Hápunktar frá norræna skálanum á COP28

14.12.23 | Fréttir
COp28 highlight Dubai
Photographer
Andreas Omvik
Stjórnvöld, einkageirinn, vísindafólk, ungt fólk og stofnanir, meðal annars stofnanir Sameinuðu þjóðanna komu saman á tíu daga langri dagskrá á COP28 þar sem Norðurlöndin buðu til alþjóðlegs samtals um sameiginlegar loftslagsáskoranir. Hér er safnað saman nokkrum hápunktum af sviði Norræna skálans sem veitt geta innsýn í samningaviðræður ársins og von og hvatningu vegna þeirrar vinnu sem framundan er.

Frá alþjóðlegu stöðumati til norræns stöðumats, frá nýskapandi fjárfestingu vegna loftslagsbóta til áskorana varðandi aðlögun og þátttöku ungs fólks. Frá hlutverki menningar í grænum umskiptum til þess að skaðleg loftslagsáhrif matvælakeðjunnar komust loks á dagskrá. Kynnið ykkur nokkra hápunkta af sviðinu í Norræna skálanum á COP28.

Hvar stöndum við nú?

Í skálanum voru kynntar ýmsar skýrslur sem allar gefa mynd af stöðunni á tilteknum sviðum, bæði á heimsvísu og á Norðurlöndum.

Meginniðurstöður UNEPs Emission Gap Report 2023 voru kynntar og í framhaldinu var rætt um niðurstöður Nordic Stocktake. Niðurstöður þessara skýrslna veittu innsýn í stöðuna á heimsvísu og þær áskoranir sem sérstaklega eiga við um Norðurlönd. Líklega var ekki síður mikilvægt að góðar umræður áttu sér stað um nauðsyn þess að draga upp jákvæða mynd af kolefnishlutlausu samfélagi framtíðar. Hvernig viljum við að lífið verið árið 2050?

Úrval sviðsmynda úr World Energy Outlook sem gefin er út af Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA) var kynnt og rætt. Skýrslan er lykilskýrsla fyrir orkugeirann og lagði grunninn að fjölda orkutengdra viðburða í skálanum.

Hinar misjákvæðu niðurstöður skýrslunnar UNEPs Adaptation Gap Report 2023 voru kynntar undir yfirskriftinni „vanfjármagnað og óundirbúið“. Í kjölfarið miðlaði norrænt samstarf raunverulegum dæmum um aðlögunarstarf í bæjum og meðfram sjávarsíðunni sem bæta á viðnámsþol byggðanna gagnvart veðuröfgum. Hvernig geta vísindi og löggjafi unnið saman að skilvirkri stefnu um loftslagsaðlögun í nærsamfélagi og á landsvísu?

Loftslagsbótasjóður

Á COP28 var mikið rætt um hvernig sjóðurinn sem samþykkt var að koma á fót ætti að starfa og svo var einnig í Norræna skálanum. Strax á fyrsta degi ráðstefnunnar var gerð sérstök samþykkt um stofnun þessa sjóðs og kynnt framlög ýmissa ríkja til hans.

Skýrsla um nýskapandi fjármögnun og virkjun fjármögnunar á loftslagsbótum sem Wenger Law vann fyrir Norrænu ráðherranefndina var kynnt og rædd í pallborði sem skipað var fulltrúum breytinganefndarinnar sem vann tillögu að því hvernig sjóðurinn mun starfa. Eða eins og Ole Thonke, vararitari þróunarstefnu í Danmörku komst að orði á sviðinu: „Fjármögnun eftir hefðbundnum opinberum leiðum er ekki nægjanlega mikil til að fylla upp í hið efnahagslega gat sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna verðum við að skoða möguleika á nýskapandi fjármögnun.“

Sem fyrr heyrðist vel í unga fólksinu á norræna sviðinu þar sem haldnir voru 14 viðburðir, skipulagðir af ungu fólki frá Norðurlöndum og úr heiminum öllum. Það var nýmæli í ár að norrænir ungmennafulltrúar SÞ voru beðnir að bjóða með sér gesti sem hefði haft hvetjandi áhrif á þau til samtals á sviðinu. Hlýða mátti á sex hjartnæm samtöl undir merkjum „Nordic Talks“ um allt frá loftslagsótta til þess að stofna til sérstakra viðbragða, svo sem hreyfingarinnar #JusticeforRosa sem hefur tekið þátt í að koma á fót evrópskum minningardegi um fórnarlömb loftslagsvár, 15. júní.

Menningarlífið er hvati fyrir græn umskipti

Á ráðstefnunni var í ár lögð sérstök áhersla á hlutverk menningargeirans í því að græn umskipti megi takast. Með daglegum sýningum á vídeóverki grænlensku myndlistarkonunnar og ljóðskáldsins Jessie Kleemann „Arctic Pain“ og tvennum pallborðsumræðum um þörfina fyrir gagnrýna og óháða fréttamennsku og stöðu og hlutverk menningar í loftslagsumræðunni var hamrað í stein að í listum og menningu býr kraftur sem getur skapað skilning og falið í sér raunverulega breytingu.

Food systems takeover

COP28 var árið þar sem matvælakerfi komust loks á dagskrá og voru rædd í víðara samhengi. Norrænt samstarf hefur í áraraðir þrýst á þetta og meðal annars staðið að „food systems takeover“ í Norræna skálanum á loftslagsráðstefnunni. Um þriðjungur losunar í heiminum á uppruna í matvælakerfum. Lofslagsbreytingar og matvælakerfi eru því tengd órofa böndum og hvort tveggja krefst samstillts átaks á heimsvísu.

Loftslagsstefna er einnig jafnréttisstefna

Jafnrétti og loftslagsstefna eru nátengd málefni. Sýnt var fram á þetta á COP27 þar sem norrænt samstarf stóð að hliðarviðburði ásamt Afríkusambandinu og UN Women. Á þessu ári var „The Nordic Knowledge Hub on Gender and Climate“ kynnt en þar er safnað saman nýjustu rannsóknum sem sýna hvers vegna það skiptir sköpum að horft sé til frekara jafnréttis í loftslagsstefnunni. Einnig var rætt um tengsl jafnréttisáskorana og uppbyggingu græns vinnumarkaðar í pallborðsumræðum. Aðeins þriðji hver Norðurlandabúi sem starfar í græna geiranum er kona og karlar eru að sama skapi í meirihluta þeirra sem starfa í greinum sem losa mikið, svo sem samgöngum, orkumálum, landbúnaði og byggingariðnaði. Þess vegna hefur umbreyting þessara starfsgreina einnig mest áhrif á vinnulíf karla.