Skortur á norrænu samstarfi um samgöngumál harðlega gagnrýndur

06.05.22 | Fréttir
Kjell-Arne Ottosson og Anders Eriksson
Ljósmyndari
norden.org
Ríkisstjórnir Norðurlanda draga lappirnar þegar kemur að því að efla samstarf um samgönguinnviði. Norðurlandaráð hefur árum saman farið þess á leit við stjórnvöld að samstarfið verði eflt með sérstakri ráðherranefnd um samgöngumál. Ríkisstjórnirnar hafa ekki enn orðið við þeirri ósk. Mest er andstaðan af hálfu Svíþjóðar. Nú skora sænskir þingmenn á sænska samgöngumálaráðherrann.

Metnaður norræns samstarfs stendur til þess að Norðurlönd verði samþættasta svæði heims. Þá er mikilvægt að samþætta samgönguinnviði. Norðurlandaráð óskaði einróma eftir því strax árið 2018 að norrænu ríkisstjórnirnar kæmu á fót formlegri ráðherranefnd samgöngumála. Enn hefur ekkert gerst. Nú hefur þingmaður í norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni, Kjell-Arne Ottosson frá Kristilegum demókrötum, tekið málið upp í fyrirspurn í sænska þinginu sem beint er til Tomas Eneroth innviðaráðherra.

„Norðurlöndum er hagur í því að vinna nánar saman að samfelldum og órofnum innviðum á sviðum samgangna og stafvæðingar. Það skiptir almenning og fyrirtæki á öllum Norðurlöndum miklu máli. Það liggur við að segja megi að norrænu ríkisstjórnirnar virði að vettugi almenning og fyrirtæki þegar þær segjast vilja vinna saman en hefur samt ekki enn tekist að koma á fót ráðherranefnd á þessu mikilvæga sviði. Þær geta ekki heldur svarað því hvers vegna þær vilja ekki vinna saman á sviði samgöngumála,“ segir Kjell-Arne Ottosson.

Hér má sjá og heyra fyrirspurnina

Norðurlöndum er hagur í því að vinna nánar saman að samfelldum og órofnum innviðum á sviðum samgangna og stafvæðingar. Það skiptir almenning og fyrirtæki á öllum Norðurlöndum miklu máli.

Kjell-Arne Ottosson, norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni

Norðurlandaráð hefur um árabil beitt sér ötullega á sviðum samgangna og stjórnsýsluhindrana. Um 40 prósent mála sem fjallað er um í norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni varða samgöngur og stafvæðingu. I skýrslu Jan-Erik Enestams, Strategisk genomlysning: Nordisk civil krisberedskap, er lagt til að Norrænu ráðherranefndinni um stafræna væðingu (MR-DIGITAL) verði varanlega breytt í ráðherranefnd um innviði með þátttöku bæði samgönguráðherra og stafvæðingarráðherra. Þetta sýnir að áhersla nefndarinnar á samgöngumál og ráðherranefnd um samgöngumál skiptir afar miklu máli fyrir þróun norræns samstarfs. Anders Eriksson formaður norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar segir að stjórnvöld verði að taka við sér.

„Norðurlandaráð telur að samfélagþróunin sýni fram á nauðsyn þess að bæta samstarf og samhæfingu á innviðum samgangna og stafrænum innviðum á Norðurlöndum. Nú er kominn tími til að norrænu ríkisstjórnirnar taki við sér og bregðist við,“ segir Anders Eriksson.

Nú er kominn tími til að norrænu ríkisstjórnirnar taki við sér og bregðist við.

Anders Eriksson, formaður norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar

Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin leggur nú aftur fram tillögu þess efnis að Norræna ráðherranefndin er eindregið hvött til þess að koma á fót ráðherranefnd um innviði sem fjallar um samgöngur og stafvæðingu. Flokkahópur jafnaðarmanna átti frumkvæði að þessari tillögu.

Tengiliður