Norrænir loftslags- og umhverfisráðherrar tryggja að löndin gangi í takt fyrir COP26

03.11.21 | Fréttir
De nordiske miljø- og klimaministre til NR Session 2021

De nordiske miljø- og klimaministre er samlet under Nordisk Råds Session 2021. 

Photographer
Johannes Jansson/norden.org

Norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir komu saman á þingi Norðurlandaráðs 2021. 

Norrænu ráðherrarnir hittust með loftslagsviðræður SÞ í huga til þess að tryggja að einhugur ríkti milli þeirra fyrir seinni viku loftslagsráðstefnunnar. Ráðherrarnir eru allir sammála um það sjónarmið að Norðurlöndin geti sem heild tryggt öflugri áhrif á samningaviðræðurnar sem framundan eru.

Norrænu ráðherrarnir lögðu áherslu á að hittast á þingi Norðurlandarráðs, fyrir viðræðurnar á COP26, til þess að skiptast á skoðunum og taka stöðuna áður en kæmi að pólitískum samningaviðræðum á loftslagsráðstefnunni. Ráðherrarnir rifjuðu upp sameiginlegan viðræðugrunn sinn og ræddu hvernig norrænu löndin gætu í sameiningu stuðlað að metnaðarfullum niðurstöðum COP26. Per Bolund, umhverfis- og loftslagsráðherra og varaforsætisráðherra Svíþjóðar stýrði umræðunum.

Niðurstöður viðræðnanna á COP26 skipta sköpum varðandi það að við getum sem alþjóðasamfélag stemmt stigu við loftslagsbreytingunum. Þess vegna er líka gott að fá það staðfest hér í dag að við á Norðurlöndum erum sammála um að vinna markvisst að því að tryggja aukinn metnað í samningaviðræðunum.

Per Bolind, umhverfis- og loftslagsráðherra og varaforsætisráðherra Svíþjóðar

Norræna ráðherranefndin verður til staðar þegar loftslagsviðræðurnar fara fram og Norræni skálinn verður miðstöð margvíslegra viðburða þar sem lagt verður upp með norrænt samstarf á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Dæmi um þetta er viðburður sem snýst um að virkja loftslagsfjárfestingar einkageirans - afleggjari af verkefni sem norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir efndu til árið 2020.

 

Viðburðir ráðherranefndarinnar á COP26 verða allir sendir út beint og þannig aðgengilegir öllum íbúum Norðurlanda.

Gríðarlegur kraftur í unga fólkinu

Ráðherrarnir ræddu einnig möguleikann á því að auka þátttöku ungmenna í pólitísku starfi. Sérstaklega var rætt um fyrirætlan um að halda fund norrænna ungmenna og norrænu umhverfis- og loftslagsráðherranna í Stokkhólmi á næsta ári.

 

Krista Mikkonen, umhverfisráðherra Finnlands: „Við leggjum mikla áherslu á þátttöku ungmenna í norrænu samstarfi. Þátttaka ungmenna og framlag þeirra er uppspretta hugmynda fyrir okkur sem tökum pólitískar ákvarðanir. Sérstaklega finnst mér ungmenni á Norðurlöndum búa yfir gríðarlegum krafti á sviði umhverfismála og líffræðilegrar fjölbreytni og þau eiga þakkir skildar fyrir það.

 

Norræn ungmenni eru þátttakendur í ýmsum viðburðum Norrænu ráðherranefndarinnar á COP26. Meðal annars er á dagskrá kynning á „Mock COP-sáttmálanum“ þar sem er að finna 18 loftslagstefnumál sem ungt fók í meira en 140 löndum hafa samþykkt og „Nordic Youth Position Paper on Biodiversity“ með 19 aðgerðum til þess að bjarga líffræðilegri fjölbreytni. Hið síðarnefnda var kynnt á ráðherrafundi í maí 2021.