Norræna ráðherranefndin og börn og ungmenni

Børn i skolegård
Ljósmyndari
Yadid Levy / Norden.org
Norðurlönd eiga að vera besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni. Þetta er framtíðarsýnin í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir og með börnum og ungu fólki auk almennrar framtíðarsýnar ráðherranefndarinnar: Saman erum við öflugri um nýskapandi, sýnilegt og opið norrænt samstarf án landamæra, sem norrænu samstarfsráðherrarnir (MR-SAM) hafa samþykkt.

Norræna barna- og ungmennanefndin (NORDBUK) veitir ráðherranefndinni ráðgjöf og samhæfir starf sem lýtur að málefnum barna og ungs fólks. Starfssvið NORDBUK nær yfir öll samstarfssvið innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Nánari upplýsingar um NORDBUK:

Stefna í málefnum barna og ungmenna

Norrænu ráðherranefndinni ber að vinna á grundvelli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að því að tryggja og efla réttindi barna og ungs fólk, auk þess að auðvelda þeim að nýta réttindi sín og taka þátt í samfélaginu. Í þessu felst að öll börn og ungmenni á Norðurlöndum skulu eiga rétt á góðum lífskjörum og geti haft áhrif, óháð kyni, kynvitund eða -tjáningu, uppruna, trúarbrögðum eða öðrum lífsskoðunum, fötlun, kynhneigð eða aldri. Öll börn og ungmenni eiga rétt á félagslegu og fjárhagslegu öryggi, góðri andlegri og líkamlegri heilsu, frítíma og menningu, sjálfsvitund og tungumáli, ásamt tækifæri til menntunar og þroska. Öll börn og ungmenni eiga að hafa tækifæri til að hafa áhrif á eigið líf, umhverfi sitt og samfélagið almennt.

Norrænu samstarfsráðherrarnir samþykktu árið 2016 stefnuna Börn og ungmenni á Norðurlöndum – þverfagleg stefna Norrænu ráðherranefndarinnar 2016-2024.

Meginmarkmið stefnunnar er að (1) ráðherranefndin í heild samþætti í auknum mæli sjónarmið réttinda barna og málefna ungmenna í vinnu sína og leggi þar með aukna áherslu á og taki tillit til radda barna og ungmenna sjálfra. Og að (2) Norræna ráðherranefndin leggi í auknum mæli áherslu á hin þrjú stefnumótandi áherslusvið sem eru gegnumgangandi í starfi að stefnunni fram til 2022.

Hin stefnumótandi áherslusvið eru:

  • Aukinn stuðningur við berskjölduð börn og ungmenni og aðlögun þeirra;
  • Áframhaldandi samstarf og stuðningur við félagasamtök;
  • Bætt miðlun þekkingar og betri aðgerðir sem miða að því að auka færni á þessu sviði.

Hér má lesa stefnuna:

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um Framtíðarsýn okkar fyrir 2030

Vinnunni við stefnu í málefnum barna og ungmenna á Norðurlöndum er ætlað að vera liður í innleiðingu Framkvæmdaáætlunarinnar 2021–2024 og 12 markmiða hennar með sérstaka áherslu á markmið 9: Norræna ráðherranefndin mun stuðla að gæðum, jafnræði og öryggi í heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir alla; og markmið 11:  Norræna ráðherranefndin mun veita borgaralegu samfélagi á Norðurlöndum, einkum börnum og ungu fólki, sterka rödd, auka aðild þeirra að norrænu samstarfi og þekkingu á tungumálum og menningu frændþjóðanna. Vinnan að stefnunni skal einnig styðja innleiðingu stefnu um samþættingu hinna þverlægu sjónarmiða, sjálfbærrar þróunar, jafnréttis og sjónarmiða barna og ungmenna.