COP27: Breytingar á matvælakerfum vegna loftslagsaðgerða

02.11.22 | Fréttir
Kvinde i supermarked
Photographer
Asger Ladefoged / Scanpix
Nauðsynlegt er að breyta matvælakerfum okkar til að stemma stigu við hlýnun jarðar og mikilvægt er að fjalla um það á loftslagsfundinum COP 27 í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi. Þess vegna verða norræn matvælakerfi í brennidepli í norræna skálanum þann 12. nóvember.

Stefnumótunaraðilar, sérfræðingar og vísindamenn munu koma saman til að ræða lausnir í þágu sjálfbærra umskipta matvælakerfa heimsins vegna loftslagsaðgerða.

Framleiðsla og neysla matvæla hafa mikil áhrif á loftslagið. Það hvað við borðum og hvernig við framleiðum matvæli skiptir höfuðmáli, ekki aðeins hvað varðar heilsu okkar, heldur einnig til að uppfylla Parísarsamninginn. Rekja má meira en þriðjung heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu til matvælakerfa. Matvælaframleiðsla er jafnframt stærsta einstaka ógnin við líffræðilega fjölbreytni ásamt því að bera ábyrgð á hnignun í gæðum jarðvegs og vatns. Á sama tíma búa yfir 800 milljónir manna við matvælaóöryggi. Landbúnaðargeirinn er mjög viðkvæmur gagnvart loftslagsbreytingum sem veldur enn frekari áskorunum í tengslum við sjálfbæra framleiðslu á matvælum.

Matvælakerfi leika lykilhlutverk í grænum umskiptum

Það er sama hvernig á það er litið, allar leiðir til að takmarka hlýnun við 1,5 eða 2 gráður eru háðar breytingum í matvælakerfinu. Ef Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru skoðuð má sjá að hvert og eitt þeirra tengist virðiskeðju matvæla með einum eða öðrum hætti og því eru matvæli lykilþáttur í mildun loftslagsáhrifa, aðlögun og myndun viðnáms. Þrátt fyrir það eru matvælakerfi ekki enn orðin að aðalatriði loftslagsviðræðnanna.

Þess vegna ætlar Norræna ráðherranefndin að breyta Norræna skálanum á COP 27 í Norræna matvælakerfaskálann þann 12. nóvember til að vekja athygli á matvælaframleiðslu, landbúnaði og matarneyslu í tengslum við loftslagsaðgerðir. Í Norræna matvælakerfaskálanum munum við skoða og ræða hvaða lausnir, aðgerðir og stefnu þarf fyrir sjálfbær umskipti matvælakerfa heimsins í tengslum við loftslagsaðgerðir.

Norrænar lausnir við alþjóðlegum vanda

Hvernig getum við tekist á við hin bráðu úrlausnarefni í matvælakerfum okkar? Og hvernig er hægt að breyta matvælakerfum okkar í loftslagslausnir? Norrænu löndin hafa ekki öll svörin en á COP 27 ætlar norrænt samstarf að opna á umræðuna um næstu skref. Eftir margra áratuga samstarf geta norrænu löndin kynnt nokkur verkefni sem ýta málinu áfram, ekki síst nýja og sjálfbæra útgáfu af Norrænum næringarviðmiðum þar sem nálgast má gögn um loftslagsvænar matarvenjur. Heimsækið okkur í Norræna matvælakerfaskálann þar sem við hefjum erfiðar en nauðsynlegar umræður um hvernig við getum breytt matvælaframleiðslu og matarvenjum í þágu sjálfbærra og heilnæmra matvælakerfa og náð loftslagsmarkmiðum.

Dagskrá

Allar tímasetningar miðast við EET.

14:00 – 14:30 Food systems transformation
Why we need to accelerate the transformation and how to do it

Kynning á hinu verðlaunaða kolefnissporstæki „The big climate databese“ sem hannað var til að knýja fram breytingar með lykilniðurstöðum úr losunarskýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sem sýnir hvers vegna umskipti í matvælakerfum skipta höfuðmáli fyrir framtíð jarðar.

 CONCITO og UNEP​​

14:45 – 15:40 Sustainable Diets for Climate Action
A high-level panel about climate-smart dietary recommendations and
behavioural change

Það hvernig við neytum og framleiðum matvæli veldur ekki aðeins skaða á umhverfinu og loftslaginu heldur einnig heilsu okkar. Matarvenjur okkar eru lykilatriði í þeim loftslagsaðgerðum sem við þurfum að grípa til. Aukinheldur þurfa matarvenjur okkar að vera í brennidepli á COP 27. Í tengslum við væntanlega sjálfbærniútgáfu Norrænu næringarviðmiðanna verður boðið upp á umræður um málefni sem tengjast sjálfbæru og heilnæmu mataræði, atferlisbreytingum og réttlátum umskiptum í þágu okkar sjálfra og jarðarinnar. Ræðumenn:

  • Gerda Verburg, skipuleggjandi hreyfingarinnar Scaling Up Nutrition (SUN) og aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum 
  • Brent Loken, PhD, yfirvísindamaður WWF á sviði alþjóðlegra matvælakerfa
  • Rune Blomhoff, prófessor, verkefnisstjóri, Norræn næringarviðmið, háskólinn í Ósló 
  • Pekka Kosonen, sendiherra Finnlands í Egyptalandi

Norræna ráðherranefndin

16:00 – 17:00 Food Systems facing changes
Unlocking the untapped potential to secure resilience, sustainability and justice

Í aðferðum við að ná loftslagsmarkmiðum okkar felast mikil tækifæri fyrir matvælakerfin. Á þessum viðburði verður rætt um nýstárlegar og þverfaglegar loftslagslausnir sem geta skapað þau þróttmiklu, sjálfbæru og réttlátu matvælakerfi sem við þurfum. Hvernig líta loftslagsvæn matvælakerfi framtíðarinnar út? Og hvert er hlutverk loftslagsfjármögnunar í því að gera slík kerfi að veruleika?

Landbúnaðar- og skógræktarráðuneyti Finnlands, WeEffect, Norræna ráðherranefndin

17:15 – 19:00 Future thinking for climate smart food systems
Enjoy food and join the conversation around climate-smart food systems

Í þessari móttöku verður áhersla lögð á mikilvæga strauma í matvælakerfum heimsins.

Í lok fyrri vikunnar á COP 27 bjóðum við ykkur að ræða hvernig matvælakerfi framtíðarinnar munu líta út ef við viljum að þau verði bæði heilnæm og sjálfbær ásamt því að styðja við loftslagsaðgerðir.

Ministry of Agriculture and Forestry of Finland, Nordic Council of Ministers office in Latvia and Nordic Council of Ministers

Hægt verður að sjá alla viðburði í  Norræna matvælakerfaskálanum í beinu streymi.

Hagnýtar upplýsingar

Tími og staður: 12. nóvember frá 14:00 – 19:00 EET

Norræni matvælakerfaskálinn verður í Norræna skálanum, P97, á bláa svæðinu á COP 27 í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi.​

 

Dagurinn er í boði Norrænu ráðherranefndarinnar ásamt CONCITO, landbúnaðar- og skógræktarráðuneyti Finnlands, WeEffect, UNEP og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Lettlandi.