Stúdentaíbúðir í Finnlandi

Allir sem stunda framhaldsskólanám eða háskólanám á grunn- eða framhaldsstigi hafa rétt á að sækja um stúdentaíbúð.
Í Finnlandi er einkum mikil eftirspurn eftir stúdentaíbúðum við upphaf haustannar. Í sumum sveitarfélögum er tilteknum fjölda íbúða, sem skólarnir leigja af stúdentaíbúðafélögum, haldið sérstaklega fyrir skiptinema.
Sótt er um stúdentaíbúð hjá stúdentaíbúðafélagi á hverjum stað. Auk staðbundinna stúdentaíbúðafélaga leigja fleiri stofnanir út stúdentaíbúðir. Menntastofnanir á hverjum stað veita upplýsingar um slíkar stofnanir. Mismunandi stofnanir hafa mismunandi úthlutunarreglur fyrir stúdentaíbúðir.
Sumar menntastofnanir hafa eigin íbúðakjarna fyrir nemendur sína. Nemendur sem búa í slíkum íbúðakjörnum og eiga rétt á námsstyrk fá lægri húsnæðisstyrk en þeir sem greiða leigu á almennum markaði.
Tengiliðaupplýsingar fyrir stofnanir og félög sem bjóða stúdentaíbúðir veita menntastofnanir og SOA, félag um stúdentaíbúðir í Finnlandi.
Ýmsar gerðir stúdentaíbúða
Stakt herbergi í íbúð
Stakt herbergi í íbúð sem deilt er með fleirum er talsvert ódýrari kostur en leiga á almennum markaði, sérstaklega í stærri borgum. Slíkar íbúðir eru yfirleitt leigðar út án húsgagna og oft er baðherbergi og eldhúsi deilt með öðrum. Hægt er að fá herbergi með húsgögnum leigð til skemmri tíma, til dæmis fyrir skiptinema.
Smáíbúðir
Smáíbúð ætlum einum námsmanni er dýrari og vandfengnari en stakt herbergi í íbúð. Þar sem framboð á smáíbúðum er takmarkað þarf yfirleitt að fara á biðlista eftir þeim. Meira framboð er af slíkum íbúðum á almennum leigumarkaði en þar er leigan oft hærri.
Hópíbúðir
Hægt er að leigja hópíbúð ásamt vinum og fær hópurinn þá heila íbúð til sameiginlegra afnota. Í sumum þessara íbúða er sameiginleg vistarvera eða stofa auk svefnherbergja og eldhúss.
Fjölskylduíbúðir
Í fjölskylduíbúðum eru yfirleitt 2-3 herbergi og eldhús eða eldhúskrókur. Íbúðirnar eru ætlaðar sambýlisfólki, hjónum og barnafjölskyldum. Hægt er að sækja um fjölskylduíbúð ef annað sambýlisfólks eða hjóna stundar nám. Í nágrenni fjölskylduíbúða er oft ýmis þjónusta sem barnafólk getur nýtt sér, svo sem róluvellir og leikskólar.
Húsnæðisstyrkir námsfólks
Frá og með 1. ágúst 2017 getur námsfólk sem þiggur námsstyrk frá finnska ríkinu fengið húsnæðisstyrk til viðbótar námsstyrknum. Erlendir nemendur geta fengið húsnæðisstyrk ef þeir heyra undir finnska almannatryggingakerfið.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.