Ungt fólk setur dagskrá Norðurlanda á COP27

28.10.22 | Fréttir
fotocollage ungdomar
Photographer
norden.org
Hættið að flytja út olíu og gas. Gerið stórfelld umhverfisspjöll að alþjóðaglæp. Látið unga fólkið endurskoða umhverfisstefnuna. Þetta eru nokkrar af þeim kröfum sem norrænar ungmennahreyfingar ræða við norrænt stjórnmálafólk í norræna skálanum á loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi 8.-17. nóvember.

„Norræn og alþjóðleg skilaboð ungs fólks eru skýr: Ungt fólk vill kerfisbreytingu og löggjöf um vistmorð. Það vill að Norðurlandabúar taki ábyrgð á því að tryggja okkar kynslóð betri framtíð," segir Amanda Björksell sem er fulltrúi sænskra ungmenna á loftslagsráðstefnu SÞ.

Hún og fleiri ungmenni frá Norðurlöndum og Suður-Ameríku munu skora á Norðurlönd að viðurkenna alþjóðlega umhverfisglæpi og tala fyrir löggjöf um vistmorð á umræðufundi 8. nóvember.

Norræni skálinn býður upp á vettvang fyrir ungt fólk

Í norræna skálanum er boðið upp á vettvang fyrir ungt fólk frá Norðurlöndum og heiminum öllum til að endurhugsa loftslagsáskoranir heimafyrir og hnattrænt.

„Það skiptir okkur unga fólkið á Norðurlöndum miklu máli að vera til staðar á COP27 vegna þess að þar koma leiðtogar heimsins saman til að ræða hvernig við eigum að leysa loftslagsbreytingarnar,“ segir Nadia Gullestrup Christensen sem er fulltrúi danskra ungmenna á loftslagsráðstefnunni.

„Því miður ganga grænu umskiptin allt of hægt og þörf er á að við unga fólkið séum á staðnum og minnum leiðtoga heimsins skyldur þeirra til að grípa til aðgerða fyrir okkar kynslóð og kynslóðir framtíðar.“

„Gjalda fyrir að þátttaka sé táknræn“

Í norræna skálanum munu stórar norrænar ungmennahreyfingar og SÞ-ungmennafulltrúar norrænu landanna skora á valdhafa varðandi nokkur af áleitnustu málefnunum - allt frá kerfisbreytingu, loftslagsréttlæti og að tryggja líffræðilega fjölbreytni til þátttöku barna og ungmenna í ákvörðunarferlum og hlutverks og áhrifa loftslagsráðs ungs fólks:

„Börn og ungmenni eru sérstaklega viðkvæmur og mikilvægur hópur þegar kemur að ákvörðunum um loftslagsmál en þessi hópur á of fáa fulltrúa og þátttaka þeirra geldur oft fyrir að vera táknræn í stað þess að skoðanir þeirra séu teknar alvarlega,“ segir Matilde Angeltveit frá Landsrådet for Norges Barne- og Ungdomsorganisasjoner.

„Börn og ungmenni eru fulltrúar framtíðarinnar og eru mikilvægir aðilar að því að finna leiðina áfram að réttlátum grænum umskiptum.“

 

Missið ekki af viðburðunum sem unga fólkið stýrir í norræna skálanum!

Fylgist með umræðunum í streymi eða á staðnum!

Í norræna skálanum verður boðið til meira en 80 viðburða á loftslagsráðstefnunni í ár.

Norðurlöndin hafa síðan 2015 tekið sameiginlega þátt í að skapa umræður og miðla þekkingu á árlegri loftslagsráðstefnu SÞ.

Hægt er að fylgjast með umræðunum í streymi eða á staðnum í norræna skálanum.