Áhrif Norðurlanda efld
Norðurlönd eru í fararbroddi í til dæmis umhverfis-, loftslags-, menningar- og menntamálum ásamt nýsköpun. Til að efla menningarlífið eru meðal annars veitt Kvikmynda- og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Umhverfismerkið Svanurinn er jafnframt afrakstur norræns samstarfs. Þetta eru dæmi um verkefni sem ráðgjafar og aðalráðgjafar Norðurlandaráðs taka þátt í að þróa og kynna.
Þeir aðstoða líka við að afla þeirrar þekkingar og vitneskju sem er grundvöllur þess að hægt sé að taka upplýstar pólitískar ákvarðanir. Þeir nýta menntun sína og reynslu til að bæta starfsskilyrði á ýmsum sviðum á Norðurlöndum, til dæmis í tengslum við sjálfbæra velferð eða nýskapandi rannsóknir.
Þeir starfa stöðugt á bak við tjöldin að því að auka áhrif og sýnileika Norðurlanda. Starfsvettvangurinn er stundum á þingum Norðurlanda, stundum hjá Evrópusambandinu eða víðs vegar um heiminn á þeim stöðum þar sem unnið er að pólitískri stefnumótun. Ráðgjafarnir nýta víðtæka þekkingu sína og gegna lykilhlutverki við að greina upplýsingar og móta stefnu í samstarfi við sérfræðinga, fræðimenn og stjórnmálamenn.
Stofnanirnar sem þeir starfa fyrir lúta pólitískri stjórn. Verkefnin eru flókin og erfið úrlausnar. En um leið býður starfið upp á tækifæri til að ná mikilsverðum árangri og til að byggja upp öfluga ferilskrá sem sýnir alþjóðlega reynslu.
Starfsmenn Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndinnar vinna daglega að því að raungera pólitísk markmið. Við beitum okkur meðal annars í velferðarmálum í öllum norrænu löndunum. Ritararnir okkar geta notað þekkingu sína á sviði stjórnsýslu og málsmeðferðar til að tryggja þeim 25 milljónum manna sem búa á Norðurlöndum betri lífsskilyrði.
Ritarar Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar veita ráðgjöfunum, stjórnmálamönnum og sérfræðingum mikilvæga aðstoð við að styrkja stöðu Norðurlanda. Þeir nýta hæfileika sína til að greiða úr og koma skipulagi á flókin ferli þannig að hægt sé að taka réttar ákvarðanir á réttum tíma.
Starfið býður einnig upp á einstakt tækifæri til að byggja upp samstarfsnet sem getur veitt þeim möguleika á að halda áfram að starfa á alþjóðavettvangi. Starfið skilar sér í öflugu norrænu samstarfsneti, en jafnframt er hægt að mynda tengsl til Evrópu og annarra heimshluta.
Starfsmenn stoðdeilda Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar sinna margvíslegum verkefnum. Þeir starfa til dæmis að fjármálum, stjórnsýslu og upplýsingamálum. Starfsmennirnir nýta reynslu sína af öðrum pólitískum samtökum til að búa Norðurlöndum betri framtíð.
Þekking þeirra og reynsla stuðlar að því að gera framtíðarsýn norræns samstarfs að veruleika. Með vinnufélögum sínum frá öllum norrænu löndunum leitast þeir við að samstarf Norðurlanda verði eins árangursríkt og unnt er og skili samlegðaráhrifum, hvort sem um er að ræða velferðar-, umhverfis- og jafnréttismál eða rannsóknir. Pólitísk stefnumið verða að veruleika í þeim fjölmörgu verkefnum sem við höfum umsjón með og sem miða að því að bæta lífsskilyrði þeirra 25 milljóna manna sem búa á Norðurlöndum.
Starfsmenn Norðurlandaráðs starfa í návígi við pólitíska valdhafa og hafa áhrif á Norðurlöndin öll frá vinnustað sínum í Kaupmannahöfn.