Meðganga og fæðing í Noregi

Graviditet og fødsel i Danmark
Hér geturðu lesið um réttindi þín í sambandi við meðgöngu og fæðingu í Noregi.

Meðganga

Ef þú býrð í Noregi og ert tryggð í almannatryggingakerfinu skaltu snúa þér til heimilislæknisins eða ljósmóður á heilsugæslustöð í byrjun meðgöngu. Opinber heilbrigðisþjónusta fyrir þungaðar konur er ókeypis. Konur ákveða sjálfar hvort þær nýta sér tilboð um meðgöngueftirlit.

Meðgöngueftirlit

Þér er boðið upp á meðgöngueftirlit en þú ákveður sjálf hvort þú ferð til ljósmóður á heilsugæslustöð, heimilislæknis eða sjálfstætt starfandi ljósmóður/ kvensjúkdómalæknis.

Mælt er með því að þú farir í fyrstu skoðun hjá heimilislækni eða ljósmóður í 6.-12. viku. Þá er öllum konum boðin ómskoðun í kringum 18. viku meðgöngu. Allar rannsóknir og sýnatökur eru valfrjálsar og þér er heimilt að afþakka það sem læknirinn eða ljósmóðirin leggja til. Þú getur hinsvegar ekki farið fram á aðrar eða fleiri skoðanir en í boði eru.

Í vinnu á meðgöngu

Í Noregi hefst fæðingarorlof þremur vikum fyrir áætlaða fæðingu. Vinnuverndarlöggjöfin skyldar atvinnurekendur til að aðlaga vinnuumhverfi þungaðra kvenna ef þær geta ekki unnið sín venjulegu störf af heilsufarslegum ástæðum.

Meðgöngugreiðslur

Hraustar konur geta fengið meðgöngugreiðslur ef þær geta ekki unnið á meðgöngunni vegna hættu á að fóstrið bíði skaða. Þú þarft að vera almannatryggð í Noregi til að eiga rétt á meðgöngugreiðslum. NAV (norska tryggingastofnunin) annast umsýslu á meðgöngugreiðslum.

Fæðing og fæðingarstofnanir

Í Noregi er frjálst sjúkrahúsval og þú getur sjálf valið hvar þú fæðir að því tilskildu að sá staður geti tekið við þér. Þú getur rætt við ljósmóðurina eða heimilislækninn um hvar þú óskar eftir því að fæða. Ef erfiðleikar koma upp á meðgöngunni er þér ráðlagt að velja sjúkrahús sem hefur þá aðstöðu sem þarf, til dæmis nýburadeild. Áætlaðar heimafæðingar eru ekki í boði hins opinbera í Noregi. Engu að síður geta konur valið að fæða heima með aðstoð ljósmóður.

Eftir fæðingu

Öllum nýburum er boðið upp á læknisskoðun og skimun vegna heyrnarskerðingar og ýmissa sjúkdóma skömmu eftir fæðingu.

Á fyrsta ári barnsins sjá heilsugæslustöðvar um eftirlit með þyngd barnsins og þroska, bólusetningum og heilbrigði. Sú þjónusta er ókeypis. Sveitarfélagið getur greint þér frá því hvaða heilsugæslustöð þú heyrir til.

Kennitala, nafngift og fæðingarvottorð

Að lokinni fæðingu sendir sjúkrahúsið fæðingartilkynningu til skattyfirvalda og þau úthluta barninu kennitölu. Það gerist sjálfkrafa.

Skattyfirvöld senda að því loknu fyrirspurn til foreldranna um að skrá nafn barnsins. Í Noregi er skylt að tilkynna um nafn barnsins til skattyfirvalda eigi síðar en sex mánuðum eftir fæðingu.

Þegar skattyfirvöldum berst tilkynning um nafn barnsins senda þau fæðingarvottorðið í pósti til foreldranna. Þar koma fram upplýsingar um barnið, fæðingartími og foreldrana.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna