Norrænu umhverfis- og loftslagsráðherrarnir leggja áherslu á alþjóðlega vinnu að loftslagsmálum

11.05.23 | Fréttir
Miljøministrene på Island

Fællesfoto fra miljø- og klimaministrenes møde i Borgarfjörður i Island, maj 2023.

Photographer
Golli

Fundurinn var haldin á Hótel Hamri í Borgarfirði.

Alþjóðlegar viðræður og samningar voru efst á baugi þegar ráðherrar umhverfis- og loftslagsmála komu saman til fundar í Borgarfirði í vikunni. Fleiri mál sem varða loftslagsvinnuna á Norðurlöndum sem og á alþjóðavettvangi voru þó einnig á dagskrá.

Grænar siglingaleiðir, föngun og binding kolefnis, alþjóðlegar viðræður um plast, loftslagsaðlögun og ekki síst loftslagsviðræður á COP28 voru allt fyrirferðarmiklir dagskrárliðir á fyrsta fundi umhverfis- og loftslagsráðherranna á árinu 2023. Norrænu löndin eru sammála um að setja aukinn metnað í alþjóðlegar samningaviðræður á sviði umhverfis- og loftslagsmála og til þess að svo megi verða þarf norrænt samstarf.

„Samstarf norrænu landanna í loftslagsmálum er bæði mikilvægt og árangursríkt. Við getum boðið upp á grænar lausnir, allt frá vindorku til jarðvarma og frá kolefnisföngun til grænna skipaleiða, og á okkur er hlustað á alþjóðavettvangi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands.

Við getum boðið upp á grænar lausnir, allt frá vindorku til jarðvarma og frá kolefnisföngun til grænna skipaleiða, og á okkur er hlustað á alþjóðavettvangi.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

Litið til ESB og Fit for 55

Ráðherrarnir ræddu lagapakka ESB, „Fit for 55“, sem mun hafa áhrif á öll norrænu löndin og býður upp á tækifæri til árangursríks samstarfs til að ná sameiginlegum markmiðum.

„Með lagapakkanum Fit for 55 tekur ESB sér stöðu í fylkingarbrjósti á sviði loftslagsmála. Við áttum góðar samræður um bæði þau tækifæri og þær áskoranir sem norrænu löndin standa frammi fyrir nú þegar innleiða á reglurnar í löndum okkar,“ sagði Romina Pourmokhtari, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar.

Staðið við loforð frá COP26

Einnig var rætt um að draga úr kolefnislosun frá siglingum á Norðurlöndum, einkum með því að koma upp grænum siglingaleiðum. Á COP26 í Glasgow skrifuðu öll norrænu löndin undir Clydebank-yfirlýsinguna sem meðal annars kveður á um að komið skuli upp sex grænum siglingaleiðum á hnattvísu. Í maí 2022 samþykktu norrænu ráðherrarnir á fundi í Ósló að koma upp losunarlausum siglingaleiðum á milli hafna á Norðurlöndum. Norðmenn leiða vinnuna á þessu sviði og hafa kynnt vegvísi og tilraunaverkefni sem sýnir fram á tækifærin í tengslum við grænar siglingaleiðir á Norðurlöndum.

„Til þess að ná núlllosun frá siglingum þarf að skipta yfir í loftslagsvæna orku. Það er verkefni sem við þurfum að leysa í sameiningu á Norðurlöndum og í samvinnu við atvinnulífið. Tilraunaverkefnið sem kynnt var í dag sýnir að góðar forsendur eru fyrir losunarlausum siglingum á milli norrænu landanna. Næsta skref er að finna lausnir til þess að nýta þessi tækifæri,“ segir Espen Barth Eide, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs.

Góðar forsendur eru fyrir losunarlausum siglingum á milli norrænu landanna. Nú þarf að finna lausnir til þess að nýta tækifærin.

Espen Barth Eide , loftslags- og umhverfismálaráðherra Noregs.

Loftslagsaðlögun og norrænar lausnir

Á fundinum var einnig fjallað um innleiðingu lausna í tengslum við loftslagsaðlögun, sem og aðferðir við föngun og bindingu kolefnis og hina vaxandi þörf á grænni orku. Í apríl gerðu vísindamenn, sérfræðingar og aðrir hagsmunaaðilar frá öllum Norðurlöndum grein fyrir stöðu mála í tengslum við loftslagsaðlögun í borgum og sveitarfélögum á Norðurlöndum á ráðstefnunni NOCCA sem haldin var á Íslandi.

Niðurstöður ráðstefnunnar voru kynntar fyrir ráðherrunum og verða til hliðsjónar við frekari vinnu við loftslagsaðlögun á norrænum og evrópskum vettvangi. Vonir standa til þess að reynsla Norðurlanda og það hvernig hér er unnið að loftslagsaðlögun geti einnig nýst í öðrum heimshlutum.

Á ráðstefnunni var meðal annars rætt um lagalegar áskoranir í tengslum við loftslagsáhættu þvert á landamæri (TCR) og kynntu ráðherrarnir sér þau mál.