Ný skýrsla: Atvinnulífið á Norðurlöndum kallar eftir frekari pólitískum aðgerðum í loftslagsmálum

11.01.22 | Fréttir
alt=""
Ljósmyndari
norden.org
Viðtalskönnun við helstu fyrirtæki Norðurlanda um stefnu norrænu landanna í loftslagsmálum leiðir í ljós að leiðtogar í atvinnulífinu á Norðurlöndum hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum. Þeir segja þörf á að setja kraft í nýjar loftslagsaðgerðir.

Fyrirtæki á Norðurlöndum geta leikið lykilhlutverk í loftslagslausnum á heimsvísu og hjálpað viðskiptavinum sínum og löndum heims að aðlaga sig að markmiðinu um 1,5°C hækkun. Þetta má lesa úr nýrri viðtalskönnun við 40 leiðtoga í nokkrum af stærstu fyrirtækjum á Norðurlöndum. En þau geta ekki gert þetta ein og hvetja því stjórnmálamenn til að auka hvata til að þróa og markaðssetja loftslagslausnir hraðar.

 

Í skýrslunni leggur atvinnulífið m.a. til kolefnisgjald, aukið gagnsæi í virðiskeðjunum og strangari loftslagskröfur við opinber innkaup í því skyni að ná fram þeim samdrætti í losun koldíoxíðs sem nauðsynlegur er.

 

„Atvinnulífið á Norðurlöndum er í fararbroddi og vel í stakk búið fyrir veröld með miklum loftslagsaðgerðum og hærri kolefnisgjöldum. Það gleður okkur að sjá að þessi skýrsla staðfestir það. Ég trúi því að grænt atvinnulíf á Norðurlöndum skipti sköpum til að ná loftslagsmarkmiðum okkar,“ sagði Espen Barth Eide, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs í tengslum við útgáfu skýrslunnar.

 

Skýrslan var kynnt í dag á vefþingi sem loftslags- og umhverfisráðherrar Svíþjóðar, Ísland, Finnlands og Noregs sátu ásamt leiðtogum atvinnulífsins úr sumum stærstu fyrirtækjum Norðurlanda og framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, Paulu Lehtomäki. Norræna ráðherranefndin fjármagnar skýrsluna og er hún unnin af atvinnulífssamtökunum Haga Initative frá Svíþjóð, Skift Business Climate Leaders frá Noregi og Climate Leadership Coalition frá Finnlandi sem einnig tóku þátt í kynningunni.

Kolefnishlutlaus Norðurlönd

Skýrslan er fyrsta rannsóknin í fjögurra ára verkefni, „Climate Neutral Nordic“, sem einmitt er ætlað að kanna leiðir til að hraða hinum grænu umskiptum með auknu samstarfi við atvinnulífið alls staðar á Norðurlöndum.

 

„Skýrslan sýnir svo ekki verður um villst að samvinna og samstarf hins opinbera og einkageirans er nauðsynlegt ef við ætlum að ná því markmiði að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

 

Á þeim fjórum árum sem verkefnið verður starfrækt mun það snúast um pólitík en einnig ýmsa hagnýta samráðsfundi og upplýsingaskipti á milli stjórnmálafólks, sérfræðinga og leiðtoga fyrirtækja frá norrænu löndunum. Markmiðið er að verkefnið skili af sér fyrsta pólitíska vettvangnum þar sem hið opinbera og einkageirinn koma saman til samstarfs um öll Norðurlönd með tengingu við hið pólitíska Norðurlandasamstarf.