Hvað einkennir norræna forystu?

05.12.18 | Fréttir
Lederskap
Photographer
Scanpix
Í nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni er rýnt í norræna forystu: Hvað einkennir forystu á Norðurlöndum og hvernig er hún frábrugðin forystu í löndum á borð við Bandaríkin, Kína og Þýskaland? Höfundar lýsa norrænni forystu sem leið til að samþætta hagvöxt og lýðræðislegan stöðugleika. Einnig inniheldur skýrslan samantekt á nýjustu þekkingu og rannsóknum á sviðinu.

Forysta er ávallt iðkuð í samspili við samfélagið í heild. Í því felst að forysta á sér gjarnan ólíkar birtingarmyndir eftir heimshlutum, einfaldlega vegna þess að um er að ræða ólík samfélög sem byggja á mismunandi gildum.

Í nýju skýrslunni frá Norrænu ráðherranefndinni er rýnt í forystu og iðkun hennar með norrænum augum. Höfundarnir hafa reynt að skilgreina þá eiginleika sem greina norræna forystu frá því sem gengur og gerist í öðrum heimshlutum.

Mikilvægasta niðurstaðan er að norræn forysta er almennt ekki eins karllæg og víða annars staðar og einnig eru boðleiðir valds í kerfinu almennt styttri. Menntun er ómissandi þáttur í forystu, svo og gagnsæi, heiðarleiki og traust. Líkt og allar gerðir forystu endurspeglar norræna forystulíkanið gildi okkar.

Von mín er að skýrslan um norræna forystu geti orðið útgangspunktur umræðna um málefni forystu á Norðurlöndum

Dagfinn Høybråten

„Von mín er að skýrslan um norræna forystu geti orðið útgangspunktur umræðna um málefni forystu á Norðurlöndum. Málefnið er brýnt með hliðsjón af þeim breytingum sem við er að búast í náinni framtíð og ekki síst í tengslum við það sem oft er nefnt fjórða iðnbyltingin,“ segir framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfinn Høybråten.

Skýrslan inniheldur samantekt á nýjustu þekkingu og rannsóknum á sviði norrænnar forystu og hana má lesa sem sjálfstæða túlkun á niðurstöðum fyrri rannsókna. Skýrslan er skrifuð af Ulf Andreasson og Mikael Lundqvist hjá greiningarsviði Norrænu ráðherranefndarinnar.

Contact information