Norðurlönd ættu að innleiða fimm prósent lífeldsneyti og jarðefnaeldsneytislausan flugmarkað árið 2040

07.09.21 | Fréttir
Flytte fra Færøerne til udlandet
Norrænu löndin hafa öll sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr kolefnislosun. Þess vegna telur norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin að grundvöllur sé fyrir því að byggja upp samgöngurlausnir án jarðefnaeldsneytis og þar með jarðefnaeldneytislausan flugmarkað fyrir árið 2040. Markmiðið um fimm prósent lífeldsneyti er upphafið.

Metnaður Norðurlandaráðs og Norðurlandanna stendur til þess að verða grænasta og samkeppnishæfasta svæði Evrópu fyrir árið 2030. Þá verður að velta við hverjum steini. Ein aðgerð gæti verið að fjárfesta í hærra hlutfalli lífeldsneytis í flugvélabensíni. Það kallar á innviði og dreifingu milli landanna til þess að draga úr kostnaði vegna lífeldsneytis. Norðurlöndin geta byggt upp sameiginlegan markað fyrir slíka nýsköpun. Á þessu byggir ákvörðun Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar um að krefjast þess að fimm prósent flugvélabensíns á norrænum markaði verði lífeldsneyti.

Í tillögunni kemur fram að vegna þess að margar flugleiðir á Norðurlöndum fara yfir landamæri landanna sé mikilvægt að vera með sameiginlega áætlun um jarðefneldsneytislausan flugmarkað. Það auðveldi framkvæmdina og auki þar með líkurnar á að aðgerðin heppnist.

„Með auknum hreyfanleika og sameiginlegri norrænni kröfu um fimm prósent lífeldsneyti í flugvélabensíni skapast staða sem er til hagsbóta fyrir alla, farþega, atvinnulíf og umhverfið. Þetta verður einnig framlag til norræns notagildis og vekur athygli á Norðurlöndunum,“ segir formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar, Pyry Niemi.

Með auknum hreyfanleika og sameiginlegri norrænni kröfu um fimm prósent lífeldsneyti í flugvélabensíni skapast staða sem er til hagsbóta fyrir alla, farþega, atvinnulíf og umhverfið.

Pyry Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar

Í tillögunni sem hér um ræðir koma saman tvær eldri tillögur, annars vegar frá Flokkahópi miðjumanna og hins vegar frá Flokkahópi hægrimanna, en markmið þeirra tillagna beggja var að draga úr kolefnislosun frá fluggeiranum.

Tillagan var samþykkt með fyrirvara Norræns frelsis sem taldi að hún væri ekki fjárhagslega hagkvæm. Finnski fulltrúinn, Lulu Ranne frá Norrænu frelsi, sagði að flokkahópur hennar gæti af þessum ástæðum ekki stutt tillöguna sem hlaut samt sem áður atkvæði meirihluta nefndarinnar.

Lokafgreiðsla tillögunnar verður á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 1.-4. nóvember 2021.