Aukið samstarf á að tryggja fæðuöryggi á Norðurlöndum 

22.06.22 | Fréttir
gruppbild av ministrar på strand
Photographer
Anna Rosenberg


 

 

 

 

 

 

 

Hækkandi matvælaverð og dýrari orka og áburður eru afleiðingar stríðsins í Úkraínu. Hver eru áhrifin á matvælaframleiðslu á Norðurlöndum og hvernig getum við aukið viðnámsþolið? Tíu norrænir ráðherrar sem fara með málefni matvæla, landbúnaðar, skógræktar og fiskveiða vilja öflugra samstarf á sviði viðbúnaðarmála.

Ráðherrar frá öllum norrænu löndunum hittust í Tromsø í Norður-Noregi til að ræða fæðuöryggi og viðbúnaðarmál með hliðsjón af stríðinu sem geisar í Úkraínu og á grundvelli reynslunnar af bæði heimsfaraldrinum og veðuröfgum.

„Það sem áður þótti vísindaskáldskapur er nú daglegt líf okkar. Við erum ekki bara á krísutímum heldur blasir nýr veruleiki við okkur og við þurfum að endurskoða sýn okkar á matvælaframleiðslu. Mín helstu skilaboð eru að við megum ekki láta krísuna sem nú steðjar að verða til þess að við frestum aðgerðum í loftslagsmálum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra á Íslandi.

 

Háð erlendu vinnuafli og innflutningi

Heimsfaraldur kórónuveiru sýndi á hvaða sviðum norræn matvælakerfi eru berskjölduð og að við erum að miklu leyti háð erlendu vinnuafli og innfluttum matvælum og fóðri.

Þurrkasumarið mikla 2018 gaf okkur smjörþefinn af þeim áskorunum sem blasa munu við í landbúnaði þegar breytingar verða á loftslagi jarðarinnar.

Það er því um krísu á krísu ofan að ræða og á fundi sínum í Tromsø í Noregi hinn 22. júní ræddu ráðherrarnir hvernig löndin geti unnið saman að því að auka þanþol og viðnámsþrótt matvælaframleiðslunnar á krísutímum.

„Við getum framleitt prótín og áburð sjálf“

„Við sjáum hversu háð Norðurlönd eru innfluttum tilbúnum áburði og fóðri fyrir húsdýr. Ég vil sjá Norðurlönd eiga frumkvæði að sameiginlegum lausnum sem jafnframt eru umhverfisvænar. Þær þurfa að snúast um að annars konar prótín og áburð sem komið getur í stað þess sem við flytjum inn,“ sagði Sandra Borch, landbúnaðar- og matvælaráðherra í Noregi og gestgjafi á fundinum.

Þurfum að komast af án olíu og gass

Anna-Caren Sätherberg, landsbyggðarráðherra í Svíþjóð, benti á að öflug matvælaframleiðsla megi ekki vera háð jarðefnaeldsneyti.

„Staðan sýnir að loftslagsumskiptin eru nú mikilvægari en nokkru sinni, ekki síst til að við þurfum ekki lengur að vera háð olíu og gasi frá Rússlandi. Mikil tækifæri eru í norrænu samstarfi um sjálfbær matvælakerfi. Þegar fram í sækir mun það einnig styrkja fæðuöryggi okkar,“ sagði Anna-Caren Sätherberg.

Færeyski ráðherrann tók í sama streng: „Fiskiðnaðurinn getur aðeins staðið styrkum fótum í krísum ef veiðarnar eru sjálfbærar, bæði á landsvísu og í norrænu samhengi.“

Forkönnun um eflingu lífhakerfisins

Fljótlega eftir árás Rússlands á Úkraínu óskaði Norræna ráðherranefndin eftir forkönnun á því hvernig styrkja megi lífhagkerfið, þ.e. skógrækt, landbúnað og sjávarútveg í breiðum skilningi.

Starfshópur undir forystu Nordic Agri Research (NKJ) og Nordic Forest Research (SNS) á að greina þau svið sem ber að efla með samnorrænum aðgerðum.

„Við þurfum pólitískt umboð“

„Við þurfum að fá skýrt umboð stjórnmálanna til að geta skapað árangursríkt norrænt samstarf um eflingu matvælaöryggis og viðbúnaðar. Þá getum við virkjað sérfræðinga og stofnanir innan atvinnugreinanna, markað stefnuna og gert skýra grein fyrir ábyrgðinni,“ sagði Per Hansson, framkvæmdastjóri Nordic Agri Research.