Dregur úr matarsóun – en þróunin er of hæg

31.03.20 | Fréttir
Matavfall
Ljósmyndari
Scanpix
Þrjár og hálf milljón tonna af mat endar í ruslinu á ári hverju – slíkt er umfang matarsóunar á Norðurlöndum. Þótt margt hafi verið gert til að sporna við matarsóun er breytingin hægfara. Til að hraða þróuninni leggur sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs til að farið verði í samnorrænt átak, ásamt skýrslugerð og miðlun sérfræðiþekkingar.

Framkvæmdaáætlanir, hugveitur, herferðir á vegum stjórnvalda og fjöldi verkefna á vegum einstaklinga hafa orðið til þess að dregið hefur úr matarsóun í öllum norrænu löndunum á undanförnum árum.

En þróunin er hæg.

Á þessum hraða mun Norðurlöndum ekki takast að ná sjálfbærnimarkmiði Sameinuðu þjóðanna um að minnka matarsóun um helming fyrir árið 2030. Þetta er mat norrænu sjálfbærninefndarinnar.

Dreifðar aðgerðir

Aðgerðirnar eru of litlar og dreifðar, segir Cecilie Tenfjord Toftby, fulltrúi í nefndinni frá Svíþjóð. 


- Það er rík þátttaka meðal einstaklinga og fyrirtækja og mikið um frábær verkefni. En nú er tímabært að fara í stærri aðgerðir. Við höfum aðeins tíu ár til stefnu, segir Cecilie Tenfjord Toftby. 

Á fjarfundi á þriðjudaginn (31. mars 2020), með aðstoð snartúlkunar, kom nefndin sér saman um tillögur að nokkrum samnorrænum aðgerðum gegn matarsóun.

Miðlun sérfræðiþekkingar

Nefndin vill meðal annars standa fyrir þekkingarmiðlun svo að greina megi áhrifaríkustu leiðirnar til að draga úr matarsóun. 

- Hugmyndin er sú að hvert land fyrir sig kynni best heppnuðu aðgerðir sínar á sameiginlegu málþingi með alþjóðlegum sérfræðingum. Það er mikilvægt að skiptast á reynslu, svo hægt sé að safna saman öllum hugmyndunum og greina hverjar þeirra virka, segir Cecilie Tenfjord Toftby.

Út frá niðurstöðum af málþingi sérfræðinga vill nefndin svo að farið verði í samnorrænt átak. Þar að auki vill nefndin að árið 2024 verði gefin út skýrsla um stöðu Norðurlanda í tengslum við heimsmarkmið SÞ um minnkun matarsóunar um helming fyrir árið 2030.

Bæði heimili og atvinnulíf bera ábyrgð

Tölfræði frá ESB sýnir að helmingur allrar matarsóunar á sér stað inni á heimilum.

Hótel- og veitingageirarnir bera þó einnig mikla ábyrgð og þurfa að koma sér upp betri vinnubrögðum um meðhöndlum matvæla, segir Mette Hjermind Dencker, fulltrúi í sjálfbærninefndinni frá Danmörku. 

- Mikið fé fer til spillis í þessum geirum. Við höfum ennþá ekki unnið bug á matarsóun á Norðurlöndum, segir Mette Hjermind Dencker.