Svona vinna Norðurlönd gegn bakslagi í jafnréttisbaráttunni á krepputímum

13.05.20 | Fréttir
kvinna coronatestar en man
Photographer
Henning Bagger/Scanpix
Þegar kórónufaraldurinn braust út bjuggu öll norrænu ríkin sig undir það að ofbeldi gegn konum gæti aukist. Yfirvöld opnuðu ný neyðarathvörf og kynntu nýjar leiðir fyrir konur til að tilkynna ofbeldið til lögreglu. En annað mikilvægt jafnréttismál á þessum erfiðleikatímum er að tryggja að viðbrögð ríkisstjórna við kreppunni skapi ekki bakslag í jafnréttismálum til langs tíma.

Veiran sem breiðist nú um heiminn allan reynir ekki aðeins á neyðarviðbúnað okkar, félagsleg kerfi og matvælakerfi heldur einnig kynhlutverk okkar.

Norrænu jafnréttismálaráðherrarnir ræddu kreppuna út frá sjónarmiðum kynjajafnréttis á fundi sínum á þriðjudaginn og skiptust á reynslu af nauðsynlegum aðgerðum til skamms og langs tíma.

Kreppan bítur ekki alla eins

Ná aðgerðapakkar ríkisstjórna til bæði kvenna og karla? Hvaða áhrif hefur kreppan á kynskiptan vinnumarkað Norðurlanda?  Hafa lokanir skóla og leikskóla áhrif á jafnrétti innan fjölskyldna? Hefur kreppan sömu áhrif á stelpur og stráka þegar kemur að andlegri heilsu og námsárangri?  Og hversu mikið eykst ofbeldi karla gegn konum þegar allir þurfa að halda sig heima?

- Þolendur heimilisofbeldis eru sérstaklega berskjaldaðir í kórónufaraldrinum. Það verður oft enn erfiðara fyrir utanaðkomandi að koma auga á ofbeldið og fyrir þolendur að leita hjálpar og flýja heimilið. Við höfum því opnað neyðarathvörf um allt land og netfang fyrir tilkynningar um heimilisofbeldi, segir Mogens Jensen, ráðherra jafnréttismála í Danmörku og formaður norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál.

„Ofbeldisfaraldur“

Öll norrænu ríkin hafa aukið framlög til verkefna sem snúa að því að vernda konur gegn því ofbeldi sem vitað er að eykst oft á krepputímum.

 

- Tölfræðin sýnir að nú á tímum kórónukreppunnar á sér stað faraldur ofbeldis gegn konum og þörf er á öflugu alþjóðasamstarfi til að bregðast við stöðunni, segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála á Íslandi.

 

Nú í kórónufaraldrinum hafa íslensk yfirvöld byggt á reynslu frá efnahagshruninu árið 2008, þegar ofbeldi gegn konum jókst. Vegna þess að ekki var gripið til útgöngubanns hér á landi heldur stuðst við víðtæka skimun og smitrakningu, hafa þolendur heimilisofbeldis getað flúið heimili sín og leitað hjálpar, segir Katrín Jakobsdóttir.

Kyngreind tölfræðigögn

Abid Q Raja, ráðherra jafnréttismála í Noregi, og Thomas Blomqvist frá Finnlandi, undirstrika að kyngreind tölfræðigögn séu undirstaða þess að hægt sé að meta áhrif pólitískra aðgerða vegna kórónufaraldursins á kynjajafnrétti.

Hver er með menntun í umönnunargreinum, hver annast aldraða ættingja, hver á sparifé, hver er með óöruggt ráðningarsamband og hver verður fyrst fyrir barðinu á uppsögnum? Pólitískar aðgerðir þurfa að taka mið af öllum þessum atriðum.

Aðgerðapakkar séu greindir

Í Svíþjóð var gerð ítarleg greining á jafnréttisáhrifum þeirra aðgerðapakka sem sænska ríkisstjórnin hafði kynnt í byrjun apríl.

Meðal afleiðinga kórónufaraldursins er efnahagslægð og aukið atvinnuleysi. Einstaklingar með tímabundinn ráðningarsamning eða með ótryggt ráðningarsamband eru sérstaklega berskjaldaðir. Oft eru þetta konur, ungmenni og nýbúar.

Konur ráðandi í heilbrigðisþjónustu og umönnun

- Ég vil að við, jafnréttismálaráðherrar Norðurlanda, séum í fararbroddi um að aðgerðir vegna kórónufaraldursins byggi á kynjajafnrétti og þörfum ólíkra hópa.

- Við gerum það í Svíþjóð með því að veita meira fé til sveitarfélaganna svo að efla megi velferðarþjónustu, þar á meðal skólastarf, umönnun og heilbrigðisþjónustu - en þar starfar fjöldi kvenna, segir Åsa Lindhagen, ráðherra jafnréttismála í Svíþjóð.

Ráðherrarnir kalla einnig eftir samnorrænni úttekt á kórónukreppunni og á því hvaða aðgerðir hafa haft jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.