Norðurlönd skora á feður að taka þátt

19.03.19 | Fréttir
Share the care! The Nordic ministers for gender equality invited fathers to show support for shared and paid parental leave at the CSW63.

CSW 2019

Photographer
Pontus Höök
Norðurlönd vilja skapa aukinn hvata fyrir feður til að taka lengra fæðingarorlof. Hugmyndin er að efnahagslegu og fjárhagslegu jafnrétti verði aðeins náð þegar karlar og konur skipta heimilisverkum og umönnunarskyldum jafnt með sér. Í umræðum á þingi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW) í New York sögðu sex ráðherrar frá Norðurlöndum og einn frá Suður-Ameríku frá reynslu sinni, bæði persónulegri og pólitískri, af samþættingu foreldrahlutverksins og starfsframa, sem og jafnrétti kynjanna almennt.

- Skipt fæðingarorlof er í raun ástæða þess að ég er hér. Þegar ég gekk með son minn, hafði Ísland aldrei átt ráðherra með barn undir belti. Allir gerðu ráð fyrir að ég gengi úr ríkisstjórninni, sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, við opnun umræðnanna.

Katrín fékk annan ráðherra úr ríkisstjórninni til að taka yfir skyldur sínar tímabundið á meðan hún var í orlofi. Hún var svo heima með syni sínum í fimm mánuði áður en hún sneri aftur í ráðherrastólinn.

- Fæðingarorlof eru fyrir alla – fyrir ráðherra og fyrir hverja konu og hvern karl í samfélaginu. Enginn ætti að þurfa að velja á milli starfsframa og fjölskyldulífs, sagði hún.

Feður þurfa að gera meira

Þema CSW í ár voru leiðir sem lönd geta farið í að innleiða kynjajafnrétti í félagsleg kerfi sín, en það er forsenda þess að jafna stöðu karla og kvenna. Norðurlönd eru sönnun á því hverju áratugalöng fjárfesting í umönnunarúrræðum fyrir börn og aldraða, sem og fæðingarorlofi, getur skilað. Til þess að jafnrétti geti náðst, þurfa karlar og feður á Norðurlöndum þó að taka stærri hluta fæðingarorlofsins og taka á sig stærri hluta heimilisstarfa og barnaumönnunar.

Feður voru því í brennidepli í ráðherraumræðum á CSW.

Ný tegund fjölskyldulífs í Suður-Afríku

Í Suður-Afríku var nýlega kynntur réttur til launaðs fæðingarorlofs fyrir feður.

- Við stöndum frammi fyrir tvíþættu verkefni í Suður-Afríku – annars vegar erum við að endurskilgreina fjölskyldulíf og hins vegar erum við að glíma við áskoranir tengdar valdaójafnvægi milli kynjanna. Við höfum nú innleitt tíu daga fæðingarorlof fyrir feður, sagði Bathabile Olive Dlamini, ráðherra um málefni kvenna í Suður-Afríku.

Nokkrir af norrænu ráðherrunum lýstu því hversu miklar breytingar hefðu orðið í kvenréttindamálum og á hugmyndum um þátttöku feðra í barnaumönnun, á aðeins nokkrum mannsöldrum.

- Þegar ég byrjaði að starfa í stjórnmálum, á tíunda áratugnum, fóru aðeins 4 prósent feðra í fæðingarorlof. Í dag fara 90 prósent feðra á vinnumarkaði í fæðingarorlof, í styttri eða lengri tíma. Ég sé börn sem hafa alveg jafn náin tengsl við feður sína og mæður, sagði Trine Skei Grande, menningar- og jafnréttismálaráðherra í Noregi.

  Fáar fjölskyldur völdu jafnrétti

  Á 8. og 9. áratug síðustu aldar innleiddu Norðurlönd fæðingarorlofskerfi sem gera foreldrum kleift að skipta ábyrgðinni jafnt á milli sín. Fáar fjölskyldur nýttu sér hins vegar þennan möguleika. Ísland var fyrst til að innleiða þrískipt fæðingarorlof. Í slíku kerfi er þriðjungur orlofsins eyrnamerktur hvoru foreldri fyrir sig og ef annað foreldrið nýtir ekki sinn hluta, tapast rétturinn.

  Katrín Jakobsdóttir sagði þetta fyrirkomulag hafa stuðlað að breyttu hlutverki feðra á Íslandi, sem og dregið úr samviskubiti kvenna fyrir að sinna starfsframa sínum.

   Þrískipt fæðingarorlof í mörgum löndum

   Í Svíþjóð fær hvort foreldri um sig 90 daga, Noregur innleiddi nýlega þrískipt fæðingarorlof og í Finnlandi er uppi umræða um aðgerðir til að skapa hvata fyrir feður til að taka stærri hluta fæðingarorlofsins.

   Eyðgunn Samuelsen, félagsmálaráðherra Færeyja, talaði fyrir því að eyrnamerkja stærri hluta fæðingarorlofsins feðrum.

   - Færeyskir feður segjast ekki vilja taka orlofsvikur frá móðurinni – þeir líta á það sem svo að orlofið tilheyri mæðrunum. Margar konur vinna hlutastörf og því þurfa stórar kerfisbreytingar að koma til svo að foreldrar geti skipt jafnt með sér ábyrgð á börnum.

    Jafnrétti fyrir hinsegin fjölskyldur

    Samkynja pör hafa sömu réttindi í öllum Norðurlöndunum.

    - Í okkar fjölskyldu erum við tvær mæður. Við eigum rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi hvor, sem er sérstaklega merkt okkur og svo einn hluta sem við getum skipt með okkur eins og við viljum, segir Åsa Lindhagen, jafnréttismálaráðherra Svíþjóðar.

    Eva Kjer Hansen, ráðherra sjávarútvegs og jafnréttismála og ráðherra norræns samstarfs í Danmörku, sagði að enn þurfi hugmyndir samfélagsins um konur og karla að breytast.

    - Þegar ég hóf stjórnmálaferil minn birtu fjölmiðlar sögu um þrjú lítil börn sem söknuðu móður sinnar. Þeir litu alveg framhjá því að börnin áttu líka föður sem tók þátt í uppeldinu.

    Í stað þess að eyrnamerkja ákveðna mánuði feðrum, hafa dönsk stjórnvöld, í samstarfi við fyrirtæki, farið í herferðir til að kynna rétt karla á fæðingarorlofi.

     Daggæsla fyrir alla er mikilvægasta breytingin

     Ný rannsókn sýnir að niðurgreidd daggæsla og jöfn ábyrgð foreldra eru skilvirkustu leiðirnar í átt að efnahagslegu jafnrétti.

     Í dag er næstum öllum börnum á aldrinum 3 til 5 ára á Norðurlöndum tryggt pláss á dagvistunarstofnun. Aðgangur að niðurgreiddri dagvistun fyrir öll börn er ein helsta ástæða þess að atvinnuþátttaka kvenna er næstum því til jafns við karla. 

     - Norðurlönd voru ekki rík þegar við fórum að fjárfesta í dagvistun og fæðingarorlofi. En þær fjárfestingar borguðu sig því þær sköpuðu innviði sem gera öllum kleift að taka þátt í samfélaginu, stunda vinnu og greiða skatta, sagði Trine Skei Grande.