Nefnd: Námsstuðningur til lýðháskólanema á Norðurlöndum

27.04.20 | Fréttir
Studiemedel studerande
Photographer
Yadid Levy/norden.org
Þróun norræna tungumálasamstarfsins, námslán og -styrkir fyrir nemendur lýðháskóla ásamt eftirfylgni með tillögu um sameiginlegt faggildingarkerfi osteópata voru á dagskránni á fyrsta fjarfundi norrænu þekkingar- og menningarmálanefndarinnar.

Pólitískt starf Norðurlandaráðs heldur áfram þrátt fyrir kórónufaraldurinn og mánudaginn 27. apríl hélt þekkingar- og menningarmálanefndin fyrsta fund sinn á netinu.

Þörfin fyrir öflugt norrænt samstarf sem bætir daglegt líf Norðurlandabúa hefur alls ekki minnkað vegna þessara erfiðleika. Við þurfum því að starfa áfram saman eftir nýjum leiðum.

Kjell-Arne Ottosson, formaður þekkingar- og menningarmálanefndar

Námsstuðningur, útivist og pólitískt samráð

- Þörfin fyrir öflugt norrænt samstarf sem bætir daglegt líf Norðurlandabúa hefur alls ekki minnkað vegna þessara erfiðleika. Við þurfum því að starfa áfram saman eftir nýjum leiðum. Á fundinum í dag var staðfest að nefndin hefði stuðlað að afnámi stjórnsýsluhindrunar fyrir lýðháskólanema á Norðurlöndum, segir Kjell-Arne Ottosson, formaður nefndarinnar.

Í samræmi við tilmæli Norðurlandaráðs hefur sænska ríkisstjórnin gert breytingar á reglugerð um námsstuðning. Nemendur geta nú í vissum tilfellum fengið stuðning vegna náms erlendis og mun þetta gagnast sænskum nemendum sem vilja læra við lýðháskóla í öðru norrænu ríki. Þetta er eitt þeirra mála sem fengu lokameðferð á fundinum.

Nefndin álítur röksemdir um að ekki sé hægt að koma á sameiginlegu faggildingarkerfi osteópata vera ófullnægjandi og vill óska eftir pólitísku samráði við félagsmálaráðherra Svíþjóðar. Útivist á Norðurlöndum er annað málefni sem nefndin vill setja í forgang, þótt ekki verði sett saman norræn aðgerðaráætlun um sinn.

Umskipti og nýtt samstarf

Á fundinum var einnig til umræðu hvernig skólastarf er útfært í hverju landi fyrir sig og hvernig ólíkar menningarstofnanir bregðast við ástandinu. Kjell-Arne Ottosson er sannfærður um að þörfin fyrir norrænt samstarf muni aukast í kjölfarið á kórónufaraldrinum og með nýjum áskorunum, ekki síst er varðar fjarkennslu.

- Við sjáum mjög hröð umskipti í átt að stafrænni kennslu og nýjum, stafrænum menningarupplifunum, burtséð frá því hvaða leið hvert land um sig hefur valið. Ég er sannfærður um að vægi stafrænnar tækni muni aukast í störfum nefndarinnar á næstu árum.

Contact information