Dvalar- og starfsleyfi í Finnlandi

Oleskelu- ja työnteko-oikeus Suomessa
Á þessari síðu eru upplýsingar um dvalarleyfi í Finnlandi fyrir borgara norrænu landanna og annarra ríkja, þ.e. leyfi til að dvelja og starfa í Finnlandi.

Borgarar norrænna ríkja þurfa ekki dvalar- eða starfsleyfi til að dvelja eða starfa í öðru norrænu ríki. Þó gilda ákveðin skilyrði fyrir ríkisborgara ESB- eða EES-landa utan Norðurlanda og borgara annarra ríkja sem vilja dvelja eða starfa í Finnlandi, sem sagt er frá á þessari síðu. 

Borgarar norrænna ríkja 

Borgarar norrænu landanna eiga rétt á að búa og starfa í öðrum norrænum löndum án dvalar- eða starfsleyfis. Dveljir þú lengur en eitt ár í Finnlandi er meginreglan þó sú að þú þarft að skrá þig með fasta búsetu hjá þjóðskrá í Finnlandi. Nánari upplýsingar um þjóðskrá í Finnlandi finnur þú á síðunni Að tilkynna flutning og skrá sig í þjóðskrá í Finnlandi. 

Ef þú ert borgari norræns ríkis og flytur til Finnlands ásamt fjölskyldumeðlim sem ekki er borgari norræns ríkis, þá finnur þú leiðbeiningar um slík tilvik neðar á þessari síðu. 

Borgarar ESB- og EES-landa utan Norðurlanda

Borgarar annarra ESB-landa auk Sviss og Liechtenstein þurfa ekki dvalar- eða starfsleyfi í Finnlandi, en þurfa þó að skrá sig inn í landið ef dvöl varir lengur en í þrjá mánuði. Borgarar annarra ESB-landa, Sviss og Liechtenstein eiga að skrá sig hjá stofnuninni um málefni innflytjenda. Nánari upplýsingar færðu hjá finnsku stofnuninni um málefni innflytjenda (Maahanmuuttovirasto). 

Fjölskyldumeðlimir ríkisborgara ESB-ríkja sem ekki eru sjálfir borgarar ESB-ríkis þurfa að sækja um sérstakt dvalarleyfiskort fyrir fjölskyldumeðlimi ESB-borgara hjá Enter Finland, þjónustuvef finnsku stofnunarinnar um málefni innflytjenda. Börn undir lögaldri þurfa einnig að sækja um dvalarleyfi fjölskyldumeðlims. Nánari upplýsingar færðu hjá finnsku stofnuninni um málefni innflytjenda (Maahanmuuttovirasto). 

Borgarar annarra ríkja

Ef þú ert ríkisborgari annars lands en þeirra sem nefnd eru að ofan og vilt flytja til Finnlands eða starfa þar, þá þarftu að sækja um dvalarleyfi. Ef þú ert fjölskyldumeðlimur ríkisborgara ESB-lands og vilt flytja með honum til Finnlands, þá þarftu að sækja um dvalarleyfiskort fyrir fjölskyldumeðlim ríkisborgara ESB-lands.

Dvalar- og starfsleyfi 

Hægt er að veita dvalarleyfi í Finnlandi á margvíslegnum forsendum en þær algengustu eru atvinna, nám, atvinnurekstur, fjölskyldutengsl og að fólk flytji aftur til Finnlands. Í flestum tilvikum er starfsleyfi innifalið í dvalarleyfinu.  

Dvalarleyfi gildir aðeins í landinu sem það er veitt í. Þú getur því ekki notað dvalarleyfi sem veitt er í Finnlandi til þess að starfa í öðru norrænu landi. 

Sækja á um fyrsta dvalarleyfi hjá sendiskrifstofu Finnlands erlendis, áður en komið er til landsins. Að vissum skilyrðum uppfylltum er einnig hægt að sækja um dvalarleyfi eftir komuna til Finnlands, hjá finnsku stofnuninni um málefni innflytjenda (Maahanmuuttovirasto). Nánari upplýsingar um dvalar- og starfsleyfi eru á vefsvæði stofnunarinnar um málefni innflytjenda. 

Dvalarleyfiskort fyrir fjölskyldumeðlimi ríkisborgara ESB-landa 

Þú getur sótt um dvalarleyfiskort fyrir fjölskyldumeðlimi ríkisborgara ESB-landa ef þú ert sjálf/t/ur ekki ríkisborgari ESB-lands, en ert fjölskyldumeðlimur ríkisborgara í ESB- eða EES-landi. Til að sækja um þarftu að hafa gilt vegabréf. Fjölskyldumeðlimur þinn sem er ríkisborgari ESB-lands þarf einnig að búa í Finnlandi   

Þú getur sótt um dvalarleyfiskort fyrir fjölskyldumeðlimi ríkisborgara ESB-landa með því að fylla út rafræna umsókn á þjónustuvefnum Enter Finland og með því að framvísa gildum skilríkjum á skrifstofu stofnunarinnar um málefni innflytjenda. Þú getur líka sótt um dvalarleyfi með því að fylla út umsóknareyðublað á pappír, en þá þarftu að skila eyðublaðinu í eigin persónu.  

Ef þú ert fjölskyldumeðlimur ríkisborgara ESB-lands, og fjölskyldumeðlimurinn býr í Finnlandi eða er að flytja þangað, þá máttu byrja að vinna um leið og þú kemur til Finnlands.  

Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um málefni innflytjenda (Maahanmuuttovirasto)). 

Að ferðast utan Finnlands 

Ef þú hefur fengið dvalarleyfi eða dvalarleyfiskort fyrir fjölskyldumeðlimi ríkisborgara ESB-landa í Finnlandi, þá þarftu ekki vegabréfsáritun til að ferðast á Schengen-svæðinu í að hámarki 90 daga á 180 daga tímabili.

Dvalarleyfi í Finnlandi veitir aðeins rétt til að ferðast án vegabréfsáritunar til landa innan Schengen-svæðisins. Ferðist þú til annarra landa gætirðu þurft að fá vegabréfsáritun. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnsku stofnunarinnar um málefni innflytjenda (Maahanmuuttovirasto)). 

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna