryggingakortinu þegar leitað er til læknis“.

Námsmen og lífeyrisþegar eiga rétt á heilbirgðisþjónustu á Íslandi þrátt fyrir að lögheimili sé skráð erlendis.

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi fyrir fólk sem starfar í fleiri en einu landi 

Þegar starfað er í fleiru en einu landi þá er það alltaf það land sem einstaklingur aflar meirihluta tekna sinna sem á að tryggja hann.

Lífeyrisþegar sem eru með lögheimili í öðru EES landi eða Sviss en eru með lífeyrir greiddan  frá Íslandi eru sjúkratryggðir á Íslandi á grundvelli tekna.

Hvað kostar heilbrigðisþjónustan, er hægt að fá fjárstuðning vegna hennar?

Á Íslandi er greiðsluþátttökukerfi sem byggist upp þannig að enginn á að greiða meira en ákveðna hámarksfjárhæð í hverjum mánuði fyrir heilbrigðisþjónustu. Þessar fjárhæðir eru tilgreindar í reglugerð um hlutdeild sjúkratryggða í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Þannig falla greiðslur fyrir þjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, heilbrigðisþjónustu sem veitt er hjá sjálfstætt starfandi læknum, sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum, talmeinafræðingum og sálfræðingum sem Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við, undir kerfið. Enn fremur greiðslur fyrir meðferð húðsjúkdóma, sem veitt er af öðrum heilbrigðisstarfsmönnum en læknum, samkvæmt samningum.

 

Tannlæknar

Öll börn sem eru sjúkratryggð á Íslandi eiga rétt á gjaldfrjálsum tannækningum ef þau eru með skráðan heimilistannlækni. Greiða þarf þó komugjald einu sinni á 12 mánaða fresti. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) endurgreiða hluta kostnaðar vegna tannlækninga fyrir aldraða, lífeyrisþega og börn.

 

Við hvern á að hafa samband ef spurningar vakna?

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands. Einnig er hægt að fá upplýsingar símleiðis hjá þjónusturáðgjafa í síma (+354) 515 0000. 

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna