Er hægt að bæta norrænt samstarf á krepputímum?

29.04.21 | Fréttir
Thomas Blomqvist
Photographer
Ville Andersson
Norðurlöndin þurfa sem svæði að vera betur undirbúin næst þegar kreppa skellur á. Norrænu samstarfsráðherrarnir komu saman á fjarfundi 29. apríl og ákváðu meðal annars að láta með hraði gera stefnumótandi úttekt á norrænu samstarfi á krepputímum.

Tilgangur úttektarinnar er að draga lærdóm af reynslunni af kórónuveirufaraldrinum og styrkja um leið svæðisbundið samstarf á krepputímum.

„Meginmarkmiðið er að standa vörð um samþættingu á Norðurlöndum,“ segir Thomas Blomqvist, norrænn samstarfsráðherra Finnlands, sem stýrði fundinum. 

„Covid-19 hefur sýnt að við vorum ekki nægilega vel búin undir kreppu af þessum toga,“ bætir hann við. „Við teljum að virðisauki geti falist í auknu norrænu samstarfi á ýmsum sviðum,“ segir hann. „Við vonum að úttektin muni leiða í ljós hvaða svið það eru.“

Úttektin skiptist í þrennt. Fyrsti hlutinn verður unninn á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Þar verður sérstaklega kortlagt hvernig nýta megi í kreppu inniviði ráðherranefndarinnar, þar með talið stofnanir og samstarfsaðila.

Áhersla á krepputímabil í framtíðinni

Í hinum hlutunum verður áhersla lögð á framtíðina.

Samstarfsráðherrarnir hafa falið Jan-Erik Enestam, fyrrum framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs, að vinna úttektina. Jan-Erik Enestam er frá Finnlandi og var árum saman þingmaður og ráðherra. Hann mun á grundvelli reynslu landanna í heimsfaraldrinum taka saman lista yfir 10-15 hagnýt tilmæli sem eru til þess fallin að styrkja og þróa norrænt samstarf í tengslum við kreppu, sérstaklega innan ráðherranefndarinnar.

Jan-Erik Enestam vinnur úttektina í sumar og haust. Gert er ráð fyrir að henni verði lokið í byrjun nóvember.

Meginmarkmiðið er að standa vörð um samþættingu á Norðurlöndum

Thomas Blomqvist, norrænn samstarfsráðherra Finnlands

„Reynsla okkar af heimsfaraldrinum sem nú stendur yfir hefur gefið okkur hugmyndir um hvaða svið þarf að skýra betur,“ segir Thomas Blomqvist.

Í starfsumboði úttektarinnar eru meðal annars nefnd tækifæri til áframhaldandi upplýsingamiðlunar og sameiginlegra greininga, tilkynningakerfi og snemmtækt samráð milli landanna, sérstaklega um ákvarðanir sem hafa áhrif á frjálsa för á Norðurlöndunum.

Í starfsumboðinu er sjónum einnig beint að samstarfi stjórnvalda, að tryggja samhangandi vinnumarkað, stafrænum lausnum þvert á landamæri og almennum ferlum til þess að kortleggja og sjá fyrir áhrif landsbundinna úrræða annars staðar á svæðinu.
Einnig á að rannsaka tækifæri til þess að nýta innviði Norrænu ráðherranefndarinnar með skilvirkari hætti.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar segir að þegar þörf krefur geti löndin nýtt ráðherranefndina sem samstarfsvettvang á krepputímum.

„Ef aðildarlöndin vilja getum við með góðu móti stýrt og stutt enn frekar við sameiginleg úrræði en við höfum gert í kórónuveirufaraldrinum,“ segir hún.