Styrkir vegna hjálpartækja á Grænlandi

Børn med funktionsnedsættelse
Photographer
Victoria Henriksson
Hér er hægt að lesa um möguleika á styrkjum vegna hjálpartækja á Grænlandi, búi maður við langvarandi þörf fyrir slík tæki. Það getur til dæmis verið vegna fötlunar eða viðvarandi sjúkdóms.

Ef þú býrð eða dvelur á Grænlandi og hefur langvarandi þörf fyrir hjálpartæki hefurðu sama rétt til að sækja um styrk frá hinu opinbera og grænlenskir borgarar.

Hvaða hjálpartækjum geturðu sótt um styrk fyrir?

Í grænlenskum lögum stendur ekkert um það hvaða hjálpartæki sé hægt að sækja um. Kveðið er á um það í tilskipun um stuðning við fólk með fötlun.

Það eru sveitarstjórnirnar sem eiga að úthluta styrkjum vegna kaupa á hjálpartækjum til fólks með fötlun, sé litið svo á að:

  • Hjálpartækið geti dregið úr afleiðingum fötlunarinnar að verulegu leyti
  • Hjálpartækið geti auðveldað daglegt líf umsækjanda að verulegu leyti
  • Hjálpartækið sé umsækjandanum nauðsynlegt til að sækja vinnu eða annan starfa
     

Aðstoðin getur ýmist verið í formi styrks til kaupa á dýru hjálpartæki eða með láni á hjálpartæki. Að auki ber sveitarfélaginu skylda til að veita ráðgjöf varðandi val á hjálpartæki og leiðsögn um notkun þess. Sveitarfélagið á líka að standa straum af útgjöldum vegna viðhalds og viðgerða á hjálpartækinu.

Sem aðstandandi manneskju með fötlun átt þú rétt á ráðgjöf og leiðsögn, auk námskeiða um leiðir til að aðstoða manneskju með fötlun.

Hvar má finna nánari upplýsingar um skilyrði og umsóknarferli?

Byrjaðu á því að leita til félagsmálastofnunar sveitarfélagsins vegna hjálpartækja. Ef þú ert í námi skaltu hafa samband við þína menntastofnun.

Eigir þú barn í grunnskóla á skólinn að sjá um flest hjálpartæki, en sveitarfélagið sér þó um viss hjálpartæki í samræmi við löggjöf um stuðning við fólk með fötlun. Þetta á einnig við ef þú átt barn í dagvistun sem þarf á hjálpartækjum að halda.

Hvað áttu að gera ef þú þiggur stuðning frá einu norrænu landi og flytur svo til annars?

Úthlutun hjálpartækja fer fram á Grænlandi, á vettvangi búsetusveitarfélags. Þegar þú flytur skaltu því hafa samband við það sveitarfélag sem þú flytur í. Í gegnum það geturðu sótt um stuðning vegna hjálpartækja.

Hafa þarf fasta búsetu á Grænlandi til að fá úthlutað hjálpartækjum í landinu. Ef þú ert með fötlun og flytur til Grænlands er góð hugmynd að hafa meðferðis skjöl með útskýringum, heilbrigðisgögn og læknisvottorð. Það sama á við ef þú flytur frá Grænlandi til annars norræns lands.

Hvað áttu að gera ef þú dvelur tímabundið á Grænlandi?

Lögin um stuðning við fólk með fötlun gilda aðeins um fólk með fasta búsetu á Grænlandi. Hyggist þú dvelja tímabundið á Grænlandi skaltu því hafa samband við félagsmálaráðuneyti Grænlands.

Hvert er hægt að snúa sér með spurningar?

Hafir þú einhverjar sérstakar spurningar varðandi umsókn um styrk vegna hjálpartækja skaltu hafa samband við félagsmálastofnun í þínu sveitarfélagi.

Hafir þú spurningar í tengslum við hjálpartækjaþjónustu á Grænlandi almennt skaltu hafa samband við Departementet for Sociale Anliggender (félagsmálaráðuneytið).

Leitir þú ráða og leiðbeininga í sambandi við fötlun geturðu haft samband við Pissassarfik, miðstöð um málefni fatlaðra sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið.

Leitir þú upplýsinga um fólk með fötlun á Grænlandi, eða ef þú hefur spurningar varðandi málsmeðferð eða vilt leggja fram kvörtun vegna úrskurðar sveitarfélags, geturðu haft samband við Tilioq (talsmann fólks með fötlun).

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna