Tryggingar í Finnlandi

Þegar búið er í Finnlandi þarf að huga að tryggingum á vegum einkarekinna tryggingafélaga, auk finnskra almannatrygginga. Slíkar tryggingar eru heimilistrygging og umferðartrygging, auk valfrjálsra trygginga á borð við bifreiðartryggingu, sjúkratryggingu á vegum tryggingafélags, slysatryggingar, líftryggingu og ferðatryggingu.
- Heimilistrygging er oft skilyrði fyrir því að fá leigða íbúð.
- Öllum eigendum vélknúinna ökutækja í Finnlandi er skylt að hafa svonefnda umferðartryggingu, en bifreiðartrygging (kaskótrygging) er valkvæð.
- Tryggingafélögin selja ýmsar valfrjálsar sjúkratryggingar sem gera tryggðum einstaklingum kleift að sækja sér dýrari heilbrigðisþjónustu og -meðferðir en hið almenna lögbundna sjúkratryggingakerfi býður upp á.
- Ferðatrygging á vegum tryggingafélags veitir aukið öryggi meðan dvalið er tímabundið erlendis.
Að auki er hægt að kaupa ýmsar slysa- og líftryggingar.
Fæst tryggingafélög í Finnlandi selja persónutryggingar þeim sem búa tímabundið í landinu. Yfirleitt er gerð krafa um að viðkomandi hafi fasta búsetu í Finnlandi og heyri undir almannatryggingakerfi landsins. Heimilistrygging er þó yfirleitt í boði fyrir fólk með tímabundna dvöl í Finnlandi. Ekki er kveðið á um skilmála tryggingafélaga í lögum, heldur sjá félögin sjálf um að útfæra þá. Nánari upplýsingar veita tryggingafélögin.
Á meðal tryggingafélaga sem starfa í Finnlandi eru If, LähiTapiola, Pohjola, Pohjantähti, Turva, Suomen Vahinkovakuutus og Fennia.
Sjúkratryggingar á vegum einkaaðila
Auk sjúkratrygginga almannatryggingastofnunar bjóða ýmis tryggingafélög upp á sjúkratryggingar sem gera tryggðum einstaklingum kleift að sækja sér dýrari heilbrigðisþjónustu og -meðferðir en almenna kerfið býður upp á. Þú þarft alltaf að tryggja þig í því landi þar sem þú hefur almannatryggingar. Viljir þú auka öryggi þitt meðan dvalið er tímabundið erlendis með því að tryggja þig á vegum einkaaðila er ferðatrygging eini kosturinn sem býðst.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.