Nám fullorðinna í Svíþjóð

Bøger på Stockholms Stadsbibliotek
Ljósmyndari
Photo by Susan Q Yin on Unsplash
Sænska orðið yfir nám fullorðinna er „komvux“. Á þessari síðu eru gefnar upplýsingar um hver geta sótt um í nám fullorðinna og þær reglur sem gilda fyrir fólk sem býr í öðru norrænu landi og vill bæta við framhaldsskólamenntun sína eða ljúka henni.

Í Svíþjóð nefnist nám fullorðinna „komvux“. Komvux er stytting á „kommunal vuxenutbildning“, nám fyrir fullorðna á vegum sveitarfélaganna. Nám fyrir fullorðna gefur fólki tækifæri til að ljúka einstökum námsgreinum eða heilli námsbraut.

Almennt um nám fullorðinna í Svíþjóð

Nám fyrir fullorðna er þrískipt og skiptist í nám fullorðinna á vegum sveitarfélaganna, sérnám fullorðinna og sænskukennslu fyrir innflytjendur. Þarfir og forsendur hvers og eins segja fyrir um hvaða nám er best að velja.

Nám fullorðinna er aðallega hugsað sem viðbót við grunnskóla- eða framhaldsskólamenntun.

Sækja um nám fyrir fullorðna í Svíþjóð

Þú sækir um aðgang að námi fyrir fullorðna í því sveitarfélagi sem þú býrð í í Svíþjóð.

Ef sótt er um nám sem annað sveitarfélag hefur umsjón með þarf heimasveitarfélagið áframsenda umsóknina sem fyrst til hins sveitarfélagsins með yfirlýsingu um hvort heimasveitarfélagið skuldbindi sig til að greiða kostnað af menntun umsækjandans.

Ekki er nauðsynlegt að senda yfirlýsingu ef sveitarfélögin hafa þegar gert með sér samning. Sveitarfélagið sem veitir menntunina tekur ákvörðun um hvort umsækjandi fái inngöngu í námið.

Nám fullorðinna í Svíþjóð fyrir fólk sem býr í öðrum löndum

Almenna reglan er að til að geta sótt nám fyrir fullorðna í Svíþjóð þarf fólk að búa í Svíþjóð. Einstaklingar sem búa annars staðar á Norðurlöndum eiga einnig möguleika á að stunda nám fyrir fullorðna á framhaldsskólastigi í Svíþjóð. Þú þarft ekki að eiga lögheimili í Svíþjóð til að geta stundað nám fyrir fullorðna.

Lögheimili í öðru norrænu ríki

Ef þú átt lögheimili í öðru norrænu ríki eða í Færeyjum, Grænlandi eða Álandseyjum og vilt stunda nám fyrir fullorðna í Svíþjóð nýtur þú sömu réttinda og aðrir umsækjendur í sveitarfélaginu. Það þýðir að þú þarft að uppfylla inntökuskilyrði námsins.

Ef fyrri skólaganga þín var ekki í Svíþjóð þarftu að hafa lokið menntun sem samsvarar sænskri grunnskólamenntun eða samsvarandi námi fullorðinna til að fá inngöngu. Þó er gerð sú krafa að þú hafir lokið skólagöngu í heimalandinu sem er sambærileg sænsku grunnskólaprófi eða menntun fyrir fullorðna.

Ef þú uppfyllir skilyrðin stendur þú jafnfætis þeim sem sækja um í sænska sveitarfélaginu sem kennslan fer fram í.

Lögheimili í Svíþjóð og búseta í öðru norrænu ríki

Ef þú dvelur í norrænu landi utan Svíþjóðar en ert með lögheimili í sænsku sveitarfélagi er réttur þinn til menntunar ekki sá sami og ef þú værir norrænn umsækjandi.

Í tilfellum sem þessum þarftu að sækja um nám fyrir fullorðna í heimasveitarfélagi þínu í Svíþjóð, þar sem námið er á vegum þess. Þá áttu ekki rétt á að sækja þér menntun fyrir fullorðna í öðru sveitarfélagi en heimasveitarfélaginu.

Fjarnám fullorðinna í Svíþjóð frá öðrum löndum

Ef þú átt rétt á að stunda nám fyrir fullorðinna getur þú gert það með fjarnámi frá öðru norrænu landi.

Hafðu í huga að flest sveitarfélög krefjast þess þó, samkvæmt samningi, að nemendur skólans taki lokapróf („slutprov“) hverrar námsgreinar á staðnum í skólanum.

Ef landsbundið próf („nationellt prov“) er haldið fyrir námsgrein eru það einnig haldin á staðnum.

Það er því gerð krafa um viðveru á staðnum fyrir námsgreinar með fjarkennslu.

Nánari upplýsingar

Nám fullorðinna í Svíþjóð er á vegum sveitarfélaganna. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðum þeirra um nám fullorðinna. Hafðu samband við viðkomandi sveitarfélag til að fá svör við spurningum sem kunna að vakna.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna