Norrænt samstarf á sviði jafnréttismála og LGBTI

Jöfn tækifæri og jafnvægi milli vinnu og heimilis eru ekki aðeins réttindamál heldur einnig efnahaglegur ávinningur. Aukið jafnrétti karla og kvenna hefur aukið hagsæld á Norðurlöndum. Umönnun barna á viðráðanlegu verði, menntun og fæðingarorlof fyrir báða foreldra hafa aukið velferð og hagvöxt. Kynnist sex einstaklingum sem hafa náð jafnvægi – milli heimilis og vinnu. Þetta er #NordicEquality

Jafnréttismál eru eitt þeirra sviða sem Norðurlöndin eiga hvað mest samstarf á. Þetta mikla samstarf hefur stuðlað að því að Norðurlönd eru nú það svæði þar sem jafnrétti er mest í heiminum. Jafnrétti LGBTI-fólks hefur ekki verið liður í samstarfinu. Í janúar 2020 hófu ráðherrarnir samstarf um jafnrétti, meðferð og tækifæri fyrir LGBTI-fólk á Norðurlöndum.

Samstarf norrænu ríkisstjórnanna á sviði jafnréttismála og LGBTI er undir stjórn norrænu jafnréttismálaráðherranna sem mynda MR-JÄM.

Á milli þess sem ráðherrarnir funda sjá fulltrúar í embættismannanefndinni um jafnréttismál og LGBTI, ÄK-JÄM, til þess að málum sé fylgt eftir eða þau undirbúin á ýmsum pólitískum forgangssviðum.

Sameiginleg menningarsaga og lýðræðishefð hefur gert norrænu löndunum kleift að byggja upp náið og gagnlegt samstarf sín á milli á sviði jafnréttismála og LGBTI.

Strax árið 1974 ákvað Norræna ráðherranefndin að ríkisstjórnir allra landanna skyldu útnefna einstakling til að sjá um tengsl við hinar ríkisstjórnirnar á sviði kynjajafnréttis. Nokkrum árum síðar var búið að móta framkvæmdaáætlun fyrir norrænt samstarf í jafnréttismálum og jafnframt var stofnuð embættismannanefnd. Árið 2020 var samstarfið útvíkkað svo það næði einnig til réttinda LGBTI fólks. LGBTI er enska skammstöfunin sem stendur fyrir lesbian, gay, bisexual, trans og intersex. Skammstafanir geta verið mismunandi milli norrænu ríkjanna en LGBTI er almennt notað í opinberu norrænu samstarfi í samræmi við önnur alþjóðleg samtök.

Með því að tengja LGBTI-sviðið við störf Norrænu ráðherranefndarinnar verður auðveldara fyrir okkur að læra hvert af öðru, þróa aðgerðir sem virka og vera öflug rödd á alþjóðavettvangi. Með sameiginlegu starfi sínu geta norrænu ríkin orðið leiðandi á heimsvísu varðandi vernd og eflingu LGBTI-réttinda. Fyrsta skrefið eftir ákvörðun ráðherranna um þetta nýja samstarf er að kortleggja og greina LGBTI-sviðið á Norðurlöndum. Í framtíðinni mun starf að málefnum LGBTI fólks stýrast af þeim stefnumarkandi áhersluatriðum sem nefnd eru samstarfsáætluninni.

Ekkert Norðurlandanna hefur náð jafnrétti og alltaf er eitthvað til staðar sem hin löndin geta sótt innblástur í. Séu norrænu löndin, ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, skoðuð sem ein heild sést það betur en ella að í samfélögum þeirra hefur átt sér stað samfelld þróun í átt til aukins jafnréttis allt frá áttunda áratug 20. aldar.

Í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum eru Norðurlönd iðulega talin í hópi þeirra landa heims þar sem jafnrétti er mest. Svipað mynstur má sjá varðandi málefni LGBTI fólks. Niðurstöður rannsókna á valdahlutföllum og tölfræðilegar upplýsingar sýna þó að enn er langt í land.

Á þessari vefsíðu má nálgast nýlegar pólitískar áætlanir fyrir jafnréttissamstarf Norðurlanda og ítarlegt efni um stöðu og þróun jafnréttismála og LGBTI á Norðurlöndum.

 

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030

Í framkvæmdaáætluninni er því lýst hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Grænum Norðurlöndum, samkeppnishæfum Norðurlöndum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Stefnumarkandi áherslurnar og markmiðin munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt hinna tólf markmiða.

Verkfæri í framkvæmdaáætluninni: Stefna Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu sjálfbærrar þróunar, jafnréttis og sjónarmiða réttinda barna og málefna ungmenna

Sjálfbær þróun, jafnrétti og sjónarmið réttinda barna og málefna ungmenna eiga að vera rauður þráður í öllu starfi Norrænu ráðherranefndarinnar. Samþætting þessara sjónarmiða (stundum kallað „mainstreaming“) er forsenda þess að framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 verði náð.

Í raun felur það í sér að sjálfbær þróun, jafnrétti og sjónarmið réttinda barna og málefna ungmenna skuli með kerfisbundnum hætti fléttuð inn í alla vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar. Þetta sjónarmið skal vera til staðar á öllum stigum skipulagningar, ákvarðanatöku, framkvæmdar og eftirfylgni. Ábyrgðin liggur hjá þeim starfsmönnum og aðilum sem alla jafna taka þátt í starfinu.

Í stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu er útskýrt hvaða forsendur þarf til þess að framtíðarsýn okkar 2030 um grænni, samkeppnishæfari og félagslega sjálfbærari Norðurlönd verði að veruleika. Í þeim forsendum felst að starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar skuli vera sjálfbær, á jafnréttisforsendum, öllum opin, með þátttöku fulltrúa mismunandi hópa og aðgengileg. Stefnan leggur einnig áherslu á að tryggja starfsaðferðir í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar á borð við heimsmarkmið SÞ, Kvennasáttmála SÞ og Barnasáttmála SÞ – starfsaðferðir sem eru forsenda norrænnar sjálfbærniáætlunar sem útilokar engan.

Kynjajafnrétti í tölum 2021

Í Gender Equality in Figures er að finna nýjustu kynjatölfræði Norðurlanda. 33 þróunarvísar sýna árangurinn sem náðst hefur á svæðinu og hvaða úrlausnarefni eru enn til staðar með tilliti til lýðfræði, fjölskyldu- og umönnunarmála, heilbrigðismála, menntamála, vinnumarkaðsmála, tekna og valda og áhrifa. Vonandi kemur ritið að gagni fyrir þau sem vilja áreiðanleg samanburðargögn um jafnrétti á Norðurlöndum.

Norræna upplýsingamiðstöðin um kynjafræði (NIKK)

Norræna upplýsingamiðstöðin um kynjafræði, NIKK, er samstarfsvettvangur á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

NIKK á að stuðla að því að markmið norrænu samstarfsáætlunarinnar í jafnréttismálum, ásamt viðbótinni um málefni LGBTI, náist. Það er fyrst og fremst gert með því að halda til haga og miðla skipulega rannsóknarniðurstöðum, pólitískum ákvörðunum, þekkingu og framkvæmd verkefna út frá norrænu og þverfaglegu sjónarhorni.

NIKK hefur jafnframt umsjón með Norræna jafnréttissjóðnum og Norræna LGBTI-sjóðnum fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar.